Íslenskir lífeyrissjóðir eiga eignir upp á ríflega 3.284 milljarða króna miðað við stöðuna eins og hún var um áramót. Sjóðirnir hafa notið góðs af uppbyggingu íslenska hlutabréfamarkaðarins eftir hrunið 2008, og hefur raunávöxtun flestra sjóða verið nokkuð góð í sögulegum samanburði.
Bakbeinið á hlutabréfamarkaði
Árið 2016 var fyrsta árið frá hruni, þar sem úrvalsvísitalan á hlutabréfamarkaði lækkaði, en sé horft til undanfarinna fimm ára þá er óhætt að segja að lífeyrissjóðirnir, sem eiga að minnsta kosti á bilinu 40 til 50 prósent af öllum skráðum hlutabréfum á markaði, hafi ávaxtað eignir sínar vel á markaðnum.
Heildarvirði fyrirtækja í kauphöllinni nemur rúmlega þúsund milljörðum króna.
Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands áttu lífeyrissjóðir hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum fyrir 423 milljarða um áramótin og fyrir 141 milljarða króna í gegnum hlutdeildarskírteini sjóða. Samtals nemur innlend hlutabréfaeign 565 milljörðum króna.
Dyrnar að opnast erlendum mörkuðum
Með frekari losun hafta má búast við því að lífeyrissjóðirnir fjárfesti meira erlendis og nýti sínar heimildar til að dreifa áhættunni í eignasöfnum sínum.
Seðlabankinn tilkynnti um það á dögunum að hann hefði ákveðið að veita lífeyrissjóðum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar nýja undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál til fjárfestingar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Samanlagt nemur heimildin 100 milljörðum króna og gildir til ársloka 2017. Frá miðju ári 2015 og til loka þessa árs hefur lífeyrissjóðunum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar verið heimilt að fjárfesta erlendis fyrir samtals 95 milljarða, þar af 85 milljarða í fyrra.
Í tilkynningu Seðlabankans kemur fram að gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins hafi batnað verulega undanfarin misseri og því sé hægt að rýmka heimildir, það er að losa um fjármagnshöftin sem hafa verið í gildi frá því í nóvember 2008. „Gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins hefur batnað verulega samfara miklu gjaldeyrisinnstreymi, sem meðal annars má rekja til metafgangs á viðskiptajöfnuði á þriðja ársfjórðungi, og líkur á miklu gjaldeyrisútstreymi í kjölfar frekari losunar hafta hafa minnkað verulega. Því er nú unnt að veita heimild til erlendrar fjárfestingar sem spannar lengra tímabil en áður, þ.e.a.s. fyrir allt næsta ár, auk þess að hækka heimildina frá því sem hún var í ár. Þetta mun auðvelda lífeyrissjóðunum gerð fjárfestingaráætlana og stuðla að auknu hagræði í erlendum verðbréfakaupum. Sem fyrr verður þó gerð krafa um að fjárfesting sjóðanna dreifist reglulega yfir árið. Heimildin fyrir næsta ár grundvallast á því að svigrúm sjóðanna til erlendrar fjárfestingar verði sem mest en þó ekki þannig að þeir selji innlendar eignir eða dragi sig út af innlendum skuldabréfamarkaði í þeim mæli að verulegri röskun valdi,“ segir í tilkynningunni, en ekki er nánar greint frá því hvað geti talist of mikil röskun á markaðnum.
Þjóðhagslegur ávinningur af betri áhættudreifingu
Heimildin er veitt með fyrirvara um að fjárhæðir geti breyst ef svigrúm til gjaldeyriskaupa reynist umtalsvert minna en horfur eru á nú, til dæmis vegna óhagstæðrar þróunar greiðslujafnaðar eða annarra breyttra aðstæðna. „Verði framhald á öflugu gjaldeyrisinnstreymi á árinu 2017 kynni á hinn bóginn að skapast svigrúm til hækkunar heimilda lífeyrissjóðanna til erlendrar fjárfestingar.
Sem fyrr eru rökin fyrir heimildinni þau að þjóðhagslegur ávinningur fylgir því að lífeyrissjóðir bæti áhættudreifingu í eignasöfnum sínum. Þá er æskilegt að draga úr uppsafnaðri erlendri fjárfestingarþörf þeirra áður en fjármagnshöft verða endanlega losuð og þar með hættu á óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Til lengri tíma litið hafa þessar auknu heimildir sjóðanna hverfandi áhrif á gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins því gera má ráð fyrir að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna á næsta ári muni draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa síðar,“ segir í tilkynningunni.
Fjárfestingarheimildinni verður skipt á milli lífeyrissjóðanna og annarra vörsluaðila með þeim hætti að annars vegar verður horft til samtölu eigna, sem fær 86 prósent vægi, og hins vegar til iðgjalda að frádregnum lífeyrisgreiðslum, sem fær 14 prósent vægi. Byggir þetta mat á greiningu Fjármálaeftirlitsins á stöðu lífeyrissjóðanna.
Um 22 prósent erlendis
Af heildareignum lífeyrissjóða eru 735 milljarða erlendis, miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs. Það er upphæð sem nemur um 22 prósentum af heildareignum. Stærstur hluti eigna lífeyrissjóðanna er sem fyrr bundinn í innlendum skuldabréfum, aðallega verðtryggðum. Innlend markaðsskuldabréf og útlán nema yfir 1.600 milljörðum króna.