Á sama tíma og skipulagning hinnar árlegu Druslugöngu stendur sem hæst, lýsir lögreglan í Vestmannaeyjum því yfir að ekki verði upplýst um möguleg kynferðisbrot sem kærð verða á Þjóðhátíð fyrr en lögregla telji það tímabært. Nítján nauðganir hafa verið tilkynntar á Þjóðhátíð frá árinu 2004.
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir ummæli sín í Fréttablaðinu og Stöð 2 um nauðganir á Þjóðhátíð. Páley sagði svo við Fréttastofu RÚV síðdegis í dag að hún hafni því alfarið að um þöggun sé að ræða.
„Við höfum upplifað sjálf, á eigin skinni, að það hefur sett mál í uppnám hjá okkur þegar fjölmiðlaumræða hefur farið af stað of snemma,“ sagði Páley. Þá undirstrikar hún að fjölmiðlar eigi að fá upplýsingar um kynferðisbrot, bara ekki jafn óðum. Það fari eftir eðli mála og rannsóknarhagsmunum hvenær það verði.
Mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða
Druslugangan verður gengin í sjötta sinn á laugardaginn næstkomandi, 23. júlí, klukkan 14 frá Hallgrímskirkju. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða, forvarna og fræðslu. Yfirlýst markmið göngunnar er að útrýma kynferðisofbeldi, styðja við þolendur kynferðisofbeldis og ítreka að klæðnaður, hegðun eða fas þolenda er aldrei afsökun fyrir slíkum glæpum. Í ár er kastljósinu sérstaklega beint að mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða, forvörnum og fræðslu.
Einkennisorð göngunar í ár eru „Ég er ekki ofbeldið sem ég varð fyrir” og „Þú ert sama manneskjan fyrir mér”. Með þessu er tekið á algengri tilfinningu þolenda um breytta sýn þeirra og annarra á sjálf sig eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi og ítrekað að skömmin er ekki þolenda að bera.
„Við erum ekki að sjá þessi brot, sem betur fer“
Páley sagði að flestar nauðganir gerist á milli fólks sem þekkist og fari ekki fram í almannarými. Því stafi ekki almannaógn af þeim sem fremji brotin.
„Flest þessara brota eiga sér stað á milli tveggja einstaklinga í lokuðum rýmum þangað sem fólk fer yfirleitt sjálfviljugt. Það er bara staðreyndin. Við erum ekki að sjá þessi brot, sem betur fer og vonandi munum við ekki sjá það og reynum að fyrirbyggja með öflugri gæslu og svona, þessi almannafærisbrot. Og það er náttúrlega það sem sífellt er verkefni lögreglu. Að reyna að tryggja löggæslu á almannafæri og alls staðar svo fólk sé óhult þar sem það er á gangi á ýmsum vettvangi. En það er erfiðara við að eiga, og þess vegna eru þetta svona viðkvæm brot, þau gerast mjög oft á milli tengdra og nátengdra aðila inni í lokuðu rými.“
Þá sagði Páley einnig að þar sem Ísland sé svo lítið land að „um leið og það er búið að tilkynna að það hafi orðið brot þá fer fólk að leggja saman tvo og tvo.“
Páley sagði við RÚV síðdegis í dag að ummælin hefðu verið tekin úr samhengi.
Ummælin harðlega gagnrýnd
Páley var gagnrýnd harðlega á samfélagsmiðlum í gær og dag. Formaður landssambands lögreglustjóra neitaði að tjá sig um málið við RÚV í hádeginu, en Fréttablaðið birti í morgun frétt þar sem fram kom að sjö af níu umdæmum lögreglu ætli að upplýsa um fjölda mögulegra kynferðisbrota eftir verslunarmannahelgina.
Vefsíðan Knúz.is og Aðgerðarhópurinn Aktívismi gegn nauðgunarmenningu sendu frá sér mótmælabréf þar sem fram kom að þolendur hafi lengi, og alveg sérstaklega undanfarnar vikur og mánuði, „gert hverjum þeim sem kýs að hlusta á raddir þeirra rækilega ljóst, að þögnin hefur aldrei verið þeim í hag, að þögnin er í raun enn frekara ofbeldi gegn þeim. Tilmæli um að upplýsa ekki um kynferðisbrot, jafnvel þótt eftir verði spurt, virðast í raun tilraun til að breiða yfir þá staðreynd að á Þjóðhátíð er kynferðisofbeldi viðvarandi vandamál og að hátíðarstjórnendur hafa aldrei gert nóg, né virst hafa áhuga á að gera nóg, til að vernda gesti sína gegn ofbeldismönnum.“
Í þessu samhengi má vitna í skipuleggjendur Druslugöngunnar:
„Það er það einlæg trú okkar sem skipuleggjum gönguna að með þessari baráttu getum við ekki einungis hjálpað þeim sem orðið hafa fyrir ofbeldi heldur einnig komið í veg fyrir það. Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg vakning í samfélaginu um kynferðisofbeldi og afleiðingar þess. Þögnin hefur verið rofin af þúsundum einstaklinga sem hafa varpað ljósi á hversu gríðarlega stórt samfélagsvandamál kynferðisofbeldi er,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum Druslugöngunnar.
Þrjár nauðganalausar Þjóðhátíðir frá 2004
Það er svo sem gömul saga og ný að undarleg umræða komi upp í kring um nauðganir á Þjóðhátíð. Páll Scheving, þáverandi formaður Þjóðhátíðarnefndar, sagði árið 2011 að starfsfólk Stígamóta ættu ekki að vera sýnileg á Þjóðhátíð þar sem hann teldi að það „magnaði upp þann vanda sem nauðganir eru á útihátíðinni.“ „Það er eins og samtökin nærist á því að vandamálið sé til staðar og það reyni frekar að ýta undir það heldur en hitt. Vandamálin eru alltaf miklu fleiri og stærri þegar Stígamót eru á staðnum," sagði Páll. Aldrei hafa fleiri nauðganir verið tilkynntar og þetta sama ár, en þær voru fimm. Frá árinu 2004 hafa 19 nauðganir verið tilkynntar til lögreglu. Þrjár Þjóðhátíðir hafa verið haldnar á tímabilinu án þess að nauðgun sé tilkynnt.
„Minnum fólk á að nauðga bara heima hjá sér“
Töluverð umræða skapaðist á net- og samfélagsmiðlum í morgun þegar Margrét Erla Maack, einn þáttastjórnandi Morgunútvarps Rásar 2, sagði í lokaorðum sínum í þættinum í morgun: „Minnum fólk á að nauðga bara heima hjá sér í Vestmannaeyjum,“ þegar þáttastjórnendur kynntu inn Þjóðhátíðarlagið 2016.
Margrét baðst síðar afsökunar á ummælum sínum og sagði þau hafa verið óviðeigandi í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu. Frank Hall, dagskrárstjóri Rásar 2, sagði í kjölfarið að málinu væri lokið. Í samtali við Mbl.is sagði Margrét Erla að um hafi verið að ræða kaldhæðnislega athugasemd um ljótan veruleika og að henni sé nóg boðið hvað varðar hvernig tekið er á kynferðisbrotum í Vestmannaeyjum. Hún viðurkenndi að kaldhæðni skili sér þó illa í útvarpi.