Plata David Bowie, Blackstar, er í mínum huga mesti listrænni stórviðburður ársins 2016. Hún kom út 8. Janúar en Bowie lést úr krabbameini tveimur dögum síðar. Mánuðina á undan var Bowie búinn að vinna að söngleiknum Lazarus, sem er heitið á einu laginu á Blackstar plötunni.
Söngleikurinn var sýndur, samkvæmt skipulagi Bowie sjálfs, fram til 20. janúar í New York Theater Workshop á Broadway.
Dauðinn sem listaverk
Í ljós kom, um leið og leiðu tíðindin af þessari goðsögn fóru að berast, að Bowie hafði búið til epískt, tilfinningaþrungið og hyldjúpt listaverk úr eigin dauða. Eitthvað sem enginn annar hefði getað leikið eftir.
Blackstar-platan er ógnarsterk og ein sú allra besta frá árinu 2016, en í heildarsamhengi listaverksins er hún hluti af listrænum stórviðburði í poppsögunni; hinstu kveðju Davids Bowie.
Ég var sjálfur búsettur í New York þegar Bowie lést og áhrifin leyndu sér ekki. Ekki nóg með að lögin hans hafi hljómað ótt og títt á Manhattan, heldur komust djúpstæð áhrif hans á hina einstöku listasenu borgarinnar í kastljósið. Helstu listamenn og hönnuðir sem hafa starfað í New York um árabil lýstu Bowie sem einum merkilegasta listræna leiðtoga sem komið hefði fram. Hann setti tóninn fyrir það sem var framundan. Í tísku, tónlist, hönnun og fleiru. Frumleg hugsun hans var einstök, eins og lögin hans og textar.
David Bowie dagurinn
Á lokadegi söngleiksins á Broadway steig fulltrúi frá New York borg á svið og las upp skilaboð frá borgarstjóranum, Bill de Blasio. Frá og með þessu kvöldi yrði 20. janúar David Bowie dagurinn ár hvert í New York. Þannig ætlaði borgin sér að minnast magnaðra áhrifa á lífið í borginni, en hann var búsettur í borginni í meira en þrjá áratugi. Lengst af bjó hann skammt frá Washington Square og var tíður gestur í plötubúðum og kaffihúsum borgarinnar, ekki síst við Bleecker Street, þar sem marga næturklúbba Greenwich Village hverfsins er að finna. Ein frægasta plötubúð götunnar heitir Rebel Rebel.
Tveimur dögum eftir að Bowie lést fór ég með syni mína tvo í hjólatúr frá Columbia Campus við 116. stræti, þar sem við bjuggum, og niður að heimili hans neðarlega á Manhattan. Þetta var mikil upplifun, og einstök minning. Eftir því sem nær dró sá maður veitingastaði, bókabúðir, bari, sylluverslanir af ýmsum toga, fyrirtæki, stofnanir og fólk almennt, vera að halda minningu Bowie á lofti. Þetta náði svo hámarki við nágrenni heimilisins þar sem margmenni var saman komið og söng hástöfum lögin hans. Fame. Heroes. Changes. Starman. Space Oddity. Oh! You Pretty Things. Fólk tók undir. Ástríðan leyndi sér ekki.
Brautryðjandinn
Margir munu eflaust reyna að feta í fótspor Bowies þegar fram líða stundir. Hann var slíkur brautryðjandi að óhjákvæmilegt er annað en að í fársjóð hans verði leitað. En það mun aldrei koma fram annar Bowie. Því miður fyrir okkur hin. En eftir hann liggur einstakt lagasafn og fjölbreytileg áhrif á nær allt sem hann kom nálægt á ferli sínum sem listamaður, allt frá því hann byrjaði að þróa sig sem listamann sem táningur í Brixton í Suður-London, þar sem hann er fæddist 1947.