Hljómplatan The Doors eftir samnefnda hljómsveit kom út þann 4. janúar 1967 eða fyrir fimmtíu árum. Tveir eftirlifandi meðlimir The Doors, gítarleikarinn Robby Krieger og trommarinn John Densmore, héldu til Venice í Los Angeles þar sem ævintýrið byrjaði fyrir hálfri öld til að halda upp á daginn. Borgin lýsti yfir að héðan í frá væri 4. janúar „Dagur Dyranna“ eða „Day of the Doors“.
Án efa hefur heillandi söngvari hljómsveitarinnar Jim Morrison eitthvað haft með vinsældir hennar að gera í gegnum árin en þó hlýtur tónlistin að standa upp úr. Og þrátt fyrir frekar stuttan líftíma náði hljómsveitin að stimpla sig inn sem ein áhrifamesta rokkhljómsveit 20. aldarinnar og sér seint fyrir enda velgengni verka hennar. Við þessi tímamót er ráð að rifja upp sögu hljómsveitarinnar og goðsögn söngvarans.
„Dyr skynjunarinnar“
Örlögin höguðu því þannig að kunningjarnir Jim Morrison og hljómborðsleikarinn Ray Manzarek hittust í júlí 1965 en þeir höfðu báðir verið nemendur í Listaháskóla Kaliforníufylkis. Morrison sagði Manzarek frá tónlistarsýn sinni og áhuga og fyrr en varði var hann kominn í hljómsveit hins síðarnefnda sem nefndist Rick & the Ravens. Eftir nokkrar manna- og nafnabreytingar skipaði hljómsveitin þá tvo, ásamt trommuleikaranum John Densmore og gítarleikaranum Robby Krieger.
Nafnið The Doors er fengið frá titli ritsins „The Doors of Perception“ eða „Dyr skynjunarinnar“ eftir rithöfundinn og heimspekinginn Aldous Huxley. Hann lýsir í bók sinni reynslu sinni af ofskynjunarlyfinu meskalíni, eftirmálum hennar og hvaða þýðingu sú reynsla gæti haft fyrir listir og trúariðkun. Hann fékk sjálfur nafnið úr ljóði eftir William Blake „The Marriage of Heaven and Hell.“
Velheppnuð frumraun
Breiðskífan, The Doors, er fyrsta plata hljómsveitarinnar og má með sanni segja að hún hafi skotið þeim hratt upp á stjörnuhimininn. Lagið „Light My Fire“ er flestum kunnugt og er lang lífseigasta lagið á plötunni þrátt fyrir önnur ógleymanleg lög. Í júlí 1967 var lagið í þrjár vikur samfleytt efst á lista Billboard í Bandaríkjunum. Lagið er númer 35 á lista tímaritsins Rolling Stone yfir bestu lög allra tíma. Robby Krieger gítarleikari hljómsveitarinnar er aðalhöfundur lagsins og ku það vera fyrsta lagið sem hann samdi á ævinni þrátt fyrir að öllum meðlimum sé eignaður heiðurinn á plötunni sjálfri.
Annað frægt lag á plötunni er lagið „The End“. Jim Morrison samdi lagið um sambandsslit sín við æskuástina Mary Werbelow. Lagið þróaðist mikið í tónleikaspilun og varð tæplega tólf mínútna langt og hálfgerður gjörningur í leiðinni. Það hefur verið notað í ýmiss konar kvikmyndum og þáttum í gegnum tíðina.
Hljómsveitin var fræg fyrir að vera bassaleikaralaus en þó stalst upptökustjórinn að setja bassa inn á upptökur á þessa fyrstu plötu þeirra og réð hann Larry Knechtel bak við tjöldin. Hann var aldrei nefndur á plötuumslagi The Doors. Þetta kemur meðal annars fram í grein tímaritsins Rolling Stone um áhugaverðar staðreyndir um hljómsveitina sem fáir kynnu að vita.
„Higher“ ritskoðað
Hljómsveitin spilaði næstu árin á klúbbum og þróaði tónlist sína. Þeir gáfu út sína fyrstu plötu eins og fyrr segir 4. janúar 1967 og lagið „Light My Fire“ náði strax flugi og komst efst á vinsældarlista. Í framhaldinu spiluðu þeir í sjónvarpi og í frægum þætti Ed Sullivans sungu þeir textann „Girl, we couldn´t get much higher“ þrátt fyrir að hafa verið beðnir um að sleppa orðinu „higher“. Orðið þótti ekki viðeigandi fyrir sjónvarp og var þeim hótað eftir útsendingu að fá aldrei aftur að koma fram í þættinum. Þess má geta að þessi ritskoðun á orðinu „high“ átti eftir að taka á sig fleiri myndir þar sem orðið var klippt út í útgáfu lagsins „Break On Through“ á plötu með kvikmyndatónlist úr Forrest Gump árið 1994.
Næstu ár voru viðburðarík fyrir hljómsveitina. Hún gaf út sex breiðskífur með Jim Morrison á þessum fimm ára ferli, spilaði og tróð upp. Eitt atvik á tónleikum þeirra í mars 1969 í Miami í Flórída átti eftir að verða örlagaríkt en Morrison mætti á sviðið mjög drukkinn og allt of seint. Hófust þá einir einkennilegustu tónleikar hljómsveitarinnar þar sem fólk hagaði sér undarlega, bæði Morrison og gestir. Hann endaði á því að fara úr að ofan og áhorfendur með. Nokkrum dögum síðar var gefin út handtökuskipun á hendur Morrison þar sem hann var sakaður um að bera sig að neðan, hrópa klámfengin orð að áhorfendum og haga sér ósiðlega. Hann var á endanum dæmdur fyrir brot sín en á meðan áfrýun stóð dó Morrison svo aldrei þurfti hann að sitja inni. Hinir meðlimir bandsins neituðu alla tíð að Morrison hefði berað sig á sviði þetta kvöld.
Hljómsveitin hélt sína síðustu tónleika í desember 1970 og tók upp breiðskífuna L.A. Woman í byrjun árs 1971. Þreyta var komin í Morrison og þótti hinum meðlimum ekki ráð að hann færi frekar á svið eftir flutninginn árið áður. Eftir dauða Morrison sumarið eftir hélt hljómsveitin áfram að búa til tónlist og koma fram. Bandið hætti formlega tveimur árum seinna og tveimur plötum síðar en gaf þó út eina í viðbót árið 1978 eftir endurkomu.
Hér fyrir neðan má sjá frægan flutning The Doors í Ed Sullivan-þættinum.
Handtekinn á sviði
Söngvarinn Jim Morrison var frægur fyrir ögrandi sviðsframkomu og sérstakan stíl sem á endanum hafði ýmsar afleiðingar í för með sér. Hann var til að mynda fyrsti tónlistarmaðurinn til að verða handtekinn á sviði í Bandaríkjunum í desember 1967 í New Haven í Connecticut. Hann hafði lent í deilum við lögreglumann baksviðs fyrir tónleikana sem varð til þess að þeim seinkaði. Þegar hann kom loksins á sviðið þá sagði hann tónleikagestum frá uppákomunni og hæddi lögregluna. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöðina ásamt þremur blaðamönnum. Ákærur voru þó felldar niður þremur vikum síðar vegna skorts á sönnunargögnum.
Morrison fæddist í Melbourne í Flórídafylki í Bandaríkjunum árið 1943. Þegar hann var fjögurra ára gamall varð hann fyrir djúpri lífsreynslu þar sem tvennum sögum fer af atburðarásinni. Hann greindi frá því að fjölskyldan hafði orðið vitni að bílslysi í eyðimörk þar sem innfæddir Ameríkanar slösuðust illa og dóu. Faðir hans lýsti atvikinu þannig að þau hefðu keyrt fram hjá slysstað og að þetta hafi í raun ekki verið eins alvarlegt og Morrison lýsti seinna. En hvað sem því líður þá hafði atvikið áhrif á ungan huga drengsins og talaði hann oft um það og vísaði í í textum og viðtölum.
Las Nietzsche og Blake
Ungur las Morrison mikið og sankaði að sér þekkingu í heimspeki og las ljóð og bókmenntir. Hann las meðal annars Friedrich Nietzsche og William Blake. Hann fór í háskólann í Kaliforníu, UCLA, þar sem hann lagði stund á kvikmyndagerð. Hann útskrifaðist þaðan árið 1965 og er sagður hafa lifað bóhemlífi þar sem hann samdi texta og ljóð þangað til hann hitti Ray Manzarek um sumarið og hóf að semja lög og spila með The Doors. Hann missti samband við fjölskyldu sína á þessu tímabili en faðir hans leit svo á að hann hefði enga tónlistarhæfileika og ætti því að snúa sér að öðru. Faðir hans sagði þó síðar að hann skildi af hverju sonurinn hefði hætt að tala við fjölskylduna og að hann væri stoltur af honum.
Söngvarinn og listamaðurinn var ekki við eina fjölina felldur eins og gengur og gerist en ein kona stendur þó upp úr og er sögð hafa verið lífsförunautur hans. Hún hét Pamela Courson og voru þau saman með hléum allt til dauðadags Morrison en hún var með honum í París þegar hann dó úr hjartaáfalli í júlí 1971. Hann var aðeins 27 ára gamall og er því í hópi fjölda tónlistamanna og kvenna sem féllu frá á þessu aldursári. Courson dó þremur árum síðar.
Hann hafði verði í mikilli áfengis- og eiturlyfjaneyslu síðustu árin og ekki er vitað nákvæmlega hvað dró hann til dauða þrátt fyrir að á dánarvottorðinu sé skýringin sögð vera hjartaáfall. Hann var aldrei krufinn og því hafa ýmsar samsæriskenningar sprottið upp um dánarorsök og dauða hans yfirhöfuð. Hann hvílir nú í kirkjugarðinum Père Lachaise í París þar sem fjölmargir aðrir listamenn og frægir einstaklingar eru einnig grafnir og þykir garðurinn vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn.
Heldur áfram að heilla
Kvikmyndaleikstjórinn Oliver Stone gerði kvikmynd byggða á sögu hljómsveitarinnar sem nefnist einfaldlega The Doors. Val Kilmer fór með hlutverk Jim Morrison og Meg Ryan lék lífsförunaut hans Pamelu Courson. Kilmer er sagður hafa lagt allt sitt í hlutverkið en kvikmyndin fékk þó misjafna dóma.
En sama hvað fólki finnst um kvikmyndina eða í raun um tónlist The Doors þá má með sanni segja að tónlist þeirra hafi valdið straumhvörfum í bandarískri rokksögu og áhrif þeirra má sjá víða. Ímynd þeirra sem villtir rokkarar sem drukku og tóku sýru er samofin tónlist þeirra og ekki þarf að hlusta lengi á tónana til að skilja af hverju nafn þeirra og verk hafa lifað eins lengi og raun ber vitni.