Gengi krónunnar hefur styrkst mikið að undanförnu gagnvart helstu myntum og ef fram heldur sem horfir mun hún geta grafið hratt undan þeim efnahagsbata sem náðst hefur fram á Íslandi á síðustu árum. Það kann að vera að þetta séu of stór orð, og þó. Full ástæða er til að staldra við og huga að því hver staða hagkerfisins er um þessar mundir. Erum við á réttri leið eða rangri?
Nýjustu tölur um hagvöxt eru algjörlega á skjön við þróun mála í hagkerfum í margfalt stærri ríkjum út í heimi, svo ekki sé talað um meðaltöl í heimsálfum.
Þó erfitt sé að bera aðrar þjóðir saman við Ísland, hvað þetta varðar - vegna mikils stærðarmunar - þá tala tölurnar sínu máli. Landsframleiðsla vex margfalt hraðar en í nær öllum öðrum þróuðum ríkjum heimsins um þessar mundir.
Þetta vekur upp spurningar um á hvaða vegferð íslenska hagkerfið er. Eins og staðan er núna þá er Ísland glóandi rauður blettur á efnahagslegu hitakorti heimsins.
Gríðarlegur vöxtur
Landsframleiðslan á þriðja ársfjórðungi þessa árs jókst að raungildi um 10,2 prósent frá sama ársfjórðungi fyrra árs en það er mesta aukning sem mælst hefur frá því á 4. ársfjórðungi 2007. „Magnaukning landsframleiðslunnar nú skýrist að verulegu leyti af framlagi utanríkisviðskipta en útflutningur jókst að raungildi um 16,4% samanborið við sama tímabil árið 2015,“ segir í frétt á vef Hagstofu Íslands, sem birt var í gær.
Mikill vöxtur í ferðaþjónustu hefur birst eins og vítamínsprauta gjaldeyris fyrir hagkerfið. Áhrifin leyna sér ekki. Á þessu ári er gert ráð fyrir að 1,7 milljónir ferðamanna heimsæki landið en á næsta ári benda spár til þess að 2,2 milljónir manna komi til landsins. Gjaldeyrisinnspýting í hagkerfið verður upp á 500 milljarða króna í samanburði við 430 milljarða á þessu ári.
Þessi mikli vöxtur hefur haft mikil áhrif á vinnumarkaði, en þar er nú skortur á vinnuafli, að sögn Seðlabanka Íslands. Atvinnuleysi mælist undir þrjú prósent og vegna mikilla umsvifa í byggingariðnaði og ferðaþjónustu þarf fleira starfsfólk í þá geira. Aðrir geirar atvinnulífsins hafa ekki verið að vaxta með viðlíka hætti. „Í ríkari mæli en áður er hagvöxturinn borinn uppi af innlendri eftirspurn, sem jókst um tæplega 10% á fyrri hluta þessa árs. Þá heldur störfum áfram að fjölga hratt, atvinnuleysi að minnka og skýrari merki eru um að hraður vöxtur eftirspurnar sé farinn að reyna á þanþol innlendra framleiðsluþátta. Á móti vegur meiri aðflutningur erlends vinnuafls,“ segir í yfirlýsingu Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands frá 16. nóvember.
Þá hefur fasteignaverð hækkað hratt á undanförnum árum. Á höfuðborgarsvæðinu er hækkunin um 50 prósent að raunvirði, sé miðað við fjölbýli, en fastlega er búist við áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs. Húsnæðisskortur á tímum mikillar eftirspurnar og jákvæð áhrif lágrar verðbólgu og launahækkana, hafa ýtt undir hækkun eignaverðs. Undirliggjandi er styrking krónunnar þar áhrifamikill þáttur því hún hefur haldið aftur af innfluttri verðbólgu og þannig minnkað verðbólguþrýsting. Verðbólgan mælist nú 2,1 prósent og meginvextir Seðlabankans 5,25 prósent, en víða heyrast þær raddir að ef ekki sé tími til vaxtalækkana nú, þá komi sá tími aldrei. Peningastefnunefnd Seðlabankans telur þó að fara þurfi varlega í þessum efnum, enda margir óvissuþættir í íslenska hagkerfinu sem taka þurfi tillit til.
Hraður bati
Staða ríkisfjármála hefur kúvenst á skömmum tíma og er útlit fyrir að skuldir ríkissjóðs verði komnar niður fyrir 40 prósent af árlegri landframleiðslu í lok árs 2017. Uppgjör slitabúa hinna föllnu banka breytti stöðunni verulega til hins betra. Skuldir þjóðarbússins erlendis minnkuðu verulega og stöðugleikaframlög til ríkisins frá slitabúunum, upp á um 500 milljarða þegar allt er talið, styrktu stöðu ríkissjóðs mikið.
Í ofanálag hefur viðskiptajöfnuður sífellt verið að batna, einkum vegna mikillar fjölgunar ferðamanna. „Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 100,4 milljarða króna á ársfjórðungnum samanborið við 32,5 milljarða króna fjórðunginn á undan. Þetta er mesti afgangur af viðskiptajöfnuði frá upphafi mælinga og í fyrsta sinn sem hann fer yfir 100 milljarða króna á fjórðungi,“ segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands 2. desember.
Ofhitnun?
En þessi stórbætta staða hagtalnanna - svona fljótt á litið - hefur líka á sér dekkri hliðar. Eftir hrun fjármálakerfisins hefur hagkerfið verið endurreist í nýjum veruleika en var áður og þar er augljósast að horfa til gengis krónunnar. Fyrir rúmlega ári síðan kostaði Bandaríkjadalurinn 136 krónur en í dag er hann kominn niður í 110 krónur. Í desember 2007 kostaði dalurinn 60 krónur en fyrir hrunið var það eitt helsta aðalsmerki íslenska hagkerfisins, hversu gengi krónunnar var sterkt. Háir vextir og almenn þensla - ekki síst vegna fífldjarfra lánveitinga bankanna til fólks og fyrirtækja - leiddu þá til alvarlegrar stöðu, þó ástæða hruns fjármálakerfisins hafi verið margslungin eins og þekkt er.
Veik króna hefur skipt mál
En munurinn þá og nú snýst ekki síst um ólíka stöðu krónunnar og allt annað umhverfi í fjármálakerfinu. Hagvöxtur hefur verið útflutningsdrifinn á síðustu árum, þó vöruskiptajöfnuður sé viðvarandi neikvæður, og þar hefur veikari staða krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum heimsins skipt miklu máli. Samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja - í mörgum geirum atvinnulífsins - hefur í reynd byggt á þessari stöðu. Má ekki síst nefna nýsköpunarfyrirtæki af ýmsu í tagi í því samhengi.
Einn viðmælandi Kjarnans, sem starfar í tæknigeiranum, orðaði það þannig, að ef Bandaríkjadalur færi að kosta undir 110 krónum þá færi samkeppnisforskot fyrirtækjanna fljótt. Með öðrum orðum; þá mun áframhaldandi styrking grafa undan samkeppnishæfni útflutningsgreina smám saman. Nú þegar hafa heyrst áhyggjuraddir vegna þessa, en styrking krónunnar gagnvart evru er um 16 prósent á síðasta ári og gagnvart Bandaríkjadal hefur hún verið rúmlega 14 prósent. Mest hefur styrkingin verið gagnvart pundinu eða tæplega 30 prósent en eftir Brexit kosninguna í júní hefur pundið veikst verulega gagnvart helstu viðskiptamyntum heimsins. Pundið kostaði 206 krónur fyrir rúmlega ári en kostar nú tæplega 140 krónur.
Helsti markaður fyrir þorsk gefur minna
Þetta eru slæm tíðindi fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki ekki síst í sjávarútvegi. Um 12 prósent af útflutningi Íslands í fyrra fór til Bretlands og um 19 prósent ferðamanna komu þaðan. Þetta er því mikilvægt viðskiptasvæði Íslands. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, gerði styrkingu krónunnar gagnvart pundinu að umtalsefni þegar uppgjör félagsins vegna ársins 2015 var kynnt. „Fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu mun hins vegar hafa neikvæð áhrif á afkomu okkar, að minnsta kosti til skamms tíma á meðan pundið er veikt. Stór hluti þorskafurða félagsins er seldur í Bretlandi,“ sagði Þorsteinn Már.
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Líklegt er að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast á næstu misserum, sé mið tekið af því að gjaldeyrisinnstreymi er stöðugt verulega mikið vegna erlendra ferðamanna. Það er þó einkum tvennt sem getur dregið úr henni. Annars vegar auknar fjárfestingar erlendis, ekki síst íslenskra lífeyrissjóða, og síðan inngrip Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði. Íslenskir lífeyrissjóðir eiga nú tæplega 3.300 milljarða eignir, og af þeim er rúmlega 20 prósent erlendis. Hugsanlegt er að þeir fjárfesti meira erlendis nú þegar er verið að losa um höft og það sama má segja um íslenska fjárfesta almennt. Til þessa hefur þó lítið sést til þessarar þróunar.
En eins og oft áður er vandi að spá um hvað gæti gerst á næstu misserum og árum, hvort sem það er áframhaldandi uppsveifla eða jafnvel niðursveifla. Flestir greinendur spá áframhaldandi miklum hagvexti en nefna þó þann fyrirvara að mikil styrking krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum geti grafið undan útflutningshliðinni. Og eins og að framan er rakið, þá gæti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir hagkerfið. Þá hæfist enn ein rússíbanareiðin sem íslenska hagkerfið hefur gengið í gegnum á stuttu æviskeiði.