Um eitt þúsund ný sumarhús eru byggð hér á landi á hverjum þremur árum. Fjöldi sumarhúsa aukist um 70 prósent á síðustu 20 árum. Árið 1997 voru skráð rúmlega 7.500 sumarhús á landinu en í árslok 2014 voru þau orðin rúmlega 12.700. Samkvæmt tölum Fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands eru langflest sumarhús á Suðurlandi og hefur fjöldinn þar nær tvöfaldast á síðustu tveimur áratugum.
Meðalkaupverð sumarhúsa hefur hækkað um allt að 75 prósent frá hruni, er fram kemur í tölum Þjóðskrár um verð á sumarhúsum. Meðalfermetraverð er nú það sama, og sums staðar meira, en það var fyrir hrun. Verðið er þó mjög misjafnt eftir landshlutum.
Sumarhús virðast vera dýrust á Norðurlandi og ódýrust á Vestfjörðum, samkvæmt tölunum. Hafa ber í huga að úrtakið á Vestfjörðum og í Reykjavík og á Reykjanesi, er afar lítið; einungis þrjú og fjögur. Það gæti því skekkt myndina.
Sumarhús á Norðurlandi kostuðu að meðaltali um 16,3 milljónir króna í árslok 2015. Sumarhús á Suðurlandi voru örlítið ódýrari og kostuðu rúmar 16 milljónir að meðaltali. Húsin á Vestfjörðum kostuðu tæpar fimm og hálfa milljón að meðaltali og á Austurlandi kostuðu þau rúmar sex og hálfa milljón.
Einn bústaður á hverjar sex fjölskyldur
Fjöldi sumarhúsa til sölu þrefaldaðist á fyrsta árinu eftir hrun. Árið 2009 voru um fimm til sex prósent heildarfjöldans á sölu, en á því hægðist eftir því sem á leið. Í dag eru tæplega 4,5 prósent bústaða á landinu á söluskrá. Á fastegnavef Vísis er að finna um 550 sumarhús á skrá og hjá MBL eru þau um 580. Eins og áður segir eru skráð sumarhús um 12.700 talsins. Sé litið til fjölda fjölskyldna á hvern bústað að meðaltali má segja að einn bústaður sé á hverjar sex fjölskyldur, en um 80.000 kjarnafjölskyldur eru skráðar á landinu.