Rúm átta ár eru síðan TPP-viðræðurnar hófust og voru aðildarlönd alls tólf talsins (Ástralía, Bandaríkin, Brúnei, Kanada, Síle, Japan, Malasía, Mexíkó, Nýja-Sjáland, Perú, Singapúr og Víetnam) þegar samningurinn var undirritaður í febrúar á þessu ári en hann á eftir að verða fullgildur hjá aðildarlöndunum. Eins og nafnið gefur til kynna eiga aðildarlöndin það sameiginlegt að vera staðsett við strendur Kyrrahafsins, en þau hafa sameiginlegan íbúafjölda á um 800 milljónir manns og standa fyrir um 40% af heimshagkerfinu. TPP var einn af hornsteinum svokallaðrar "Pivot to Asia"-stefnu fráfarandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, og stefndi að því beina áherslu utanríkisstefnu landsins að Asíu til þess að tryggja leiðandi hlutverk Bandaríkjanna í fjölmennasta og hraðast vaxandi efnahagssvæði heims. Samningurinn, sem hefði einnig verið mikilvægur hluti af umdeildri utanríkispólitískri arfleifð Obama, virtist eiga sér enga framtíð sama hvor forsetaframbjóðandinn hefði unnið. Hvað veldur því að einn metnaðarfyllsti fríverslunarsamningur sögunnar hafi ekki náðst og hverjar eru afleiðingarnar?
Verndarstefna og sveifluríki
Gagnrýni gegn TPP í Bandaríkjunum, rétt eins og gegn fríverslunarsamningum almennt í þróuðum ríkjum, beinist að miklu leyti að ótta um að fjölmörg iðnaðarstörf flytjist til annarra landa þar sem launakjör eru lægri. Þar að auki stuðli þessi aukna samkeppni að eins konar "kapphlaupi að botninum" þar sem umhverfis- og mannréttindastaðlar fara sílækkandi. Andúð við TPP er nátengd verndarstefnu og þeirri hugmynd að alþjóðaviðskipti séu núllsúmmuleikur, og var hamrað á því í kosningabaráttum margra frambjóðenda, meðal annars Trump og Bernie Sanders, að það væri fríverslun hnattvæðingarinnar að kenna að iðnaðarstörf hyrfu úr Bandaríkjunum.
Rök af þessu tagi fengu góðan hljómgrunn víðsvegar í Bandaríkjunum og einna helst í ríkjum sem hafa séð þúsundir iðnaðarstarfa hverfa á síðustu árum og áratugum en mörg þeirra, ríki á borð við Michigan, Ohio og Illinois, eru yfirleitt sveifluríki í forsetakosningum. Meira að segja Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, sem var utanríkisráðherra Bandaríkjanna þegar TPP-samningaviðræðunum lauk og kallaði samninginn "gold standard" fríverslunarsamninga, skipti um skoðun í kosningabaráttunni og talaði fyrir verndarstefnu í tilraun til að fá þessi gífurlega mikilvægu atkvæði sveifluríkjanna.
Ofmetnaður er falli næst
Metnaður TPP felst í því að til viðbótar við að lækka hefðbundna verslunartolla, sem þegar voru tiltölulega lágir milli aðildarlanda, innheldur hann einnig ákvæði um viðskiptahindranir aðrar en tolla. Dæmi um slíkar hindranir eru reglugerðir hjá hinu opinbera sem mismuna gegn erlendum fyrirtækjum en viðskiptalög af þessu tagi eru meginhindranir fríverslunar í þróuðum ríkjum. Þá inniheldur samningurinn einnig ýmsa staðla varðandi umhverfismál, kjör launþega og höfundarrétt, og mekanísma sem refsa löndum sem uppfylla ekki staðlana. Metnaður TPP hefði veitt Bandaríkjunum leiðtogahlutverk í efnahagsþróun Austur-Asíu og sett háar kröfur til Kína og annarra landa sem geta sóttu um aðild að samningnum síðar. Hins vegar gerðu umsvif samningsins það að verkum að viðræðurnar drógust á langinn og ljóst er að hinn sex þúsund blaðsíðna langi samningur verði ekki að veruleika að þessu sinni.
Samhliða TPP-viðræðunum leiddi Kína aðrar fríverslunarviðræður við hóp ríkja sem að hluta til samanstendur af TPP-ríkjum við vesturströnd Kyrrahafsins undir nafninu Regional Comprehensive Economic Partnership (RCEP). Sá samningur inniheldur einnig ríki með stór hagkerfi á borð við Suður-Kóreu og ört vaxandi ríki á borð við Indland, Indónesíu og Filipseyjar. RCEP er tollalækkunarsamningur af gamla skólanum en hefðbundnir tollar eru stærri álitamál milli RCEP-ríkjanna en TPP-ríkjanna. Kosning Trump hefur fært byr í segl Kína til að ljúka RCEP-viðræðunum, sem þó líka hafa sínar hindranir, sérstaklega vegna varkárlegs sambands Indlands og Kína, og hefur forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, tjáð að Asíuríki munu hverfa frá TPP til RCEP enda væri TPP án Bandaríkjanna lítils virði.
Hörfað til baka
Afleiðingar þess að TPP-samningurinn hafi ekki náð í gegn eru ekki síður pólitískar heldur en efnahagslegar. Obama tjáði í vor að TPP myndi leyfa Bandaríkjunum að "skrifa leikreglurnar" fyrir alþjóðaverslun og gaf í skyn að Kína myndi gegna því hlutverki ef TPP yrði ekki að veruleika. Í sjálfu sér ætti ekki að vera sjálfgefið að TPP sé í beinni samkeppni við RCEP en í víðara samhengi myndi ákvörðun bandarískra stjórnvalda að hörfa frá fríverslunarstefnu í verndarstefnu breyta einni af meginstoðum ítökum þeirra í Asíu. Aðildarríki TPP myndu að sama skapi missa af tækifæri til að stórauka aðgengi að Bandaríkjamarkaði sem ætti að vera nægur hvati til að umbæta löggjöf samkvæmt stöðlum samningsins, sem væri sérstaklega mikilvægt fyrir þróunarríki á borð við Víetnam og harðstjórnir á borð við Malasíu.
Aðildarlönd TPP í Asíu munu þó leggja meiri áherslu á þátttöku í RCEP-viðræðunum og aðildarlönd að RCEP sem stóðu utan TPP munu væntanlega taka því fagnandi að TPP hafi ekki náð í gegn. Bandaríkin munu bæði líða fyrir það að hlutverk þeirra sem stefnumótandi afl í Asíu skerðist og mögulega einnig efnahagslega eftir því sem þau standa utan RCEP-viðræðnanna. Trump hefur tjáð að hann vilji "sanngjarna" tvíhliðasamninga frekar en stærri fríverslunarsamninga sem hann telur bitna á Bandaríkjunum. Hins vegar er afskaplega erfitt að spá fyrir um hvaða Asíustefnu Trump hyggst taka í stað TPP og "Pivot to Asia"-stefnunnar enda er hornsteinn utanríkisstefnu hans óútreiknanleikinn sjálfur.