Stjórnarmyndunarviðræður eru nú í gangi eftir sögulegar Alþingiskosningar 29. október síðastliðinn, og liggur ekki fyrir enn hvaða flokkar muni mynda ríkisstjórn. Greint hefur verið frá þreifingum formanna flokkanna en þeir hafa allir átt fundi með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands.
Þó ekki sé hægt að fullyrða hvaða flokkar verði með valdaþræðina í hendi sér, þá liggur fyrir að mörg krefjandi verkefni bíða ríkisstjórnarinnar. Það gæti reynst snúið fyrir stjórnmálaflokkana að ná saman um mikilvæg mál, í ljósi mismunandi stefnu þeirra í einstökum málaflokkum.
Marga einstaka málaflokka má telja til, þar sem erfitt getur reynst að ná samstöðu um, en hér verða nefndir fimm málaflokkar sérstaklega, sem ný ríkisstjórn mun þurfa að móta stefnu um.
1. Kjaraviðræður á vinnumarkaði
Ákvörðun Kjararáðs, um að hækka laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands – sem tekin var á kjördag 29. október – hefur nú þegar hleypt illu blóði í kjaraviðræður sem framundan eru, og má búast við hörðum átökum. Grunnskólakennarar hafa fellt samninga í tvígang, og engin lausn er í sjónmáli í deilu þeirra við sveitarfélög. Sjómenn deila við útgerðir, og framundan er svo allsherjarsamningsgerð á vinnumarkaði og endurskoðun kjarasamninga. Ljóst er á yfirlýsingum hagsmunasamtaka bæði starfsfólks og atvinnurekenda, að tugprósenta hækkanir ráðamanna hafa nú þegar hleypt illu blóði í viðsemjendur á vinnumarkaði, sem hafa þvert yfir kallað eftir því að ákvörðun kjararáðs verði afturkölluð. Ný ríkisstjórn fær þetta vandamál í fangið, og verður vafalítið snúið að ná ásættanlegri lendingu í því.
2. Hvert á gengi krónunnar að vera?
Ein meiriháttar breyting hefur orðið á stöðu efnahagsmála í landinu, og hún er sú að gengi krónunnar gagnvar helstu viðskiptamyntum hefur styrkst verulega á síðustu 12 til 15 mánuðum. Evran kostar nú 123 krónur en fyrir ári var verð hennar 150 krónur. Sterlingspundið kostar 136 krónur en fyrir ári var verð þess 205 krónur. Brexit atkvæðagreiðslan frá því í júní hefur haft afgerandi áhrif á gengi pundsins sem hefur veikst mikið, og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Fyrir útflutningsfyrirtæki, ekki síst í sjávarútvegi, er þetta alvarlegt mál en um 12 prósent af heildarútflutningi landsins fer til Bretlands og um 19 prósent erlendra ferðamanna sem hingað komu í fyrra, komu frá Bretlandi. Styrking krónunnar gagnvart pundinu hefur því haft mikil áhrif á skömmum tíma. Þá kostar Bandaríkjadalur nú 111 krónur en fyrir ári kostaði hann 136 krónur. Stjórnmálaflokkarnir ræddu flestir um þessa stöðu fyrir kosningar, en áherslurnar voru mismunandi. Þannig talaði Viðreisn fyrir því að koma á myntráði, til þess að halda gengi krónunnar stöðugu, en þá myndi gengi krónunnar fylgja þróun tiltekinna erlendra gjaldmiðla. Slíkt er þó kostnaðarsamt, og hafa aðrir stjórnmálaflokkar ekki talað fyrir þessum leiðum.
3. Á að breyta um fiskveiðistjórnunarkerfi?
Kvótakerfið í sjávarútvegi hefur verið þrætuepli um áratugaskeið, og fyrir þessar kosningar boðuðu margir flokkar breytingar á því. Píratar, Vinstri græn, Viðreisn, Samfylkingin og Björt framtíð töluðu öll fyrir því að taka upp uppboðsleið í sjávarútvegi, og horfðu meðal annars til Færeyja í þeim efnum. Er markmiðið með leiðinni að almenningur fái til sín markaðsverð fyrir afnot af auðlindum. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa frekar talað fyrir því að halda í núverandi fyrirkomulag, en þó hafa flokkarnir sagst vera opnir fyrir því að skoða uppboðsleiðina, með þá lítinn hluta aflaheimilda. Umræður um þessi mál í stjórnarmyndunarferlinu gætu orðið snúnar, og ekki hægt að segja með vissu að sátt sé í sjónmáli.
4. Spenna á húsnæðismarkaði
Aðgerðir á húsnæðismarkaði voru áberandi fyrir kosningar, og töluðu stjórnmálaflokkarnir allir fyrir mikilvægi þess að skapa stöðugleika á húsnæðismarkaði. Það gæti reynst erfitt, þegar staðan er greind. Á höfuðborgarsvæðinu vantar yfir 5.100 íbúðir, einkum litlar og meðalstórar, til að mæta vaxandi eftirspurn. Húsnæðisverð hefur hækkað um 30 prósent á þremur árum og spár gera ráð fyrir áframhaldandi hækkun um meira tuttugu prósent á næstu tveimur árum. Þessi hækkun og spenna gerir mörgum erfitt fyrir, þegar kemur að því að komast inn á húsnæðismarkað. Flestir flokkar ræddu um mikilvægi þess að koma til móts við þessa stöðu, meðal annars með uppbyggingu húsnæðis og aðgerðum sem eru svipaðar og Fyrsta fasteign, sem ríkisstjórnin kynnti fyrr á þessu ári, en sú leið byggir á því að fólk noti séreignarsparnaðinn til að safna upp í innborgun fyrir kaup á fyrstu eign. Stjórnmálaflokkarnir sem mynda ríkisstjórn munu vafalítið láta sig þetta mál varða, enda var málið fyrirferðamikið í málflutningi sumra þeirra fyrir kosningar.
5. Innviðauppbygging
Í aðdraganda kosninga komu öll framboð inn á það í sinni kosningabaráttu, að mikilvægt væri að huga að uppbyggingu „innviða“ víða um landið, meðal annars þegar kemur að samgöngum, heilbrigðisþjónustu og þjóðgörðum. Það sem stjórnmálaflokkarnir munu þurfa að ræða í þessum efnum er forgangsröðun og hversu umfangsmikil þessi uppbyggin á að vera. Þarna kemur meðal annars inn í heildstæðari stefna en nú þegar hefur komið fram, þegar kemur að aðgangsstýringu á helstu ferðamannastöðum landsins. Þetta ætti ekki að vera erfitt verkefni fyrir ríkisstjórn, að ná saman um, en þó gæti forgangsröðunin verið snúin.