Fyrstu dagar nóvembermánaðar árið 1872 voru vindasamir í Norður-Evrópu. Vindurinn var norðvestanstæður og þrýsti sjónum um Kattegat meðfram ströndum Danmerkur, inn í Eystrasalt og alla leið inn í Helsingjabotn. Í gögnum dönsku veðurstofunnar (sem var stofnuð þetta sama ár, 1872) er að finna ítarlegar upplýsingar um veðurfarið þessa daga. Sunnudaginn 10. nóvember lygndi skyndilega en það reyndist svikalogn í orðsins fyllstu merkingu. 11. nóvember tók að hvessa og daginn eftir var komið ofsaveður á austan sem þrýsti sjónum úr Eystrasalti til baka að ströndum dönsku eyjanna. Í gögnum skýrslum dönsku veðurstofunnar segir að því sé líkast að tappi hafi verið settur í Litlabelti, Stórabelti og Eyrarsund því þrýstingurinn að norðan (frá Kattegat) var enn til staðar.
13. nóvember
Eins og áður sagði var danska veðurstofan sett á stofn árið 1872. Sú starfsemi sem þar var í upphafi á lítið skylt við það starf sem fram fer á slíkum stofnunum í dag. Starfsmenn voru í byrjun fjórir og þeim var fyrst og fremst ætlað ýmis konar skráningarstarf og upplýsingasöfnun. Veðurspár í þeim skilningi sem tíðkast í dag voru ekki til. Síminn var ekki kominn til sögunnar, ekki útvarpið, engin gervitungl á lofti til að senda upplýsingar, engin spálíkön né annað það sem nútímanum þykir bæði eðlilegt og sjálfsagt. Í fáum orðum sagt: nánast ekkert af því sem veðurfræðingar, og aðrir sérfræðingar nútímans, byggja sínar spár á var til staðar. Þess vegna vissi enginn hvað í vændum var þessa örlagaríku daga í nóvember 1872.
Frásögn piltsins Hans Lærke
Að morgni 13. nóvember fór Hans Lærke Lærkesen, níu ára gamall piltur búsettur á bóndabæ í Vester Ulslev á Lálandi gangandi í skólann ásamt jafnaldra sínum, sem bjó á sama bæ. Veðrið var vont, hvassviðri og snjókoma. Fáir nemendur voru mættir í skólann og um hádegi var tilkynnt að ekki yrði kennt lengur og allir ættu að fara heim. Hans Lærke fór þá heim ásamt félaga sínum. Heimferðin gekk vel, þrátt fyrir að veðrið væri slæmt. Þegar þeir félagar komu heim sáu þeir, sér til undrunar, að á bæjarhlaðinu voru tugir nautgripa frá nokkrum bæjum í nágrenninu, ásamt vinnumönnum. Þegar strákarnir spurðu hverju þetta sætti var þeim sagt að flætt hefði að bæjunum sem stæðu nær ströndinni. Nautgripunum var svo komið í hús og þótt þar væri þröngt voru þeir hólpnir. ,,Það var ekki fyrr en eftirá að ég áttaði mig á hversu heppin við vorum að sleppa svona vel” sagði Hans Lærke en ítarleg frásögn hans var árið 1936 skráð í Dansk Folkemindesamling (deild innan Konunglega bókasafnsins) ásamt frásögnum margra annarra sem upplifðu hamfarirnar. Fjölmargar bækur hafa verið skrifaðar um þessa atburði og margt af því sem þar kemur fram hreint ótrúlegt.
Sjávarborðið hækkaði um hátt á fjórða metra
Þótt auðvitað hefðu margir veitt því eftirtekt að eitthvað var að gerast og ,,sjórinn væri að blása upp” grunaði engan hvað í vændum var. Talið er að yfirborð sjávar hafi náð hátt á fjórða metra umfram það sem venjulegt var og rétt er að hafa í huga að á þessum tíma voru engir varnargarðar til að hefta för hans. Afleiðingarnar voru ólýsanlegar. Fólk og fénaður átti sér engrar undankomu auðið, flóðið hreif með sér allt sem á vegi þess varð og frásagnir þeirra sem af komust eru næsta ótrúlegar. Á Lálandi, sem ásamt Falstri varð verst úti, gekk sjórinn um það bil tíu kílómetra inn á land á 40 kílómetra kafla milli Nysted og Nakskov. Á þessum eyjum tveim, Lálandi og Falstri fórust tæplega eitt hundrað manns, tugir bóndabæja urðu flóðinu að bráð og búfénaður í hundraða eða þúsundatali drukknaði.
Allvíða á suðurströnd Danmerkur er að finna minjar um það sem gerðist, á allmörgum stöðum hafa verið reist minnismerki um þá sem týndu lífi og nokkrum stöðum er einnig hægt að sjá, á súlum sem reistar hafa verið, hversu hátt sjávaryfirborðið var þegar ósköpin dundu yfir.
Mörg hundruð sjómenn fórust
Þótt ekki séu til upplýsingar um fjölda þeirra sjómanna sem þarna misstu lífið er ljóst að þeir skiptu hundruðum. Ekki eru heldur til nákvæmar tölur um hversu mörg skip og bátar fórust í þessum hamförum 13. nóvember 1872 en talið er að talan fjögur hundruð sé nærri lagi. Það er mikill fjöldi en skýringin er sú að óvenju mörg skip og bátar voru um þessar mundir á Eystrasalti vegna mikilla timburflutninga frá sænskum höfnum við Helsingjabotn.
Tugir kílómetra varnargarða
Strax eftir að hamförunum linnti hófust umræður um leiðir til að koma í veg fyrir að þessi ósköp gætu endurtekið sig. Ákveðið var að ráðast í gerð varnargarða, samtals á annað hundrað kílómetra langa við strendur Lálands og Falsturs. Það verk hófst árið 1873 og lauk fimm árum síðar. Þessir varnargarðar hafa síðan margsinnis verið endurbættir og auk þess margt annað verið gert til þess að koma í veg fyrir að það sem gerðist 1872 geti endurtekið sig. Þótt flóðið í síðustu viku sé ekki sambærilegt við hamfarirnar þá fullyrða sérfræðingar að öll sú vinna sem lögð hefur verið í gerð varnarmannvirkja á undanförnum áratugum hafi ráðið miklu um að tjónið nú varð ekki meira en raun ber vitni. Hvort þau varnarmannvirki sem nú eru til staðar hefðu haldið í stórflóði sambærilegu og varð árið 1872 er spurning sem ekki er hægt að svara.