Donald J. Trump, sjötugur fjárfestir frá New York, vann sögulegan kosningasigur á þriðjudaginn og verður næsti forseti Bandaríkjanna. Hann er fyrsti forsetinn sem aldrei hefur unnið hjá hinu opinbera í Bandaríkjunum né þjónað landinu í hernum. Þá er hann einnig elsti maðurinn til að verða forseti.
Kosningasigur Trump kom helstu fjölmiðlasamsteypum Bandaríkjanna í opna skjöldu, þó kannanir hafi sýnt nokkuð jafna stöðu í helstu lykilríkjunum alveg fram á síðsta dag, þá var mikill byr í seglunum hjá Trump í síðustu vikunni.
Margir hafa komið fram með skýringar á því, hvað það var sem skóp sigur Trumps.
Ég rýndi í nokkur atriði, sem mér fannst athyglisverð.
1. Munurinn á viðhorfum fólks, sem býr í borgum annars vegar, og í dreifbýli hins vegar, hefur aldrei verið meiri en í kosningunum nú. Sérstaklega var þetta áberandi í lykilríkjunum, eins og Norður-Karolínu og Michigan. Þegar rýnt er í kortið hjá Norður-Karólínu, og hvernig staðan skiptist eftir sýslum, þá var Hillary með stuðning vísan í borgarkjörnunum, en Trump átti dreifbýlið. Í Charlotte var Hillary með sterka stöðu og það sama átti við um Raleigh. Staðan var svipuð í mörgum ríkjum. Demókratar náðu til fólks í borgum, einkum menntaðs fólks, á meðan Trump náði mun betur til fólks með minni menntun utan borga. Munurinn hefur oft verið þessi í gegnum tíðina, en það munaði meiru nú en áður. Sem að lokum skipti miklu máli. Í Norður-Karólínu eru 15 kjörmenn og þeir eru 16 í Michigan.
2. Við skulum ekki gleyma Gary Johnson, þó fjölmiðlar hafi reyndar flestir gert það hér vestanhafs. Stuðningurinn við hann skipti miklu máli þegar upp var staðið. Hann fékk víða á bilinu 2 til 4 prósent, og í ljósi þess hversu mjótt var á munum milli Trump og Hillary þá skipti þessi stuðningur miklu máli. Í viðtali eftir kosningarnar, hjá CNN, sagði einn starfsmanna framboðs Trump, að innan þeirra raða hafi það verið ljóst fljótt, að Johnson var að höfða fyrst og fremst til óánægðra Demókrata. Þess vegna ákvað Trump að vera ekki að gagnrýna hann mikið, eða nefna hann sérstaklega. Hann leyfði honum frekar að reita fylgi frá Hillary. Í lykilríkjunum, þar sem afar litlu munaði, meðal annars í Michigan og Pennsylvaníu, þá skipti þetta sköpum. Johnson fékk 2,4 prósent atkvæða í Pennsylvaninu, Hillary 47,6 og Trump 48,8 prósent. Þetta lykilríki gefur 20 kjörmenn, og vó þungt í áttina að kjörmönnunum 270 sem þurfti að til að sigra.
3. Bréfið sem James Comey, forstjóri alríkislögreglunnar FBI og þekktur Repúblikani, sendi á Bandaríkjaþing, og tilkynnti um að það væri búið að opna aftur rannsókn á tölvupóstum Hillary Clinton, markaði þáttaskil í skoðanakönnunum á lokametrunum. Staðan hjá Hillary versnaði, og þremur dögum fyrir kosningar var staðan orðin slæmt í óvissuríkjunum sérstaklega. Þrátt fyrir að FBI hafi sent frá sér yfirlýsingu um að ekkert væri í póstunum, sem kallaði á ákæru eða ályktanir um lögbrot af hálfu Hillary, skömmu fyrir kosningarnar, þá var skaðinn skeður. Trump og hans fólk, hömruðu á þessu á fjöldafundum sínum á síðustu dögunum. Í Michigan var þetta aðalatriðið, fyrir troðfullri höll. „Hún er spillt, FBI veit það, við vitum það. Hún getur ekki orðið forseti,“ sagði Trump. Svo fór að lokum að Trump hafði betur.
4. Líkt og í Brexit-kosningunum í Bretlandi, þar sem yngsta kynslóð kjósenda kaus með því að Bretlandi yrði áfram í Evrópusambandinu, þá virðist niðurstaðan sýna mikinn meiningarmun milli kynslóða. Eldri kynslóð kjósenda virtist horfa til Trump, á meðan afgerandi meirihluti fólks á aldrinum 18 til 25 ára, kaus Hillary. Hillary hafði meirihluta hjá þeim aldurshópi í öllum ríkjum nema fimm. Eliza Byard gerði þetta meðal annars að umtalsefni á Twitter-síðu sinni að kosningum loknum.
5. Enn og aftur sannast það í kosningum í Bandaríkjunum hversu mikill munur er á ríkjunum innbyrðis, þegar kemur að efnahag, menntun og viðhorfum. Hillary hafði afgerandi stuðning á allri vesturströndinni, Kaliforníu, Oregon og Washington, og það sama má segja með flest austurstrandarríkin. Í vesturstrandarríkjunum búa um 50 milljónir manna, og um 40 í austurstrandarríkjunum, til sæmilegrar einföldunar. Í þessum ríkjum hefur efnahagur verið að styrkjast og nýsköpunarstarf tengt bestu háskólum landsins er áhrifamest á þessum slóðum. Demókratar hafa afgerandi stuðning í þessum ríkjum, en hann er mun minni í miðríkjunum, og hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Þessi mikli efnahagslegi munur gæti skýrt hvers vegna óánægjufylgið fór frekar til Trump en Hillary. Trump talaði gegn „kerfinu“ og virtist ná eyrum þeirra sem sáu Hillary fyrir sér sem fulltrúa þess, vegna reynslu hennar og fyrri starfa.