Yfirmenn lögreglunnar í Kaupmannahöfn kannast líklega ekki við lag og texta Bubba Morthens (Lög og regla) þar sem varðstjórinn segir að ekki skuli bent á sig, hann hafi nefnilega verið að æfa lögreglukórinn. Það eigi að spyrja þá sem voru á vakt, um manninn sem dó í fangaklefanum. Það sem yfirmenn Kaupmannahafnarlögreglunnar eiga hins vegar sameiginlegt með kórstjórnanda Bubba Morthens er það að þeir hafa, í tilteknu máli reynt að varpa sökinni á undirmennina til að fría sig ábyrgð. En í danska skráningarsamfélaginu, þar sem flest er fært til bókar, kemur sannleikurinn iðulega í ljós að lokum. Mál sem nú er til meðferðar hjá sérstakri rannsóknarnefnd í Kaupmannahöfn snýst ekki um mannslát heldur mannréttindi sem skýrt er kveðið á um í dönsku stjórnarskránni.
Heimsókn kínverska forsetans
Um miðjan júní árið 2012 kom Hu Jintao, þáverandi forseti Kína í opinbera heimsókn til Danmerkur. Heimsóknin átti sér langan aðdraganda, eins og oftast þegar um er að ræða opinberar heimsóknir. Slíkar heimsóknir þjóna margháttuðum tilgangi, ekki hvað síst að efla viðskipti milli landanna og þjóðhöfðingjunum fylgja gjarna fjölmennar sendinefndir. Á undanförnum árum hafa margar þjóðir haft áhuga á að vingast við „risann í austri“, hjá þessari fjölmennu þjóð er eftir miklu að slægjast hvað viðskipti varðar, en margir Kínverjar hafa auðgast mjög á skömmum tíma. Evrópsk húsgögn og innanstokksmunir, borðbúnaður, ljós, fatnaður, úr og listmunir margskonar, öllu þessu og mörgu öðru sækjast efnaðir Kínverjar eftir. Kínverskum ferðamönnum hefur fjölgað mikið í Evrópu á síðustu tíu árum og þeir eyða miklum peningum hvar sem þeir koma við.
Opinberar heimsóknir háttsettra Kínverja til annarra landa vekja mikla athygli heima í Kína og eru þess vegna mikil landkynning. Danir hafa, eins og margar aðrar þjóðir, litið hýru auga til Kína og sem dæmi um það féllust dönsk stjórnvöld á að lána Litlu hafmeyjuna á heimssýninguna í Shanghai árið 2010. Fyrir slíku ferðalagi Litlu hafmeyjunnar voru engin fordæmi, hún hafði aldrei (nema höfuðið tvisvar sinnum og annar handleggurinn einu sinni) hreyft sig af steini sínum við Löngulínu í Kaupmannahöfn þar sem henni var komið fyrir árið 1913. Litla hafmeyjan vakti mikla athygli á heimssýningunni og í kjölfar sýningarinnar stórfjölgaði kínverskum ferðamönnum í Danmörku.
Mikill viðbúnaður í Kaupmannahöfn
Við undirbúning heimsóknar kínverska forsetans lögðu dönsk stjórnvöld mikla áherslu á að ekkert færi úrskeiðis. Kínverjar líta margt öðrum augum en Vesturlandabúar. Þetta vissu dönsk stjórnvöld mætavel og lögreglan fékk , eins og ætíð við slíkar heimsóknir, skýr fyrirmæli. Allt lögreglulið Kaupmannahafnar var á vaktinni og fjöldi lögregluþjóna frá öðrum landshlutum var sömuleiðis kallaður til. Fyrirfram var talið að mannréttindasamtök og einstaklingar myndu reyna að vekja athygli kínverska forsetans og fylgdarliðs hans. Þeim sem hygðust efna til einhvers konar mótæla var gert að tilkynna það fyrirfram. Í Danmörku ríkir tjáningarfrelsi, í því felst meðal annars að fólki er heimilt að klæðast hverju sem er og bera fána, spjöld og merki að vild. Allmargir skráðu sig á mótmælendalistann, einstaklingar og félagasamtök.
Burt með þennan fána
Heimsókn kínverska forsetans og sendinefndarinnar tókst vel. Fjöldi fólks var samankominn við Kristjánsborgarhöll þegar kínverski forsetinn renndi þar í hlað. Í hópnum við höllina voru nokkrir sem báru tíbeska þjóðfánann, sem er bannaður í Kína. Sara Berthou, ungur háskólanemi, var á torginu með langt prik með fána Tíbets á endanum. Þegar forsetabíllinn nálgaðist rak hún prikið upp í loftið en þá gripu nærstaddir lögregluþjónar til sinna ráða: „burt með þennan fána“. Sara Berthou svaraði að það að bera fánann væri ekki ólöglegt en fékk það svar að „það væri ólöglegt í dag“ og rifu af henni prikið og fánann. Einn viðstaddra festi þetta atvik á myndband, þar bæði sést og heyrist hvað fram fór. Fjöldi fólks sá hvað gerðist og fánaprik Söru Berthou var ekki það eina sem lögreglan tók í sína vörslu.
Lygavefur lögreglunnar
Sara Berthou og nokkrir fleiri lögðu fram kæru á hendur lögreglunni eftir atvikið fyrir framan Kristjánsborgarhöll og fleiri slík atvik þennan dag. Málið var tekið fyrir í Bæjarrétti Kaupmannahafnar (lægsta dómstig af þremur). Þar fullyrtu tveir háttsettir menn í lögreglunni að lögregluþjónarnir sem voru við Kristjánsborg, eða annarsstaðar í borginni, þennan umrædda dag hefðu ekki fengið nein fyrirmæli um að fjarlægja fána eða annað sem mótmælendur hefðu meðferðis. Einungis hefði átt að fylgja venjulegum vinnureglum. Þessar skýringar tóku yfirmenn dómsmála góðar og gildar, dómsmálaráðherra lýsti ítrekað yfir að öllum reglum hefði verið fylgt.
Starfsmaður í dómsmálaráðuneytinu hafði reyndar ákveðnar grunsemdir um að ekki væri allt með felldu með skýringar lögreglu og spurðist hvað eftir annað fyrir um ákveðin atriði. Eftir að yfirstjórn lögreglunnar kvartaði við dómsmálaráðuneytið yfir afskiptum embættismannsins, Anne Berg Mansfeld-Giese, lauk þeim skyndilega. Danskir fjölmiðlar fullyrða að þaggað hafi verið niður í henni
Hljóðupptökurnar
En hafi lögreglan ímyndað sér að nú væri þessu málavafstri lokið átti annað eftir að koma í ljós. Í september í fyrra fyrirskipaði Eystri- landsréttur lögreglunni að leggja fram hljóðupptökur (sem lögregla hafði þráfaldlega neitað að gera) þarsem heyra má fyrirskipanir „að ofan“ um að taka Tíbetfánann af mótmælendum. Lögreglan hafði líka haldið því fram að mótmælendur hefðu verið með uppsteit og að ekki væri hægt að segja til um hvaða lögregluþjónar hefðu tekið fánana af þeim. Dómari við Eystri-landsrétt gaf lítið fyrir þessar skýringar enda liðu einungis tveir dagar frá því að hljóðupptökurnar komu fram þangað til þrír lögregluþjónar lýstu yfir að yfirstjórn lögreglunnar vissi vel hverjir þeir væru en þeim hefði verið skipað að halda sér saman. „Skipunin um fánana kom ofanfrá og við báðum um að hún yrði endurtekin því við vissum að þetta væri ekki í samræmi við stjórnarskrána.“
Dómsmálaráðherra skipar rannsóknarnefnd
Saksóknari lögreglunnar lagði fyrir nokkrum dögum fram kæru á hendur lögreglumönnunum tveimur sem nú er ljóst að lugu fyrir Bæjarréttinum þegar málið kom þangað á sínum tíma.
Sören Pind dómsmálaráðherra skipaði, strax eftir að hljóðupptökurnar höfðu verið birtar, sérstaka rannsóknarnefnd. Hún hefur unnið sleitulaust síðan og þegar hafa rúmlega tvö hundruð manns verið yfirheyrðir. Þar á meðal fimm núverandi og fyrrverandi ráðherrar. Gert er ráð fyrir að réttarhöld í málinu hefjist um mitt næsta ár.
Saksóknari lögreglunnar lagði fyrir nokkrum dögum fram kæru á hendur lögreglumönnunum tveimur sem nú er ljóst að lugu fyrir Bæjarréttinum þegar málið kom þangað á sínum tíma.
Enginn vill sitja uppi með apann
Mál þetta hefur vakið mikla athygli í Danmörku og er að mati fjölmiða álitshnekkir fyrir lögregluna. Þar hafi verið reynt að klína óþverranum, eins og það er orðað, á óbreytta lögregluþjóna sem hafi hins vegar einungis hlýtt fyrirskipunum. Ráðherrar og yfirmenn í lögreglunni benda hver á annan, þeir hafi ekki vitað neitt og ekki fengið réttar upplýsingar. Enginn vill sitja uppi með apann, eins og það er kallað í Danmörku, en réttarhöldin leiða væntanlega í ljós hver gaf fyrirskipanirnar og bar ábyrgðina.