Íbúar Kristjaníu í Kaupmannahöfn óttast um framtíð svæðisins eftir að fíkniefnasali skaut og særði tvo lögreglumenn sem voru þar á eftirlitsferð sl. miðvikudagskvöld. Annar þeirra liggur milli heims og helju á sjúkrahúsi. Ennfremur varð erlendur ferðamaður fyrir skoti. Fíkniefnasalinn særðist lífshættulega þegar hann reyndi að flýja, eftir að lögregla hafði umkringt hús þar sem hann hélt sig, og lést síðar af sárum sínum.
26. september næstkomandi verða 45 ár síðan hópur fólks lagði undir sig fyrrverandi umráðasvæði hersins á Kristjánshöfn. Hópurinn lýsti yfir stofnun fríríkis á svæðinu, Kristjaníu. Svæðið sem um ræðir er 34 hektarar á stærð og Kristjanittarnir (eins og þeir eru kallaðir) lögðu þegar undir sig fjölmargar byggingar hersins. Á þessum tíma var ekki hlaupið að því fyrir ungt fólk að komast yfir húsnæði og því voru margir tilbúnir að setjast að í „fríríkinu“. Margir þeirra sem fluttu í Kristjaníu í upphafi búa þar enn en íbúarnir eru í kringum eitt þúsund.
Þótt segja megi að Kristjanía sé einskonar ríki í ríkinu og þar sé margt með öðrum hætti en víðast hvar þýðir það ekki að íbúarnir hafi algjörlega frjálsar hendur um alla hluti. Margir stjórnmálamenn hafa iðulega haft horn í síðu Kristjaníu og íbúanna. Fyrir nokkrum árum náðist hinsvegar samkomulag um framtíð svæðisins, hluti þess samkomulags var að íbúarnir myndu kaupa hluta landsins og hafa samvinnu við borgaryfirvöld, nokkuð sem þeir höfðu lítt kært sig um fram að því.
Pusher Street og hassið
Fljótlega eftir að Kristjanía varð til varð svæðið að eins konar miðstöð verslunar með hass. Þótt salan væri ólögleg aðhafðist lögreglan lítið framan af og sá að mestu leyti „í gegnum fingur sér“. Kristjanía var frá upphafi vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem flykktust þangað til að sjá þetta „fyrirbæri“ þar sem lífstakturinn var, og er á ýmsan hátt öðruvísi en fólk á að venjast. Hassneysla var á þessum árum, eftir 1970, orðin talsvert útbreidd og bæði ferðamenn og heimafólk vissu að í Kristjaníu var hægur vandi að verða sér úti um „grasið“. Salan á hassinu hefur alla tíð verið að mestu takmörkuð við tiltekna götu sem gengur undir nafninu Pusher Street. Talið er að árleg velta á „hassmarkaðnum“ í Kristjaníu sé allt að milljarði danskra króna, 17 – 18 milljörðum íslenskum. Það er mikið fé og þess vegna margir sem gjarna vilja fá bita af kökunni.
Mótorhjólagengin sölsa undir sig markaðinn
Á 40 ára afmæli Kristjaníu, 2011, ræddi skrifari þessa pistils við fjölmiðlafulltrúa íbúanna. Þegar spurt var hvað það væri sem helst gæti ógnað framtíð svæðisins stóð ekki á svarinu: „við höfum mestar áhyggjur af rokkurunum (mótorhjólagengjunum) sem reyna með góðu og illu að sölsa undir sig hassmarkaðinn. Þeir svífast einskis, beita ofbeldi og gera út sölumenn sem lifa við stöðugar hótanir“. Svo mörg voru þau orð árið 2011 og síðan þá hafa rokkararnir barist hart til að ná undir sig hassmarkaðnum og ráða nú stórum hluta hans. Danskir fjölmiðlar fullyrða að ungi maðurinn sem særði lögreglumennina og var síðar skotinn til bana hafi verið hlaupadrengur hjá bakmönnunum svokölluðu, þeim sem stjórna hasssölunni.
Hörð viðbrögð stjórnmálamanna
Danskir stjórnmálamenn hafa brugðist hart við. Segja að nú sé mælirinn fullur og Kristjanittarnir verði að bregðast við. Tónninn er harðari en áður og engin leið sé að una því að lögreglumenn fái ekki að sinna störfum sínum.
Íbúarnir rifu hassbúðirnar
Á fjölmennum fundi sl. fimmtudagskvöld, sólarhring eftir að skotið var á lögregluna héldu íbúar Kristjaníu fjölmennan íbúafund. Ekkert spurðist út hvað fram fór á fundinum en morguninn eftir (föstudag) létu tugir Kristjaníubúa til skarar skríða og hófu niðurrif hassbásanna í Pusher Street. Lögreglan hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum látið rífa básana í tengslum við svonefndar rassíur en þetta er í fyrsta sinn sem íbúarnir sjálfir rífa þá niður. Þeir hafa líka skorað á almenning að leggja sér lið með því að versla ekki við sölumenn á svæðinu. „Við Kristjaníubúar getum ekki einir sigrast á hasskóngunum“ sagði fjölmiðlafulltrúi íbúanna í viðtali við danska útvarpið.
Hvað gera sölumennirnir nú?
Þessari spurningu er ekki auðsvarað. Það er vitað mál að þeir gefast ekki upp og takist þeim ekki að koma sér fyrir á nýjan leik inni í Kristjaníu má búast við að þeir reyni fyrir sér í nágrenninu. Kristjaníubúi sem pistlaskrifari hafði tal af sagðist búast við hinu versta og byssuskotin í fyrrakvöld yrðu ekki þau síðustu.