PJ Harvey mun koma fram á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni og stíga á svið í Valshöllin næstkomandi sunnudag. Margir fagna því eflaust en þetta er í fyrsta skiptið sem söngkonan heldur tónleika á Íslandi og ekki verður annað sagt en að þeir séu langþráðir. Hún er þekkt fyrir einstakan hljóm og frumlegar lagasmíðar. Hún er einnig myndlistarkona og hefur hún auk þess leikið í bíómyndum og ritað ljóðabók. Hún situr því ekki auðum höndum og kemur list sinni frá sér á margvíslega vegu. Hún hefur þó sagt í viðtölum að söngurinn sé hennar aðalform til tjáningar og að hún leiti alltaf þangað aftur.
Áhuginn kviknaði fljótt
PJ Harvey fæddist í Bridport á Englandi árið 1969. PJ er skammstöfun á Polly Jean en alla jafna er hún kölluð Polly. Hún lærði ung að spila á gítar og sem unglingur lærði hún á saxófón. Foreldrar hennar héldu að henni tónlist í uppeldinu og hlustaði hún á Captain Beefheart and Bob Dylan. Hún gekk til liðs við hljómsveitina Automatic Dlamini en með henni í bandinu var John Perish sem hún átti eftir að vinna frekar með síðar. Bandið átti eftir að ferðast um alla Evrópu á tónleikaferðalagi og taka upp tvær plötur en aðeins önnur þeirra var gefin út.
Polly ætlaði sér að verða myndlistarkona og lærði til þeirrar iðju en tónlistin togaði hana alltaf inn á aðrar brautir. Árið 1991 stofnaði hún bandið PJ Harvey ásamt bassaleikaranum Ian Oliver og trommaranum Rob Ellis. Stephen Vaughan tók fljótlega við af Oliver og eftir það fóru hjólin að snúast.
Fyrsta platan lofaði góðu
Fyrsta plata PJ Harvey kallast Dry, en hún kom út árið 1992. Polly hefur greint frá því í viðtölum að hún hafi lagt allt sem hún átti í plötuna, enda hafi hún ekki vitað hvort hún fengi annað tækifæri. Platan fékk feikilega góða dóma og fór aðdáendahópur að myndast í kringum hana.
Í umfjöllun DV frá árinu 1993 má finna lista þar sem platan var í 6. sæti yfir bestu erlendu plötur árið áður og lagið Sheela-Na-Gig í 2. sæti. Polly var valin besti lagasmiður ársins af tímaritinu Rolling Stones þetta ár. Kurt Cobain er meira að segja sagður hafa haldið mikið upp á PJ Harvey og talið Dry vera uppáhalds plötu sína.
Margar plötur fylgdu í fjölfarið en PJ Harvey hefur gefið út níu breiðskífur þar sem síðasta platan, The Hope Six Demolition Project, kom út fyrr á þessu ári.
Blómlegt samstarf með öðrum
Árin eftir Dry voru annasöm en mannabreytingar urðu í hljómsveitinni og ákvað Polly að æskilegt væri að starfa einnig með öðrum tónlistarmönnum. Hún kom meðal annars fram með Björk á BRIT tónlistarverðlaunahátíðinni árið 1994 og flutti ábreiðu af Satisfaction með Rolling Stones. Polly hefur einnig unnið með tónlistarmönnum á borð við Thom Yorke og Nick Cave. Ástæðan fyrir því að hún hefur sótt í samstarf með öðrum er meðal annars til þess að verða fyrir áhrifum frá öðrum og til þess að endurtaka sig ekki.
Hér fyrir neðan fá sjá flutning þeirra Bjarkar og Polly á BRIT verðlaunahátíðinni.
Pólitísk ádeila
Ekki verður hjá því komist að fjalla aðeins um nýjustu plötu PJ Harvey, The Hope Six Demolition Project, en hún hafði ekki gefið út frá sér efni síðan árið 2011 þegar Let England Shake kom eins og stormsveipur inn á plötumarkaðinn.
The Hope Six Demolition Project kom út á vormánuðum og er unnin á sama tíma og ljóðabók söngkonunnar The Hollow of the Hand þegar hún ferðaðist um Kósóvó og Afganistan og síðast en ekki síst til Washington í Bandaríkjunum. Titillinn vísar til verkefnis í Bandaríkjunum sem nefnist HOPE VI. Það snýst um að koma í veg fyrir eða réttara sagt benda á þær samfélagshreinsanir sem eiga sér stað í fátækrahverfum. Þannig er gömlum húsum rutt í burtu og ný og dýrari byggð með þeim afleiðingum að fyrrum íbúar hafi ekki efni á að búa þar lengur og neyðist til að flytja annað. Þannig er markmið verkefnisins að stuðla að blandaðri byggð með fjölbreyttari íbúaflóru. Plötunni hefur verið vel tekið og alla jafna fengið góða dóma.