Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, beitti Aldísi Hilmarsdóttur, fyrrverandi yfirmann fíkniefnadeildar lögreglunnar, ítrekuðu einelti og færði hana til í starfi á röngum forsendum. Aldís hefur stefnt ríkinu á grundvelli þess að tilfærsla hennar í starfi hafi verið saknæm og ólögmæt. Sigríður Björk neitar að tjá sig um málið.
„Dulbúin og fyrirvaralaus brottvikning“
Stefnan var birt ríkislögmanni í vikunni. Þess er krafist að tilfærslan verði ógild og að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða Aldísi 2,3 milljónir króna í miskabætur. Fram kemur í stefnunni að rök fyrir breytingu á starfi Aldísar hafi verið byggð á ómálefnalegum forsendum og tekin án þess að gæta að lögum og reglum um stjórnsýslurétt. Ákvörðunin hafi í raun falið í sér „dulbúna og fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi.“ Þá er vísað til þess að lögreglustjórinn hafi aldrei litið á breytinguna sem neitt annað en brottrekstur, þar sem hún vísaði til Aldísar í fjölmiðlum í júní sem „fyrrverandi yfirmann“ fíkniefnadeildar.
Sigríður Björk færði Aldísi til í starfi viku eftir að Aldís átti fund með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra þar sem samskiptavandi innan lögreglunnar var meðal annars ræddur. Hún var áður yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar.
Fékk ekki andmælarétt
Í stefnunni er málið útlistað og upp talin atriði sem hafa valdið því að tilfærsla Aldísar í starfi hafi verið henni íþyngjandi. Lögreglustjóri hafi tekið ákvörðunina gegn vilja Aldísar og hafði það í för með sér að hún var svipt öllum mannaforráðum. Hún var í kjölfarið sett undir stjórn starfsmanns sem nýtur ekki formlegrar tignar innan lögreglunnar. Hún fékk allt öðruvísi verkefni en hún var vön að fást við og ekki lá fyrir hversu lengi þessi breyting í starfi átti að standa. Karlmaður með minni reynslu af rannsóknum brota en Aldís og enga reynslu af stjórnun rannsóknardeildar var settur í hennar stað.
Þá segir í stefnunni að Sigríður Björk hafi brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga á fleiri en einn hátt, meðal annars með því að neita Aldísi um að andmæla þegar henni var tilkynnt um breytingarnar. Hún fékk því aldrei að koma sjónarmiðum sínum formlega á framfæri.
Las upp úr tölvupóstum fyrir undirmenn
Aldís segir Sigríði Björk hafa lagt sig í einelti á vinnustaðnum með ámælisverðum hætti. Í stefnunni kemur fram að með endurteknum hætti hafi hún valdið henni vanlíðan, meðal annars með því að draga að skipa hana í starf sem aðstoðaryfirlögregluþjón, reynt að koma henni úr starfi með því að leggja til flutning til héraðssaksóknara og gengið um deild Aldísar og lesið upphátt úr tölvupóstum hennar til sín fyrir undirmenn og aðra samstarfsmenn Aldísar.
Ferill málsins
- Apríl 2014 - Aldís var ráðin til eins árs sem aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður fíkniefnadeildar, með framtíðarskipun í huga.
- Vorið 2015 - Vinnusálfræðingur fenginn til að meta samskiptavanda innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ágreiningur kom upp á milli Aldísar og Sigríðar Bjarkar um hvernig taka ætti á málum starfsmanns í deild Aldísar sem hafði verið sakaður um brot í starfi.
- 29. apríl 2015 - Aldís var skipuð í stöðuna til næstu fimm ára.
- Júlí 2015 - Rannsóknardeildir fjármunabrota og fíkniefnabrota voru sameinaðar í nýja deild undir stjórn Aldísar.
- September 2015 - Innleiðingarhópur tekur til starfa til að innleiða breytingarnar á nýju deildinni. Aldís var í þeim hópi.
- Nóvember 2015 - Vinnusálfræðingur skilar skýrslu um samskiptavanda innan lögreglunnar.
- 14. desember 2015 - Aldís var boðuð á fund Sigríðar Bjarkar. Á fundinum var einnig Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur embættisins. Í stefnunni segir að á fundinum hafi lögreglustjóri „á framfæri ýmsum órökstuddm ásökunum á hendur stefnanda og bauð stefnanda í lok fundar að flytja sig til héraðssaksóknara.“
- Janúar 2016 - 17 lögreglumenn höfðu kvartað til Landssambands lögreglumanna vegna vinnubragða og framkomu lögreglustjóra.
- 15. janúar 2016 - Aldís á fund með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra þar sem hún ræðir um samskiptavanda hennar og lögreglustjórans. Síðar sama dag kom Sigríður Björk á skrifstofu Aldísar til að ræða hvað fram hefði farið á fundinum með innanríkisráðherra.
- 18. janúar 2016 - Aldís fékk tölvupóst frá lögreglustjóra þar sem henni var tilkynnt að „vegna ástandsins í fíkniefnadeildinni“ hafi lögreglustjóri ákveðið að breyta skipan valnefndar sem hafði það hlutverk að ráða nýja lögreglufulltrúa í hina miðlægu deild undir stjórn hennar. Þá sagði Sigríður Björk einnig að Aldís ætti ekki lengur sæti i nefnd sem réði í nýjar stöður, en Aldís hafði verið skráður tengiliður fyrir nýja umsækjendur.
- 22. janúar 2016 - Sigríður Björk tilkynnti Aldísi breytingar á starfsskyldum hennar og afhenti henni bréf þess efnis. Breytingin átti að taka gildi frá og með 25. janúar og vara í hálft ár eða þar til annað yrði ákveðið. Hún átti þá að vinna nýtt starf á nýrri deild, undir stjórn Öldu Hrannar. Í kjölfarið fór Sigríður Björk í viðtöl í fjölmiðlum og nafngreindi Aldísi án hennar leyfis.
- 25. janúar 2016 - Aldís óskaði eftir rökstuðningi.
- 5. febrúar 2016 - Sigríður Björk sendi rökstuðning. Í stefnunni segir að hann hafi helgast „öðrum þræði af tilhæfulausum hugmyndum um að stefnandi hefði á einhvern hátt gerst sek um vanrækslu í starfi og ásakanir á hana bornar sem ekki eiga við nein rök að styðjast.“
- 23. febrúar 2016 - Aldís svarar bréfi Sigríðar Bjarkar og bendir henni á að brotið hefði verið gegn réttindum hennar.
Mikið áfall
Ákvörðun lögreglustjórans varð Aldísi mikið áfall og segir í stefnunni að þetta hafi verið áfellisdómur yfir hennar störfum hjá lögreglunni. Hún hefur verið óvinnufær síðan. Þá hefur það haft áhrif hversu mikla athygli málið hefur fengið í fjölmiðlum og að Sigríður Björk hafi tjáð sig um það með „opinskáum, röngum og misvísandi hætti“. Orðspor Aldísar hafi því beðið tilhæfulausa hnekki.
Skorað á ráðherra að leggja fram skýrsluna
Skorað er á Ólöfu Nordal innanríkisráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að mæta fyrir dóm fyrir hönd íslenska ríkisins þegar málið verður þingfest í dómshúsi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. september næstkomandi. Þá er einnig skorað á ríkið að leggja fram skýrslu vinnusálfræðings sem greindi samskiptavandann innan lögreglunnar.