Árið 1996 heimsótti ljósmyndarinn og blaðamaðurinn Marianna Cook ung hjón og tók við þau viðtal. Hún var að vinna að ljósmyndaverkefni í Chicago þar sem rætt var við ungt fólk á uppleið. Á meðal þeirra sem hún hitti voru forsetahjónin núverandi í Bandaríkjunum, Barack og Michelle Obama.
Michelle sagði í viðtalinu að það væri möguleiki að Barack, sem á þessum tíma var 35 ára, muni reyna fyrir sér í stjórnmálum. „Hann er samt alltof góður fyrir slíkt,“ segir hún.
Í viðtalinu rekur Barack hvernig hann mótaðist af sundrungu í fjölskyldu sinni á meðan Michelle bjó við meiri stöðugleika í æsku. Þau segjast ólíkir persónuleikar sem reyni að vinna saman, og styrkja hvort annað.
Það er merkilegt að hugsa til þess að á 20 árum hafi þeim tekist að komast alla í leið í Hvíta húsið. Þau eru ekki fædd með silfurskeið í munni - eins og Repúblikaninn Donald J. Trump sem vann kosningarnar fyrir tæpum mánuði - heldur þurftu þau skipulega að vinna sig upp metorðastigann með dugnaði, klókindum og elju. Í Bandaríkjunum nær enginn árangri í stjórnmálum nema að hann taki þátt í hinni pólitísku refskák af fullum þunga og það gerðu Obama hjónin svo sannarlega í aðdraganda kosninga árið 2008 og 2012.
Árangursríkur tími
Enginn er fullkominn, svo mikið er víst. Líklega sést það einna best á hinu pólitíska sviði. En nú þegar átta ára valdatími Baracks Obama er að nálgast endalokin þá stendur eftir árangursríkur tími þar sem nýir sigrar unnust og mannkynssagan fékk nýjan kafla. Fyrsti svarti forsetinn reyndist starfinu vaxinn. Bara þetta eitt og sér markar djúp spor.
Þegar hann tók við embættinu, í janúar 2009, þá var efnahagslíf heimsins á versta staða sem komið hafði upp frá því í Kreppunni Miklu á þriðja áratugnum. Sú kreppa endaði með seinni heimstyrjöldinni og miklu hugmyndafræðilegum átökum til austurs og vesturs.
Þungi ríkisvaldsins
Að undanförnu hefur Obama eytt púðrinu sem eftir er í að minnast þess, að það tókst að afstýra hörmungum undir hans stjórn. Alveg eins og á Íslandi, í miðju stormsins haustið 2008, þá réðu gríðarlega umfangsmikil inngrip ríkisvaldsins úrslitum um það að markaðirnir - þessir sem sumir halda að geti stjórnað sér alfarið sjálfir - féllu ekki alveg saman. Ben Bernanke, fyrrverandi Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, og Hank Paulson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hafa báðir rakið þessa atburðarás í smáatriðum og sagt að fjárhagsinnspýting ríkissjóðs Bandaríkjanna hafi bjargað heiminum frá hörmungum. Á fundi árið 2010, þar sem Warren Buffett tók viðtal við Hank Paulson frammi fyrir fullum sal áhorfenda, sagði hann í inngangsorðum að fólk almennt áttaði sig ekki á því hversu litlu hefði munað að hinn alþjóðlegi heimur viðskiptanna hryndi saman.
Þessar aðgerðir mótuðu ríkisfjármálaáætlanir Bandaríkjanna á báðum kjörtímabilum Obama. Efnahagsástand fór hratt versnandi eftir kreppuna á árunum 2007 til 2009, og náði atvinnuleysi hámarki á árinu 2010, og var þá rúmlega 10 prósent. Núna er það komið niður í 4,6 prósent og er fastlega búist við því að hagvöxtur verið á bilinu 2 til 3 prósent á þessu ári.
Mörg svæði í Bandaríkjunum fóru hins vegar illa út úr efnahagsþrengingunum fyrir tæpum áratug og má sérstaklega nefna miðríkin í því samhengi. Þar hafa innviðir verið að fúna í alþjóðavæddum heimi viðskipta og reyndist hrun á fasteignamörkuðum þessum svæðum sérstaklega erfið. Þau hafa mörg hver ekki náð vopnum sínum og alls óvíst hvort það takist yfir höfuð.
Obama og Reagan
Mestu áhrifin af tíð Obama verða þó ekki metin til fjár. Frá því hann kom fram á sjónarsviðið hefur hans aðalsmerki verið ræðusnilld og áhrifamikil skilaboð um málefni líðandi stundar. Að þessu leyti svipar Obama til þess þegar Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna, átti sviðið og var boðberi frelsisins og fjölbreytni á níunda áratugnum. Sérstaklega hefur Obama beitt sér með áhrifamiklum hætti í umræðunni um byssuglæpi í Bandaríkjunum, kynþáttahyggju, umhverfismál og réttarvörslukerfið sömuleiðis.
Sterkur málsvari vesturlanda
Á alþjóðavettvangi hefur Barack Obama átt gengi að fagna sem fáir forsetar Bandaríkjanna geta státað sig af. Hann hefur verið vinsæll í hinum vestræna heimi og átt sterka bandamenn í flestum þróuðum ríkjum, ekki síst Þýsklandi, Bretlandi - þegar David Cameron var forsætisráðherra - og Frakklandi sömuleiðis. Þá sýndi hann Norðurlöndunum sérstaklega mikinn hlýhug á sínum ferli og sagðist líta á þau sem fyrirmyndarríki þegar hann talaði til leiðtoga ríkjanna í móttöku þeim til heiðurs í Washington DC. Þetta hafa fyrri forsetar Bandaríkjanna ekki gert.
Fjölbreytni og jafnrétti
Alveg frá 24. júlí 2008, þegar Barack Obama flutti ræðu frammi fyrir 200 þúsund áhorfendum í Berlín, hefur hann haft eitt mál sem leiðarljós í umræðu innan Bandaríkjanna. Það er að tala fyrir fjölbreytni og jöfnum tækifærum óháð lífsskoðunum, kynþætti, trúarbrögðum, kyni eða efnahagslegri stöðu. Nú þegar hann er við það að hverfa af sviðinu þá verður þetta einkenni eitt hans helsta framlag til umheimsins og stjórnmálasögunnar.