Nú er nýtt keppnistímabil í stærstu deildum heimsins í fótboltanum farið af stað, og kastljósið beinist nú sem fyrr að stærstu knattspyrnufélögum heimsins. Þar eru spænsku stórveldin Barcelona og Real Madrid fremst meðal jafningja þegar kemur að stjörnum prýddum leikmannahópum.
Í gegnum tíðina hefur það oft verið leikmönnum erfitt að færa sig á milli þessara rótgrónu erkifjenda í heimsfótboltanum. En það eru undantekningar. Fyrir sumum leikmönnum er enn þá borin mikil virðing hjá báðum félögum.
Barcelona var stofnað 26. nóvember 1899 og er því tæplega 117 ára gamalt, á meðan Real Madrid var stofnað 6. mars 1902. Allt frá þessum tíma, í meira en heila öld, hafa þessi stórveldi dregið til sín marga af bestu fótboltamönnum heimsins á hverjum tíma og barist um öll þau verðlaun sem í boði eru bæði á Spáni og í Evrópu.
Á síðustu árum hafa fimm leikmenn alveg sérstaklega slegið í gegnum hjá báðum liðum, og jafnframt tekist að mynda sterkt samband við aðdáendur beggja liða.
Kjarninn tók saman topp 5 lista yfir leikmenn sem hafa spilað með bæði Barcelona og Real Madrid.
5. Núverandi þjálfari Barcelona, Luis Enrique, lék með Real Madrid á árunum 1991 til 1996, samtals 157 leiki. Hann var lykilmaður á miðjunni og lék oftast sem hægri vængmaður í sterku liði Real Madrid. Aðdáendur liðsins urðu æfir þegar hann fór til Barcelona eftir að samningur hans rann út. Þar hitti hann fyrir stjörnur Katalóníustórveldsins og lék með liðinu 200 deildarleiki á átta ára tímabili, frá 1996 til 2004. Enrique var þekktur fyrir að vera skapbráður, og uppstökkur en líka duglegur og snjall leikmaður.
4. Daninn Michael Laudrup er af flestum álitinn besti leikmaður sem komið hefur frá Norðurlöndunum. Hann átti stórkostlegan feril, bæði með félagsliðum og danska landsliðinu. Hann sló í gegn með Lazio á Ítalíu á árunum 1983 til 1985 og þótti þá einn hæfileikaríkasti leikmaður í ítölskum fótbolta. Juventus keypti hann árið 1985 og lék hann við góðan orðstír með liðinu fram til ársins 1989 þegar stórveldið Barcelona keypti hann. Laudrup var stórkostlegur með Barcelona, og þótti bera af öllum leikmönnum á Spáni á þessum tíma. Þegar hann var sem bestur, komst Danmörk óvænt inn á EM í Svíþjóð, árið 1992, þar sem Balkanskagastríðið kom í veg fyrir að Júgóslavía gæti sent til leiks. Laudrup var í fýlu við þjálfarann og fór ekki, en bróðir hans, Brian, blómstraði í staðinn ásamt öðrum leikmönnum danska liðsins. Þeir stóðu óvænt uppi sem Evrópumeistarar og það án helstu stjörnunnar.
Michael Laudrup hélt áfram að leika frábærlega á Spáni og fór til Real Madrid árið 1994 þar sem hann lék fram til ársins 1996. Aðdáendur Barcelona urðu æfir af reiði við vistaskiptin, en í seinni tíð hafa þeir fyrirgefið honum enda átti hann frábæran tíma hjá félaginu, og stjórnaði leik liðsins eins og töframaður oft á tíðum.
3. Króatinn Robert Prosinecki var einkum frægur fyrir tvennt á sínum ferli. Annars vegar fyrir mikla hæfileika og boltatækni, og hins vegar fyrir að reykja tvo pakka af Marlboro sígarettum alla daga. Prosinecki skaust upp á stjörnuhimininn árið 1989 með Rauðu Stjörnunni frá Belgrad en hann var leikstjórnandi liðsins þegar það varð óvænt Evrópumeistari Meistaraliða í Evrópu, sem var forveri Meistaradeildar Evrópu nú. Prosinecki lék sér oft af andstæðingum sínum með því að draga boltann til og frá, áður en hann gaf góða sendingu eða skaut að marki. Real Madrid keypi hann árið 1991 og sýndi hann fljótt góð tilþrif. Hann var látinn fara til Oviedo 1994, þar sem hann gerðist sekur um agabrot sem Real Madrid félagið sætti sig ekki við. Hjá Oviedo sýndi hann allar sýnar bestu hliðar og ákvað Barcelona að kaupa hann, með von um að hann héldi sig á mottunni og tækist að sýna sitt rétta andlit sem fótboltamaður. Það tókst honum vel í fyrstu, en hann þótti ekki nægilega góð fyrirmynd og var látinn fara áður en Bobby Robson, breska goðsögnin, tók við stjórnartaumunum sem knattspyrnustjóri.
Prosinecki kom óvænt til Portsmouth árið 2001, þegar Harry Redknapp var þar yfirmaður knattspyrnumála. Hann var gjörsamlega formlaus eftir mikil meiðsli, en sýndi hæfileika sína af og til, aðdáendum á Fratton Park, heimavelli Portsmouth, til mikillar gleði. Peter Crouch, sem þá var að unglingur í framlínu Portsmouth, skoraði ófá mörkin eftir sendingar frá Prosinecki. Í ævisögu sinni, Walking Tall, segir Crouch að Prosinecki hafi verið stórkostlegur leikmaður (Fantastic player), og í það minnsta jafn hæfileikaríkur Steven Gerrard og Paul Scholes, sem hann lék með hjá enska landsliðinu. Hjá Portsmouth hafi hann hann í raun ekkert geta hlaupið (He didn't do much running – he couldn't run really) en það hafi ekki skipt öllu máli. Snilldin var í tánum, og hafði áhrif á alla leikmenn í kringum hann.
2. Portúgalinn Luis Figo kom til Barcelona árið 1995 og var hluti af miklum sóknarher Katalóníuliðsins. Tímabilið 1996 til 1997 varð hann að stórstjörnu þar sem hann raðaði inn mörkum og gaf fjölda stoðsendinga. Sérstaklega naut tvítugur piltur í framlínunni hjá Barcelona, Ronaldo að nafni, góðs af góðum fyrirgjöfum Figo. Mörkin urðu 36 í 37 leikjum hjá Ronaldo og var Figo oft maðurinn á bak við undirbúning markanna.
Figo varð að leiðtoga félagsins, innan sem utan vallar, og var horft til hans sem virtasta leikmanns félagsins eftir að fyrirliðinn Josep Guardiola fór frá félaginu. Figo var hins vegar pirraður á því að liðinu tækist ekki að halda Ronaldo og síðan fleiri stórstjörnum eftir því sem leið á, auk þess sem varnarleikur liðsins var ekki upp á marga fiska. Figo hótaði að fara á 100 ára afmælisári félagsins, árið 1999, en það tókst að róa hann niður með langtímasamningi við þáverandi besta leikmann heims, Rivaldo. En árið 2000 gerðist samt hið ómögulega. Figo fór til Real Madrid og var þá þegar kominn í skammarkrókinn fyrir lífstíð hjá aðdáendum Barcelona. Hann mun líklega aldrei komast úr þeim skammarkrók. Figo var frábær hjá Real Madrid lék með liðinu á árunum 2000 til 2005, með stórstjörnum Evrópuboltans. Figo lauk svo ferli sínum hjá Inter eftir að hafa leikið með liðinu í fjögur ár, frá 2005 til 2009.
1. Ronaldo hinn brasilíski kom til Barcelona árið 1996 eftir að hafa slegið í gegn með PSV í Hollandi. Þar héldu honum engin bönd. Bobby Robson keypti hann fyrir metfé, og strax í fyrstu leikjunum varð ljóst að þarna var sérstakur leikmaður á ferðinni. Hraði, líkamlegur styrkur, tækni og framúrskarandi hæfileikar til að klára færi, gerðu hann að eins manns her í sóknarleik Barcelona. Hann varð fljótt umtalaður sem besti leikmaður sinnar kynslóðar í heiminum, og einn sá allra besti í sögunni. Robson sjálfur lýsti honum sem allra besta leikmanni sem hann hefði nokkurn tímann séð. Því miður fyrir Barcelona þá fór Ronaldo til Inter eftir aðeins eitt tímabil hjá þeim spænsku, þrátt fyrir að hafa verið kosinn besti leikmaður heims þegar hann lék þar. Ronaldo var stórkostlegur hjá Inter fyrsta tímabilið, og var aftur kosinn besti leikmaður heims. Síðan tók við erfiður tími þar sem hnémeiðsli gerðu honum lífið leitt. Í meira en tvö ár spilaði hann aðeins sex mínútur af alvöru fótbolta, en hann sleit í tvígang liðbönd í hné.
Hann setti stefnuna á að koma til baka fyrir HM árið 2002, og tókst það. Þar kom hann sá og sigraði. Varð markahæstur með átta mörk, heimsmeistari og leikmaður keppninnar. Ronaldo var mættur aftur og Real Madrid kveikti strax á perunni. Ronaldo var keyptur til Real Madrid og sló strax í gegn, með tveimur mörkum í fyrsta leik. Hann lék með liðinu í fimm ár, og skoraði 83 deildarmörk í 127 leikjum.