Það eru margir undrandi á stöðu mála í bandarískum stjórnmálum. Í framboði fyrir Repúblikana er nú yfirlýstur kynþáttahatari sem talar fyrir aðskilnaði á grundvelli uppruna og trúarbragða, og elur óttanum við efnahagsleg áhrif alþjóðavæðingar.
Þessi boðskapur verður ekki staðsettur hægra megin við miðjuna, svo mikið er víst. Það þjónar litlum tilgangi að staðsetja hann yfir höfuð á pólitískan kvarða. En það er stór og mikil spurning, hvernig á því stendur að hljómgrunnurinn í Bandaríkjunum fyrir þessum sjónarmiðum er það mikill að fylgi hans mælist nú, tæpum þremur vikum fyrir kosningar, 42,3 prósent. Hillary Clinton mælist með 49,7 prósent og Gary Johnson 5,8 prósent.
Þó allt bendi til þess að forskot Hillary Clinton sé nú þegar það mikið að erfitt sé fyrir Trump að vinna kosningarnar, þá er ekki hægt að útiloka neitt.
Kosningabaráttan hefur verið fordæmalaus þegar kemur að innistæðulausum upphrópunum frá Trump, og margir spyrja hvort það skipti engu máli hvort hann sé að segja sannleikann eða ekki.
Nokkur atriði er mikilvægt að fólk átti sig á þegar kemur að stöðu mála hér í Bandaríkjunum í aðdragaanda kosninganna 8. nóvember.
1. Efnahagslegur veruleiki ríkjanna er misjafn og má augljóslega greina fylgni á milli þessi hvernig efnhagurinn er samsettur, og hvar Trump hefur verið að mælast með mesta fylgið. Staðan hjá Repúblikunum hefur lengi verið slök í vestur- og austurstrandarríkjunum, en hún hefur sjaldan verið jafn slök og nú. Helsta vígið er í miðríkjunum, þvert í gegnum landið, og síðan í suðurríkjunum.
2. Vesturstrandarríkin þrjú, Washington, Oregon og Kalifornía, eru öll á bandi Hillary (miðað við meðaltölin) og öll austurstrandarríkin nema Suður-Karolína og Georgía eru á hennar bandi einnig, samkvæmt könnunum. Vafinn er helst um Florída, eins og venjulega, og Norður-Karolínu. En sé mið tekið af helstu könnunum þá eru miklar líkur á að Hillary verði með afar sterka stöðu í strandríkjunum. Sú staða gæti skipt sköpum þegar upp er staðið.
3. Á undanförnum áratug, ekki síst eftir að fjármálakreppuna á árunum 2007 til 2009, hefur efnahagsleg staða þessara strandríkja verið að styrkjast í mörgum tilvikum, á meðan staðan í miðríkjunum hefur versnað. Fjöldaframleiðslustörfum, ekki síst í frumframleiðslu, hefur fækkað hratt og fjárfesting með þeim flust til Asíu, ekki síst Kína. Ríki eins og Idaho, Wyoming og Nebraska – þar sem Trump mælist með yfirburðastöðu – hafa farið einkar illa út úr þessum efnahagslegu breytingum, sem teygja sig þó lengra aftur í tímann. Það sama má segja um Kansas, Oklahoma og Arkansans. Það er ekki að atvinnuleysi sé vandinn, heldur frekar að lág laun og lítil framþróun hái þeim. Atvinnuleysi mælist nú mest að meðaltali í Alaska, 6,8 prósent, en minnst í Suður-Dakóta. Farvegur fyrir öfgahópa, sem styðja hugmyndir um kynþáttahyggju og þjóðernishyggju, hefur verið að styrkjast í þessum efnahagslega veikburða ríkjum, og hefur Trump markvisst unnið í því að efla þar stemmningu meðal fólks og fá það með sér á kosningavagninn. Efasemdir um jákvæð áhrif alþjóðavæddra viðskipta og samninga við önnur ríki hljóma eins og múskík í eyrum kjósenda á þessum slóðum.
4. Fjölmennasta ríki Bandaríkjanna með um 40 milljónir íbúa er Kalifornía, þar á eftir kemur Texas með 28 milljónir og New York og Florida koma þar á eftir með um 20 milljónir íbúa hvort. Af um 320 milljóna heildaríbúafjölda býr um þriðjungur í þessum fjórum ríkjum. Langstærsta einstaka ríkis-hagkerfið er í Kaliforníu, með sjálfan sílikondalinn sem helstu uppsprettu nýsköpunar. New York kemur þar á eftir og síðan Washington-ríki.
5. Þau ríki þar sem baráttan er einna tvísýnust, samkvæmt spám og könnunum, eru Iowa og Arizona. Samkvæmt spá FiveThirtyEight eru 56 prósent líkur á sigri Hillary Clinton í Iowa en 44 prósent líkur á sigri Trump. Í Arizona eru hlutföllin þau sömu. Einnig er staðan spennandi í Ohio en líkurnar eru þó heldur Hillary megin. Samtals búa um 10 milljónir í Arizona og Iowa. Þar eins og víða annars staðar getur brugið til beggja vona, og ljóst að kosningaþátttaka mun skipta miklu máli.