Mikil spenna var fyrir aðalfund OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja, sem fram fór í Vínarborg í dag, en vangaveltur höfðu verið uppi um það fyrir fundinn að samkomulag um að draga úr olíuframleiðslu myndi nást. Svo fór að aðildarríki samtakanna, sem eru fjórtán talsins, náðu saman um að minnka framleiðslu um 1,2 milljónir tunna á dag niður í 32,5 milljónir tunna.
Rússar draga líka saman
Mohammed Bin Saleh Al-Sada, orkumálaráðherra Katar, tilkynnti um ákvörðunina. Rússar, sem standa utan OPEC samtakanna, fengust ekki til að draga úr framleiðslu eins mikið og að hafði verið stefnt, en niðurskurðurinn hjá þeim er þó 300 þúsund tunnur. Vonir höfðu staðið til þess að þeir myndu minnka framleiðsluna um 600 þúsund tunnur, en það náði ekki fram.
Sádí-Arabía áhrifamest
Áhrifamesta ríkið innan OPEC er Sádí-Arabía, en til samtakanna tilheyra fjórtán olíuframleiðsluríki. Auk Sádí-Arabíu eru það Alsír, Angóla, Ekvador, Gabon, Indónesía, Íran, Írak, Kúveit, Líbía, Katar, Nígería, Sameinuðu arabísku furstadæmin, og Venesúela. Saman standa ríkin undir meira en 33 prósent af heimsframleiðslunni. Olíuframleiðsluríki eins og Brasilía, Bandaríkin, og Noregur standa utan OPEC.
Verðið rýkur upp
Ákvörðunin er söguleg fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn í átta ár sem OPEC ríkin ná samkomulagi um að draga úr framleiðslu. Viðbrögðin á markaði hafa verið mikil og hefur verð á olíu rokið upp. Dagshækkunin í Bandaríkjunum á tunnunni af hráolíu nemur 9,22 prósentum, og er verðið nú komið í tæplega 50 Bandaríkjadali. Ennþá er það samt órafjarri því sem það var þegar það var hæst, í lok árs 2014. Þá var tunnan á 110 Bandaríkjadali.
Búist er við því að ákvörðunin muni hafa víðtæk áhrif á markaði. Mesti þunginn í framleiðsluminnkuninni er hjá Sádí-Arabía. Þar mun niðurskurðurinn nema 486 þúsund tunnum. Í Írak verður framleiðsluminnkunin 200 þúsund tunnur og í Kúveit 139 þúsund, samkvæmt umfjöllun Bloomberg.
Vaknar verðbólgudraugurinn?
Á alþjóðamörkuðum hefur þróun olíuverðs mikil áhrif á hrávöruverð almennt og óbeint þannig á vöruverð. Þróun olíuverðsins hefur verið Íslandi hagfelld undanfarin misseri og hefur verðfallið á olíu dregið úr verðbólguþrýstingi. Í um þrjú ár hefur verðbólga haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkaði en hún mælist nú 2,1 prósent. Að mati Seðlabanka Íslands hefur það skipt miklu máli að undanförnu, að innflutt verðbólga hefur verið lítil. Olíuverðshækkun, vegna ákvörðunar OPEC-ríkjanna, gæti vakið verðbólgudrauginn hérá landi á nýjan leik, eða í það minnsta ýtt undir aukna innflutta verðbólgu.