Sex starfsmenn byggingavöruverslana voru í gær dæmdir til fangelsisvistar í Hæstarétti fyrir stórfelld brot gegn samkeppnislögum, en dómarnir eru þó skilorðsbundnir að mestu leyti. Með dómnum snéri Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, en í apríl í fyrra voru ellefu af tólf starfsmönnum Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins, sem málið beindist að, sýknaðir.
Þyngsta refsingin er átján mánaða fangelsi en hún fellur að mestu niður haldist skilorð í þrjú ár, en hún beindist að þeim eina sem var fundinn sekur í héraði. Þrír mánuðir eru þó óskilorðsbundnir.
Í dómi Hæstaréttar segir að brotin hafi beinst gegn almenningi í landinu.
Slagur við Múrbúðina
Málið hófst í kjölfar þess að Múrbúðin hóf að veita Byko og Húsasmiðjunni aukna samkeppni með sölu á svonefndum grófvörum (grófar byggingavörur eins og t.d. timbur, plötur, steypustál, steinull o.fl.) haustið 2010. Sneri Múrbúðin sér til Samkeppniseftirlitsins og upplýsti um tilraunir Byko og Húsasmiðjunnar til að fá Múrbúðina til þess að taka þátt í ólögmætu samráði. Auk þess upplýsti Múrbúðin um verðsamráð milli Byko og Húsasmiðjunnar.
Að undangengnu mati á þessum upplýsingum ákvað Samkeppniseftirlitið að kæra nokkra einstaklinga, starfsmenn Byko og Húsasmiðjunnar, til lögreglu vegna gruns um brot gegn samkeppnislögum. Í kjölfarið var framkvæmd húsleit hjá Byko og Húsasmiðjunni þann 8. mars 2011. Í samræmi við ákvæði samkeppnislaga hefur Samkeppniseftirlitið rannsakað þátt fyrirtækjanna og lögregla þátt starfsmanna þeirra.
Samkeppniseftirlitið greip til aðgerða
Hinn 15. Maí í fyrra komst Samkeppniseftirlitið að því að Byko hefði brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningunum „með umfangsmiklu ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna á því tímabili sem rannsóknin tók til, þ.e. til mars 2011 þegar rannsóknin hófst,“ eins og segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Var Norvik, móðurfélag Byko, sektað um 650 milljónir króna vegna þessa.
Í því samráðsbroti Byko fólst m.a.:
Reglubundin, yfirleitt vikuleg, samskipti við gömlu Húsasmiðjuna um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á svonefndum grófvörum (grófvörur eru t.d. timbur, steinull og stál).
Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum.
Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri (pallaefni) á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð.
Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að hækka verð á miðstöðvarofnum.
Að hafa gert sameiginlega tilraun með gömlu Húsasmiðjunni til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Byko að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðnum.
Dómur Hæstaréttar frá því í gær snýr að þessum brotum.
Sérstakur saksóknari höfðaði málið gegn starfsmönnunum vegna samráðs um verð á grófvörum. Mennirnir voru handteknir í mars 2011 og hefur málið því verið til meðferðar í réttarvörslu- og dómskerfinu í fimm á hálft ár.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar.
Umfangsmikil brot
Í dómi Hæstaréttar segir að brotin hafi verið alvarleg og beinst að almenningi í landinu. „Brot ákærðu samkvæmt I. og II. köflum ákæru stóðu lengi yfir og voru umfangsmikil, en önnur háttsemi, sem sakfellt hefur verið fyrir, fól í sér grófari brot, einkum sú sem IV. kafli ákæru fjallar um. Sökum þess að Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. voru nánast einráð á markaðnum á ákærutímabilinu teljast brotin, sem framin voru í þeim tilgangi að styrkja markaðsstöðu fyrirtækjanna tveggja, enn alvarlegri en ella hefði verið.Vegna stærðar fyrirtækjanna og fjölda vörutegunda, sem verðsamráðið náði til, var með því ekki einasta brotið gegn mikilvægum hagsmunum viðskiptavina þeirra, heldur alls almennings,“ segir í dómnum.
Í tilkynningu frá Byko, sem Gunnar Steinn Pásson almannatengill sendi, segir að dómurinn sé „óskiljanlegur“ og að ekki sé „ósennilegt að hann verði til þess að auka enn frekar umræður í samfélaginu um vinnubrögð og niðurstöður í Hæstarétti á undanförnum misserum og árum.“ Þessi orð eru ekki frekar skýrð í tilkynningunni.
Dómarar í málinu voru Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Þorgeir Örlygsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.