1. Í máli sem kallað hefur verið stóra markaðsmisnotkunarmál Kaupþings, og tekið var fyrir í Hæstarétti Íslands í morgun, eru níu fyrrverandi starfsmenn Kaupþings ákærðir. Þau níu sem voru ákærð eru Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána, Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri eigin viðskipta Kaupþings, Pétur Freyr Guðmarsson, fyrrverandi starfsmaður eigin viðskipta, Birnir Sær Björnsson, fyrrverandi starfsmaður eigin viðskipta, og Björk Þórarinsdóttir, sem sæti átti í lánanefnd Kaupþings. Björk er ákærð fyrir umboðssvik í málinu, ekki markaðsmisnotkun.
2. Í málinu er hinum ákærðu gefið að sök að hafa ýmist komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi, frá hausti 2007 og fram að falli bankans haustið 2008, og aukið seljanleika þeirra með „kerfisbundnum“ og „stórfelldum“ kaupum, eins og segir í ákæru, í krafti fjárhagslegs styrks bankans.
3. Stærð og umfang málsins á sér ekki hliðstæðu hér á landi. Aðalmeðferð þess í héraðsdómi Reykjavíkur tók 22 daga og yfir 50 manns voru kallaðir til sem vitni á meðan að hún stóð yfir. Það liðu fimm vikur frá því að aðalmeðferð í málinu lauk og þangað til að dómur fékkst.
4. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu 26. júní í fyrra að Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur, Einar Pálmi, Birnir Snær, Pétur Kristinn og Bjarki væru sekir í málinu. Bjarki var einungis dæmdur vegna ákæru fyrir umboðssvik. Tveimur liður ákæru á hendur Magnúsi var vísað frá en að öðru leyti var hann sýknaður af þeim sökum sem á hann voru bornar. Björk var sýknuð af ákærðu um umboðssvik í málinu.
5. Við aðalmeðferð málsins fyrir héraði fór Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara (nú embætti héraðssaksóknara) sem flutti málið, fram á að refsiramminn fyrir markaðsmisnotkunarbrot yrði fullnýttur auk þess sem tekið yrði tillit til 72. greinar almennra hegningarlaga um aukna refsingu þegar héraðdómur myndi fella dóma yfir Hreiðari Má, Sigurði og Ingólfi. Það þýddi að embætti sérstaks saksóknara fór fram á að þeir myndu allir fá níu ára fangelsisdóma.
6. Ingólfur Helgason hlaut þyngstan dóm í málinu, fjögurra og hálfs árs fangelsi. Bjarki H. Diego hlaut tveggja og hálfs árs dóm, Einar Pálmi tveggja ára skilorðsbundinn dóm og Birnir Sær og Pétur Kristinn fengu báðir 18 mánaða skilorðsbundinn dóm. Hreiðari Má var ekki gerð frekari refsing í héraði í málinu, en hann afplánar nún þegar fimm og hálfs árs fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins svokallaða. Sigurður Einarsson fékk eins árs hegningarauka við þann fjögurra ára dóm sem hann hlaut í Al Thani-málinu. Dómurinn í málinu er 96 blaðsíður að lengd.
7. Hreiðar Már og Magnús voru, líkt og áður sagði, báðir á meðal þeirra sem hlutu dóm í Hæstarétti Al Thani-málinu svokallaða. Þeir eru báðir í afplánun á Vernd sem stendur. Mannréttindadómstóll Evrópu er nú með það til athugunar að taka það mál til skoðunar. Þeir voru einnig dæmdir sekir í héraði í svokölluðu Marple-máli í október í fyrra. Hreiðar Már hlaut þá sex mánaða aukarefsingu en Magnús var dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Skúli Þorvaldsson var einnig dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar en Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var sýknuð af ákæru í málinu. Hreiðar Már og Guðný Arna voru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum og Skúli var ákærður fyrir hylmingu. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og bíður fyrirtöku þar. Hreiðar Már, Magnús og Sigurður voru hins vegar allir sýknaðir í svokölluðu CLN-málií Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar. Því mli hefur einnig verið áfrýjað til Hæstaréttar.
8. Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að fleiri hrunmál séu í rannsókn gagnvart einstaklingum sem þegar hafa hlotið dóma vegna annarra hrunmála. Þar á meðal eru mál sem snúa að Kaupþingi og hluta þeirra sakborninga sem þegar hafa hlotið dóma í Al Thani-málinu fyrir Hæstarétti og stóra markaðsmisnotkunarmálinu og Marple-málinu í héraðsdómi. Þá eru einnig mál til rannsóknar sem snúa að stjórnendum Glitnis og Landsbankans.
9.Verjendur þriggja sakborninga, Hreiðars Más, Sigurðar og Magnúsar, kröfðust þess að tveir hæstaréttardómarar, Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir, vikju sæti í stóra markaðsmisnotkunarmálinu þegar það yrði tekið fyrir í Hæstarétti. Þorgeir vegna þess að sonur hans væri yfirlögfræðingur Kaupþings ehf og hann hefði fjárhagslega hagsmuni af því að sakfellt yrði í málum gegn fyrrverandi stjórnendum og Ingveldur vegna þess að sonur hennar hafi starfað fyrir embætti sérstaks saksóknara á árunum 2011 til 2013. Hæstiréttur hafnaði kröfu þeirra á miðvikudag.
10. Málið var tekið fyrir í Hæstarétti Íslands í morgun og þar endurtók Björn Þorláksson saksóknari þá kröfu sína að refsiramminn yrði fullnýttur í málinu. Hann sagði, samkvæmt endursögn mbl.is, að sakborningar í málinu hefðu haft augljósan beinan og óbeinan hag af háttseminni vegna kaupréttar þeirra og himinhárra bónusgreiðslna. Það hefði stuðlað að því að þeir voru tilbúnir að grípa til örþrifaráða til að halda uppi verði hlutabréfanna. Umboðssvikin og markaðsmisnotkunin hefðu átt þátt í að leiða bankann til glötunar og gera tjón kröfuhafa og samfélagsins verra. Þá væru brotin fordæmalaus hvaða varðar stærð þó dæmt hefði verið fyrir svipuð brot áður.