Park Geun-hye, forseti Suður-Kóreu, sagðist á þriðjudaginn vera tilbúin til að segja af sér ef þingið kemur sér saman um viðeigandi bráðabirgðalausn til að stjórna landinu þangað til ný kosning geti farið fram. Rannsókn ríkissaksóknara hefur leitt í ljós spillingarmál sem tengir Park við mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, þar á meðal Samsung, Lotte, og SK Group. Hún er ásökuð um fjárkúgun gegn yfir fimmtíu fyrirtækjum í landinu með því að þrýsta á þau til að setja fjármagn, sem samtals er talið nema um 80 milljarða won eða um 7.7 milljarða króna, í tvo góðgerðarsjóði undir stjórn vinkonu sinnar, Choi Soon-sil.
Þar að auki hefur komið í ljós að Choi, sem hvorki situr ekki í ríkisstjórn Park né gegnir neinu formlegu opinberu embætti, hefur haft aðkomu að ákvarðanatöku forsetans og skrifað fjölmargar af ræðum Park. Sterkur grunur leikur líka um að hún hafi haft aðkomu að flestum af mikilvægum mál landsins í forsetatíð Park, meðal annars tekið þátt í leynilegum samningaviðræðum við Norður-Kóreu,
Eftir að rannsóknin hófst fyrir um mánuði síðan hafa fjögur fjöldamótmæli átt sér stað í höfuðborg landsins, Seoul, þar sem hundruðir þúsunda mótmælenda hafa krafist þess að Park segi af sér. Samkvæmt skoðanakönnun í síðustu viku nýtur hún einungis stuðnings um 4% Suður-Kóreubúa. Hún hefur reynt að koma til móts við gagnrýni gegn henni með því að reka aðstoðarmenn sína og Chief of Staff, og hrista upp í ríkisstjórninni með því að útnefna ráðherra úr öðrum flokkum. Þá hefur hún ítrekað beðist afsökunar og viðurkennt sök á mistökum sem gerð hafa verið undir hennar stjórn, þar á meðal óviðeigandi aðkomu Choi að ræðuskrifum. Þá er forvitnilegt að hún hafi séð þörf á því að undirstrika að hún sé ekki hluti af sértrúarsöfnuði eða notast við sjamanisma í tíð hennar í Bláa húsinu (forsetabústaður Suður-Kóreu) en snöggt fall Park er samofið vináttu hennar við Choi Soon-sil.
Raspútínfeðginin
Vinátta Choi og Park á rætur sínar að rekja til ársins 1974 þegar móðir Park og forsetafrú, Yuk Young-soo, var ráðinn af dögum í þjóðleikhúsi landsins með byssukúlu sem ætluð var forsetanum sem stóð í ræðustólnum, Park Chung-hee, föður Park. Eftir atvikið hafði náinn ráðgjafi Park Chung-hee, Choi Tae-min, samband við hina ungu Park Geun-hye og sagði að látin móðir hennar hefði talað við sig í draumi. Choi Tae-min var stofnandi síns eigin sértrúarsöfnuðar, Yongsae-gyo (Kirkja hins eilífa lífs), og er talinn hafa haft mikil áhrif bæði á feðginin. Park Chung-hee varð sjálfur ráðinn af dögum árið 1979 af yfirmanni leynilögreglu landsins (KCIA), Kim Jae-gyu, sem útskýrði fyrir rétti að ein af ástæðunum fyrir tilræðinu var að Park Chung-hee hefði mistekist að koma í veg fyrir hin spilltu ódæðisverk Choi Tae-min og þau slæmu áhrif sem hann hefði á dóttur Park.
Samkvæmt minnisblaði frá 2007 sem var lekið í gegnum WikiLeaks árið 2011 frá þáverandi sendiherra Bandaríkjanna til Suður-Kóreu, Alexander Vershbow, voru orðrómar víða um að Choi-Tae Min hefði haft algjöra stjórn á líkama og sál Park Geun-hye á uppvaxtarárum hennar. Choi Soon-sil er dóttir Choi Tae-min og tók við af föður sínum þegar hann lést árið 1994. Til viðbótar við þau tilfelli sem upp hafa komið um óviðeigandi pólitíska ráðgjöf tengd veraldlegum málum allt frá því að Park Geun-hye komst fyrst á þing 1998 hefur Choi, samkvæmt kóreskum fjölmiðlum, einnig ráðlagt Park um yfirnáttúruleg álitamál; hvaða klæðalitum hún ætti að forðast (rauðum og hvítum), og veitt henni hálsmen og aðra gripi til að vernda hana gegn illum öflum.
Dropinn sem hefur fyllt mælinn undanfarinn mánuð á sér þó rætur í atburðum sem áttu sér stað í október á síðasta ári þegar samtök kóresks iðnaðar (e. Federation of Korean Industries (FKI)) settu upp tvo sjóði; Mir Foundation til styrktar kóreskrar menningu, og K-Sports Foundation til styrktar kóreskra íþrótta. Sjóðirnir tveir voru stjórnaðir af Choi og það vakti mikla athygli þegar kom í ljós að Mir Foundation hefði náð að safna að sér yfir 50 milljörðum won, eða um 4,8 milljörðum króna, og K-Sports Foundation um 30 milljörðum won, um 2,8 milljarðar króna, á fyrstu dögunum eftir stofnun þeirra. Rannsakendur málsins segja fyrirtækin umræddu hafi styrkt sjóðina til að komast hjá skattendurskoðun, og hafa þeir hafist handa að rannsaka fleiri meint spillingarmál tengd forsetanum sem snúa að hinum ríkisrekna lífeyrissjóði National Pension Service (NPS).
Svanasöngur forsetans
Park hafði ítrekað neitað orðrómum um óeðlileg áhrif vináttu hennar við Choi áður en uppljóstranir síðustu vikna áttu sér stað. Myndin sem nú er dregin upp sýnir forseta sem skortir ekki einungis tengsl við almenning heldur sé undir sterkum áhrifum vafasamra einstaklinga í kringum sig. Ekki er hægt að ákæra Park eftir því sem að hún er sitjandi forseti og óljóst er hvort kóreska þingið leggi til málshöfðun gegn henni áður en þingi verður slitið 9. desember, eða hvort stjórnarandstaðan fallist á þá tillögu hennar að segja af sér þegar bráðabirgðalausn sé lögð fram. Umfang málsins mun skýrast frekar á næstu dögum og vikum en ljóst þykir að valdatíð Park Geun-hye er brátt að enda eftir langvinna sápuóperu.