Hvað gerist árið 2017?
Árið 2017 verður viðburðaríkt og spennandi ef marka má stutta yfirferð yfir þau mál sem verða til umfjöllunar.
Nú þegar nokkrir dagar eru liðnir af árinu 2017 og fólk er búið að jafna sig eftir hátíðirnar er við tilefni til þess að líta fram á við og velta fyrir sér hvað árið 2017 mun bjóða upp á í heimi frétta og stjórnmála.
Hér á landi má vænta tíðinda í landspólitíkinni þegar ný ríkisstjórn kynnir stjórnarsáttmála sinn og setur í gang stefnumál sín. Erlendis eru það stóru málin á alþjóðavísu sem bera hæst. Donald Trump mun taka við embætti forseta í Bandaríkjunum og í Evrópu mun verða einhver framvinda í Brexit og hugsanlegu Frexit, auk þess að gengið verður til þingkosninga í Þýskalandi þar sem Angela Merkel á í vök að verjast.
Hér að neðan er stiklað á stóru með þau mál sem vert er að fylgjast með á árinu. Listinn er fjarri því að vera tæmandi.
Á Íslandi
Samkeppni á smávörumarkaði
H&M sem er ein stærsta fataverslun í heimi mun opna þrjár verslanir í Reykjavík á næstu tveimur árum. Verslun H&M í Kringlunni mun opna síðla árs 2017. Búast má við að þetta muni hafa nokkur áhrif á smásölumarkað hér á landi og að neytendur muni finna fyrir aukinni samkeppni á markaði með fatnað. Kjarninn hefur áður fjallað um rannsóknir á markaðshlutdeild fyrirtækisins í fatainnkaupum Íslendinga. Samkvæmt heimilisfjármálahugbúnaðinum Meniga var hlutdeild H&M 37 prósent árið 2013.
Meiri túrismi
Fjöldi farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll mun ná nýjum hæðum ef spár ISAVIA fyrir árið 2017 ganga eftir. Fjöldi ferðamanna sem heimsótt hafa Ísland hefur aukist stöðugt undanfarin ár. Það hefur raunar verið þannig að spár ISAVIA og ferðaþjónustuyfirvalda hafa alltaf verið mun hófstilltari en raunin hefur verið. Í júlí á þessu ári er gert ráð fyrir að rúmlega milljón manns fari um flugstöðina á Miðnesheiði, miðað við um 900.000 þúsund manns í júlí á síðasta ári.
Opna rafokruvirkjun
Jarðvarmavirkjun við Þeystareyki verður gangsett á árinu 2017. Framkvæmdir við virkjunina hófust í maí árið 2015 og er unnið að byggingu 90 MW jarðvarmastöðvar þar. Verkefnið er í tveimur áföngum og mun örðum áfanganum ljúka í ár þegar fyrri vél stöðvarinnar verður gangsett. Seinni vélin á svo að fara í gang á næsta ári. Virkjunin á meðal annars að leggja til raforku til iðnaðaruppbyggingar á Bakka.
Selja banka
Ráðgert er að Arion banki verði seldur að fullu fyrir lok þessa árs. Þetta kom fram í greinargerð fjármálaráðuneytisins í lok sumars í fyrra. Íslenska ríkið á 13 prósent hlut í bankanum á móti Kaupþingi sem á 87 prósent. Um leið er reiknað með að verkefni Lindarhvols ehf, eignarhaldsfélags íslenska ríkisins sem sér um að koma stöðugleikaframlögunum í verð, dragist verulega saman á þessu ári.
Þétting byggðar
Sundurgrafin miðborg Reykjavíkur mun taka á sig nokkra mynd á árinu þegar nokkrum stórum framkvæmdum verður lokið eða áfram haldið. Við Grandaveg hafa verið byggð fjölbýlishús þar sem eru 142 íbúðir, á Austurbakkanum eru framkvæmdir þegar hafnar og nýbyggingar að rísa úr húsagrunnum. Milli Tryggvagötu og Hafnarstrætis verður nýbyggingin að öllum líkindum tekin í notkun í sumar. Framkvæmdir halda áfram á lóðunum í kring. Þá hefur verið ráðgert að viðbyggingin við Sundhöll Reykjavíkur verði tilbúin á þessu ári. Hér hafa aðeins fáeinar framkvæmdir í höfuðborginni verið nefndar.
EuroBasket
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik mun keppa á Evrópumeistaramótinu í sumarlok. Mótið fer fram í fimm keppnishöllum í fjórum borgum Evrópu. Þetta er í annað sinn í röð sem Ísland fær keppnisrétt á þessu móti. Okkar menn leika í A-riðli með Pólverjum, Grikkjum, Frökkum, Finnum og Slóvenum.
EM 2017
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu keppir á Evrópumeistaramótinu í Hollandi í sumar. Þetta er í þriðja sinn í röð sem okkar konur fá keppnisrétt á mótinu. Besti árangur liðsins á Evrópumeistaramóti var þegar þær komust í fjórðungsúrslit árið 2013 þar sem þær lutu í lægra haldi gegn Svíþjóð. Íslenska liðið öðlaðist keppnisrétt á mótinu í ár með því að vinna sinn undanriðil, þar sem þær unnu alla leiki sína nema einn.
Heimsmeistaramót í handbolta
Íslenska karlalandsliðið í handbolta keppir á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í janúar. Þetta er í átjánda sinn sem liðið keppir á heimsmeistaramótinu. Besti árangur liðsins var árið 1997 þegar Ísland hreppti fimmta sætið.
Á alþjóðasviðinu
Þýðir Brexit Brexit?
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, lýsti því yfir í haust að Bretar myndu óska eftir að 50. grein Lisabon-sáttmálans yrði virkjuð áður en marsmánuður ársins 2017 væri úti. Bretar greiddu atkvæði um það í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga úr Evrópusambandinu síðasta sumar og hefur lítið formlegt átt sér stað í málaflokknum síðan. Brexit fyrir marslok er hins vegar raunverulegur möguleiki enda hafa bresk stjórnvöld lagt áherslu á að þau séu búin að hnýta alla þá hnúta sem þarf áður en óskað er eftir útgöngu úr sambandinu. Það má því vel vera að samið verði um framtíðarstöðu Bretlands í heiminum á þessu ári.
En Frexit?
Forsetakosningar í Frakklandi verða haldnar í apríl og maí. Í kosningunum gefur Marine Le Pen, formaður þjóðernishreyfingarinnar Front National, kost á sér ásamt Francois Fillon, frambjóðandi hægriflokksins Les Républicains og fleirum. Fillon hefur mælst vinsælastur frambjóðendanna en Le Pen hefur sótt á og er talin eiga raunverulega möguleika á að verða forseti. Hún hefur sagt að verði hún kjörin muni Frakkar fara fram á „Frexit“, þe. segja sig úr Evrópusambandinu eins og Bretland.
Trump í Hvíta húsið
Donald Trump verður settur í embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar næstkomandi. Hann verður 45. forseti landsins og eflaust sá langt óútreiknanlegasti. Enn er á huldu hvernig hann mun beita embættinu enda byggði kosningabarátta hans að miklu leyti á upphrópunum og staðreyndavillum um allt mögulegt. Hann er raunar þegar byrjaður að valda usla sem áhugavert verður að fylgjast með hvernig vindur fram. Eitt af fyrstu verkefnum hans sem forseta á alþjóðavísu verður G7 ráðstefna þróuðustu iðnvelda heims sem haldin verður á Sikiley í maí.
Merkel í valdabaráttu
Þingkosningar í Þýskalandi verða haldnar í haust. Þar mun þýskur almenningur kveða dóm sinn yfir stjórn Angelu Merkel sem hefur verið kanslari Þýskalands síðan 2005. Samsteypustjórn hennar nýtur góðs meirihluta í þinginu eftir kosningarnar 2013 en nú er útlitið ekki eins bjart. Jafnvel þó flokkur hennar Kristilegir demókratar sé enn sá vinsælasti í Þýskalandi hefur fjarað undan stuðningnum og þjóðernisflokkurinn AfD undir forystu Frauke Petry hefur sótt í sig veðrið. Undanfarið hefur verið fjallað um Angelu Merkel sem „síðasta fulltrúa hnattvæðingarinnar“ og spurningum velt upp um framtíð Evrópusamvinnunnar ef hennar nýtur ekki við eftir kosningarnar.
Kemst loftslagssamningurinn í uppnám?
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin í Bonn í Þýskalandi næsta vetur. Þetta verður 22. ráðstefnan sem haldin er sérstaklega um loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Nokkur óvissa er um hversu skilvirkt Parísarsamkomulagið er eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna og ráðstefnan mun að öllum líkindum fjalla um aðlögun að breyttu stjórnarmynstri lykilríkja sem samþykkt hafa samninginn.
Fleiri flóttamenn
Flóttamannastraumurinn í Evrópu náði nýjum hæðum árið 2016 en ekki er gert ráð fyrir að lát verði á aðsókn fólks til álfunnar frá stríðshrjáðum eða fátækari löndum. Hins vegar er alls ekki útlit fyrir að þolinmæði Evrópubúa muni aukast í garð flóttafólks á árinu. Í Þýskalandi hafa stjórnvöld þurft að hverfa frá vinalegri stefnu sinni og annars staðar er pólitískum öflum andstæð innflytjendum að vaxa ásmegin.
Trump og NATO
Leiðtogaráðstefna NATO verður haldin á þessu ári. Þar má vænta þess að línurnar skýrist í samskiptum Bandaríkjanna við Evrópuríki eftir að Donald Trump var kjörinn forseti. Trump hefur talað um að Bandaríkin muni ekki halda áfram að styðja við varnir annara NATO-ríkja ef þau leggja ekki til ásættanlegar fjárhæðir til bandalagsins. Línurnar munu eflaust skýrast í kjölfar fundarins í nýjum höfuðstöðvum NATO í Brussel.