Donald J. Trump, forsetaefni Repúblikana í Bandaríkjunum, sagðist í kappræðum hans og Hillary Clinton, forsetaefni Demókrata, ekki geta treyst sér til fullyrða að ekki verði „svindlað“ í kosningum. Þriðju og síðustu níutíu mínútna sjónvarpskappræðurnar milli þeirra tveggja fóru fram í University of Nevada í Las Vegas í nótt.
„Ég mun líta á það þegar þar að kemur,“ sagði Trump, þegar spyrillinn Chris Wallace spurði hann hvort hann muni una niðurstöðu kosninganna. „Það sem ég hef séð er svo slæmt [...] Fjölmiðlarnir eru svo spilltir,“ sagði Trump, og bætti við að hann teldi kjósendur sjá í gegnum þetta.
Hillary mótmælti þessu harðlega, og sagði Trump margítrekað hafa talað um að niðurstöður í deilumálum hans hefðu verið svindl þegar þær féllu ekki hans megin. Þetta hefði átt við um Trump University, sem reyndist hálfgerð svikamylla eftir dómsniðurstöðu þar um, og einnig þegar þegar hann hefði tapað kosningum í einstökum ríkjum í forvali Repúblikana. „Þetta er það sem Trump gerir,“ bætti Hillary við. Hún sagði afstöðu Trumps vera bæði alvarlega, fyrir lýðræðishefð í landinu, og sorglega.
Chris Wallace spurði Trump einnig hvort hann myndi halda í heiðri 240 ára hefð í Bandaríkjunum um valdaskipti fari fram friðsamlega, hvernig sem kosningarnar færu. Trump sagðist ekki vilja svara því.
Fordæmalausar kappræður
Sjónvarpskappræðunum fyrir kosningarnar 8. nóvember er nú lokið, og eru flestir á því að Hillary hafi komið mun betur út úr þeim en Trump, sem beitti gífyrðum og sífelldum endurtekningum í málflutningi sínu, í öllum þáttunum.
Gengi Trumps í könnunum hefur farið verulega niður á við frá því kappræðurnar hófust, og metur vefurinn FiveThirtyEight nú 87,3 prósent líkur á sigri Hillary en 12,6 prósent líkur á sigri Trump. Áður en kappræðurnar hófust voru líkurnar metna 52 prósent með Hillary en 48 prósent með Trump. Framganga hans á undanförnum vikum, ekki síst eftir að Washington Post birti mynd- og hljóðupptöku af því þegar hann talaði með niðurlægjandi hætti um konur árið 2005, virðist hafa gert honum erfitt fyrir í kosningabaráttunni, svo ekki sé meira sagt. Ásakanir í það minnsta sex kvenna, um að hann hafi áreitt þær kynferðislega, hafa enn fremur fengið mikla athygli, en Trump hefur alfarið neitað því að hafa áreitt þær, og lét hafa eftir sér í kappræðunum í nótt að hann þekkti þessar konur ekkert. „Ég hef ekki einu sinni beðið konuna mína afsökunar, enda gerði ég ekkert. Ég veit ekkert hvað konur þetta eru,“ sagði Trump.
Hillary heldur ró sinni
Á meðan Trump hefur vaðið áfram, oft með fullyrðingaflaumi sem staðreyndavakt New York Times telur ekki eiga við nein rök að styðjast, hefur Hillary haldið ró sinni og reynt að halda sig við málefnin og áherslumál sín. Umræðan hefur þó oft verið næstum stjórnlaus, í þessum kappræðum, sem er gjörólíkt því sem vaninn hefur verið með sjónvarpskappræðurnar fyrir fyrri forsetakosningar í Bandaríkjunum. Meginástæðan er sú að Trump hefur beitt þeirri aðferðafræði að grípa fram í, og skjóta stuttum grípandi setningum inn í orðræðum, oft samhengislaust. Fyrir vikið hefur það verið nefnt að kappræðurnar nú séu fordæmalausar.