Markaðsvirði þriggja stærstu fyrirtækjanna í kauphöll Íslands, Marels, Össurar og Icelandair, hefur fallið um tugi milljarða á síðustu mánuðum. Frá því um mitt ár hefur samanlagt markaðsvirði þessara félaga lækkað um 126 milljarða króna. Mest er fallið hjá Icelandair, um 71 milljarður, en markaðsvirði þess er nú 118 milljarðar króna.
Össur, sem lækkaði um 6,25 prósent í viðskiptum dagsins í dag, hefur einnig lækkað mikið. Félagið er nú 166 milljarða króna virði en hefur lækkað um 41 milljarð frá því um mitt ár. Þá hefur virði Marels einnig lækkað. Lækkunin nemur um 14 milljörðum króna. Fyrirtækið er nú verðmætasta félagið í kauphöllinni, og nemur markaðsvirði þess 172 milljörðum króna.
Gera upp í erlendri mynt
Samanlagt virði þessara félaga er 456 milljarðar króna, miðað við lokagengi dagsins í dag. Eiginfjárstaða félaganna er sterk, og rekstrartölur hafa verið ásættanlegar, sé mið tekið af tilkynningum til kauphallar vegna uppgjöra.
Eigið fé Icelandair nam 582 milljónum Bandaríkjadala, í lok september, eða sem nemur um 64 milljörðum króna. Eigið fé Marels var á sama tíma 505 milljónir evra, eða sem nemur um 62 milljörðum króna. Össur var með 465 milljónir Bandaríkjadala í eigið fé í lok september, eða sem nemur um 51 milljarði króna.
Gengið styrkist og styrkist
Á þessum tíma sem félögin hafa lækkað umtalsvert hefur gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum styrkst verulega. Félögin eru öll með efnahagsreikning sinn í erlendum myntum, og því kemur styrking krónunnar illa við markaðsvirði félaganna, mælt í krónum. Össur og Icelandair eru með efnahagsreikning í Bandaríkjadal en Marel í evrum.
Á einu ári hefur gengi krónunnar gagnvart evru og Bandaríkjadal styrkst verulega. Fyrir rúmlega ári kostaði Bandaríkjadalur 136 krónur en hann kostar nú ríflega 111 krónur. Evran kostaði 150 krónur fyrir ári en kostar nú 123 krónur.
Þessi þrjú fyrrnefndu félög mynda um helming alls markaðsvirðis á skráðum markaði á Íslandi, og munar því töluvert um sveiflur þeirra upp og niður, fyrir eigendur hlutabréfa á íslenskum markaði. Stærstu eigendur hlutabréfa eru íslenskir lífeyrissjóðir, en þeir eiga á bilinu 40 til 50 prósent af öllum skráðum hlutabréfum. Stærstu eigendur Össurar eru þó danskir hluthafar, sem eiga meira en tvo þriðju af hlutabréfum í félaginu.
Eignaverð hækkar...en ekki hlutabréf
Flestar hagspár gera ráð fyrir að hagvöxtur hér á landi verði á bilinu 4 til 5 prósent á þessu ári, og þá hefur fasteignaverð hækkað hratt að undanförnu og útlit fyrir að sú þróun haldi áfram. Á undanförnum þremur árum hefur fasteignaverð hækkað um meira en 30 prósent að meðaltali, og gera spár ráð fyrir 20 til 30 prósent hækkun á næstu tveimur til þremur árum.
Á hlutabréfamarkaði hefur reyndin verið önnur, eins og áður sagði, einkum og sér í lagi hjá þremur fyrrnefndu félögunum.