Eigið fé útgerðarfélagsins Vísis var neikvæmt um 1,4 milljónir
evra í lok árs í fyrra, eða sem nemur um 174 milljónum króna, miðað við
núverandi gengi.
Þetta kemur fram í ársreikningi Vísissamstæðunnar fyrir árið í
fyrra. Sérstaklega er áréttað í skýringum ársreikningsins að stjórnendur telji félagið
rekstrarhæft og að það geti staðið við allar skuldbiningar þess. „Samkvæmt
efnahagsreikningi var eigið fé félagsins neikvætt um EUR 1,4 milljónir en
hagnaður ársins nam EUR 7,4 milljónum. Langtímalán félagsins eru í skilum og
engin vanskil á skuldum til staðar. Stjórnendur félagsins telja að rekstur
félagsins standi undir skuldbindingum þess og það sé því rekstrarhæft,“ segir í
ársreikningnum.
Í lok árs 2014 var staðan enn verri, en þá var eigið fé neikvætt um rúmlega 10 milljónir evra, eða sem nemur um 1,25 milljörðum króna.
Heildareignir félagsins námu 132 milljónum evra, eða sem nemur um 16,5 milljörðum króna. Heildarskuldir námu 133,4 milljónum evra, eða sem nemur tæplega 16,7 milljörðum króna.
Tæpur milljarður í hagnað
Hagnaður Vísis í fyrra nam 7,4 milljón evra, eða um 980 milljónum króna. Enginn arður var greiddur úr félaginu, enda félagið ekki með jákvætt eigið fé.
Stærsti einstaki eigandi félagsins í lok árs í fyrra var dánarbú Páls H. Pálssonar, með rúmlega 27 prósent hlut. Þá eiga Pétur, Kristín, Margrét, Sólný og Svanhvít Pálsbörn, 13,6 prósent hlut hvert og Páll J. Pálsson 4,8 prósent.
Á öðrum stað í reikningnum koma þó fram önnur eigendahlutföll, en þar eru aðeins tilgreindir innlendir hluthafar. Þar kemur fram að Pétur, Kristín, Margrét, Sólný og Svanhvít eigi öll 10,46 prósent, Páll H. Pálsson 20,92 prósent, og Páll J. Pálsson 3,69 prósent. Afgangurinn, rúmlega 23 prósent, er ekki tilgreindur í þeirri upptalningu.
Í stjórn Vísis eru Sveinn Ari Guðjónsson, Kristín Pálsdóttir, Margrét Pálsdóttir, Óskar Magnússon og Gústaf Baldvinsson. Þeir tveir síðastnefndu hafa báðir gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samherja um árabil, og hefur Óskar átt sæti í stjórn félagsins.
Framkvæmdarstjóri er Pétur H. Pálsson.
Langtímaskuldir við banka aukast
Langtímaskuldir Vísis við banka jukust umtalsvert á árinu 2015 miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs 2014. Í lok árs 2015 voru langtímaskuldir við banka tæplega 105 milljónir evra, eða sem nemur um 13,2 milljörðum króna. Í lok árs 2014 voru langtímaskuldirnar 40 milljónir evra, eða um fimm milljörðum króna. Tæplega 70 milljónir evra töldust til skammtímaskulda í lok árs 2014.
Rúmlega 98 prósent skulda er í evrum en í reikningnum segir að 64,7 milljónir evra, eða um átta milljarðar, séu á gjalddaga á næsta ári, 2017.