Hin átján ára gamla Yusra Mardini verður fyrsti íþróttamaðurinn í keppnisliði flóttamanna sem keppir á Ólympíuleikunum í Ríó í dag. Hún hefur æft stíft undanfarið í sundhöllum Berlínar í Þýskalandi, þangað sem hún komst eftir meira en mánaðar flótta frá heimalandi sínu Sýrlandi fyrir réttu ári síðan.
Í ágúst í fyrra lagði hún á flótta ásamt systur sinni frá heimili sínu í úthverfi í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, með það að markmiði að komast til Evrópu í von um betra líf, langt í burtu frá hryllingi stríðsins og sífelldri hættu á að verða fyrir sprengingum. Hún segir líf sitt hafa breyst hratt eftir að stríðið braust út árið 2011. „Allt í einu gat maður ekki farið það sem maður vildi,“ segir hún í samtali við New York Times. Skólinn var lokaður svo dögum skipti og skothríðir heyrðust oft svo hún þurfti að hlaupa í skjól.
Árið 2012 var heimili þeirra lagt í rúst í Darayya-fjöldamorðunum þar sem tveir af hennar bestu vinum úr sundinu létust. Síðar reif sprengja þakið af sundhöllinni þar sem þau æfðu sund. Það gerði útslagið fyrir hana sem bað móður sína um leyfi til að leggja á flótta. „Allt í lagi. Nú er nóg komið, sagði ég við mömmu,“ lýsir Mardini. „Hún sagði að það væri í lagi ef ég fyndi einhvern sem hún gæti treyst til að fara með.“
Hinn 12. ágúst 2015 flaug Mardini ásamt systur sinni og tveimur frændum sínum frá Damaskus til Beirút í Líbanon. Þaðan komust þau til Istanbúl í Tyrklandi og komust í samband við smyglara. Í hópi 30 annarra flóttamanna voru þau flutt í rútu inn í þéttan skóg nærri vesturströnd Tyrklands þar sem beðið var færis á að sigla til grísku eyjarinnar Lesbos. „Við héldum að þetta væri eina rútan á svæðinu en það komu fjórar eða fimm rútur fullar af fólki á dag. Það biðu tvö til þrjú hundruð manns eftir færi á að komast óséð af lögreglunni á haf út,“ lýsir Mardini.
Fjórum dögum síðar var Mardini-systrum komið fyrir á litlum sex manna báti ásamt 18 öðrum. Í hópnum var fólk á öllum aldri. Tilraunir þeirra til að komast fram hjá lögreglu og landamæravörðum gengu ekki þrautalaust. Í fyrsta sinn náðust þau og voru send til baka. Í seinni tilrauninni varð báturinn vélarvana eftir um 20 mínútna siglingu. Veðrið var ekki gott og sjórinn úfinn.
Systurnar gripu til þess ráðs að stökkva frá borði ásamt tveimur öðrum strákum sem kunnu að synda og hófu að ýta bátnum. „Allir fóru með bænir og kölluðu til tyrkneskra eða grískra lögreglumanna og óskuðu eftir hjálp. Þeir svöruðu með því að benda okkur til baka,“ segir Yusra Mardini. Þau héldu hins vegar áfram og stýrðu bátnum á sundi í hátt í fjórar klukkustundir. Strákarnir gáfust mun fyrr upp.
Mardini segir að þetta hafi verið ótrúlega erfið raun. Saltið úr sjónum brann í augun og á húðinni hennar. Það var kalt og fötin héldu aftur af henni. Á einum tímapunkti segist hún hafa velt fyrir sér hvað hún væri að hugsa. „Ég er sundkona. Mun ég deyja í vatninu eftir allt saman?“
Grét mest í biðröð eftir leyfum
Hópurinn náði loks landi á Lesbos. Þær systur höfðu sett stefnuna á Þýskaland svo ferð þeirra var rétt að byrja. Þær gengu langar leiðir, jafnvel svo dögum skipti og gistu á engjum og í kirkjum. Leigubílar stöðvuðu ekki fyrir þeim og veitingahús vildu sum ekki veita þeim þjónustu, jafnvel þó þær ættu peninga.
Þær hittu samt gott fólk inn á milli. Mardini rifjar upp stutt kynni sín af grískri stelpu sem hún heldur að hafi verið jafn gömul og hún. „Þegar ég komst Grikklands hafði ég tapað skónum mínum. Það var þarna grísk stelpa — ég held að hún hafi verið á svipuðum aldri og ég — og hún gaf mér skóna sína og gaf ungu barni peysuna sína.“
Leið þeirra systra lá í gegnum Makedóníu og Serbíu þar til þær komust á lestarstöðina í Búdapest í Ungverlandi í september. Eftir að þær höfðu keypt lestarmiða til Þýskalands fyrir mörg hundruð evrur lokuðu ungversk yfirvöld lestarstöðinni svo miðarnir voru ónýtir. Mikil mótmæli urðu fyrir utan lestarstöðina meðal flóttafólks í sömu stöðu og Mardini-systur. Á endanum komust þær til Þýskalands í gegnum Austurríki og lentu þær í flóttamannabúðum í Berlín. Þar deildu þær tjaldi með sex mönnum sem þær höfðu ferðast með.
Mardini segist hafa orðið glöð með að komst loks á leiðarenda. „Það voru engin vandamál. Ég var í Þýskalandi með systur minni. Þetta var markmiðið.“ Við tók langur vetur þar sem þær stóðu í löngum biðröðum til þess að geta skráð sig sem flóttamenn hjá þýska ríkinu og til að sækja um hæli. Þeim var oft vísað í burtu eftir átta klukkustunda bið í frosti og sagt að koma aftur daginn eftir. „Ég grét meira þar heldur en á meðan ferðalaginu stóð,“ segir Mardini.
Foreldrar Mardini-systra flúðu síðar frá Sýrlandi og hafa komist til Þýskalands til barna sinna. Yusra býr með systur sinni í íbúð í Berlín og hefur þeim verið veitt tímabundið hæli.
Þurfti að komast aftur í laugina
Faðir Yursru Mardini er sundþjálfari og kenndi henni að synda þegar hún var þriggja ára gömul. Hún hefur síðan keppt á alþjóðlegum sundmótum. Síðasta mótið sem hún tók þátt í var Heimsmeistarmótið í sundi á vefum alþjóða sundsambandsins árið 2012 í Istanbúl. Þá keppti hún í 200 metra fjórsundi, 200 metra skriðsundi og 400 metra skriðsundi.
Mardini segir að það hafi ekki verið forgangsatriði hjá henni að komast aftur í laugina en eftir að hún heyrði af sigri keppinautar síns í sundkeppni í Asíu þá hafi hún fengið löngunina aftur. Egypskur túlkur í flóttamannabúðunum í Berlín kom henni í samband við sundþjálfara þýska sundfélagsins Wasserfreunde Spandau 04 sem féllst á að leyfa henni að spreyta sig.
Þjálfaranum, Sven Spannekrebs, leist vel á tæknilega getu Yusru Mardini í lauginni en sá strax að tveggja ára fjarvera úr lauginni hafði haft slæm áhrif á þolið. Eftir að hafa synt með sundfélaginu í nokkrar vikur varð Spannekrebs viss um að Mardini gæti átt möguleika á að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020.
Alþjóða ólympíunefndin tilkynnti í mars að fimm til tíu íþróttamönnum yrði boðið til að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó undir merkjum Ólympíuleikanna vegna flóttamannavandans í heiminum. Fólkið sem yrði valið væri íþróttafólk á flótta frá heimalandi sínu vegna stríðs eða útskúfunar.
Mardini hlaut íþróttatengdan skólastyrk frá Alþjóða ólympíunefndinni í janúar sem Mardini notar til að borga leigu á íbúð. Spannekrebs hefur haft hana á ströngum æfingum fyrir Ólympíuleikana; Á hverjum degi eru tvær tveggja stunda langar sundæfingar auk klukkutíma langrar æfingar á bakkanum. Á milli æfinga fer hún í skólann.
Sundkonan unga frá Sýrlandi mun stinga sér til sund á Ólympíuleikunum í Ríó síðdegis í dag. Mardini syndir fyrir sérstakt ólympíulið flóttafólks í Ríó, eins og greint var frá hér að ofan, og verður fyrst keppenda liðsins til að keppa á leikunum. Þetta er enn fremur í fyrsta sinn sem sérstakt lið er skipað flóttafólki sem getur ekki, vegna stríðs eða útskúfunar, keppt fyrir heimaland sitt.
Mardini keppir í tveimur greinum á Óympíuleikunum: 100 metra flugsundi og 100 metra skriðsundi. Hún hefur hins vegar ekki náð lágmörkunum sem þarf til að öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikum í þessum greinum. Besti tími Mardini í 100 metra flugsundi er ein mínúta og átta sekúndur og í 100 metra skriðsundi er besti tíminn hennar ein mínúta og tvær sekúndur. Lágmörkin eru níu sekúndum hraðari í flugsundinu og ellefu sekúndum hraðari í skriðsundinu.
Í keppnisgreininni í dag, 100 metra flugsundi, er hún í riðli tvö. Áætlað er að Mardini verði ræst af stað klukkan 16:31 að íslenskum tíma. Sýnt verður frá sundkeppninni á aðalrás RÚV.