Afríkukeppnin í fótbolta karlalandsliða stendur yfir þessa dagana í Gabon og munu Egyptar mæta Kamerúnum í úrslitaleik á sunnudaginn, 5. febrúar. Framboð Gabon til að fá að halda keppnina og undirbúningur hennar hafa sætt gagnrýni vegna meintrar spillingar, og vekur athygli að mótið skuli hafa verið haldið í landinu yfir höfuð þar sem valdatíð Ali Bongo, forseta Gabon, hefur einkennst af mannréttindabrotum og spillingu.
Upphaflega átti að halda keppnina í Líbíu en í ágúst 2014 ákvað knattspyrnusamband Afríku (CAF) að landið gæti ekki haldið keppnina vegna stríðsástands í landinu. Í kjölfarið hófst ný framboðsumferð og þar sem þrjú lönd komust til lokastigs framboðsslagsins; Alsír, Gabon og Ghana. Framboð Alsír var talið sérstaklega öflugt og tilraun til að sporna við neikvæðri umfjöllun um öryggisástandið í landinu, og Ghana, sem hélt keppnina árið 2008, reiddi sig á sterka innviði í framboði sínu. Gabon sem, ásamt Miðbaugs-Gíneu, hélt mótið árið 2012 taldi sig geta byggt á þeirri reynslu til að halda það aftur. Mikil spenna ríkti því þegar kosning um framboðin þrjú átti sér stað í höfuðstöðvum CAF í Kaíró í Egyptalandi apríl 2015.
Og sigurvegarinn er...
Til að sigra kosningarnar þurfti eitt framboðanna að hljóta meirihluta af atkvæðum frá hinum fjórtán meðlimum framkvæmdanefndar CAF. Þegar kom að því að telja atkvæðin og tilkynna sigurvegara sá Issa Hayatou, forseti CAF og um tíma forseti FIFA í kjölfar þess að Sepp Blatter, fyrrum forseti FIFA, var settur í bann vegna spillingar árið 2015, sér leik á borði til að brjóta venjur CAF. Í stað þess að tryggja gegnsæi með því að tilkynna hvernig atkvæðin skiptust taldi Hayatou sjálfur, ásamt tveimur meðlimum framkvæmdanefndarinnar, atkvæðin fyrir luktum dyrum. Þegar það var gert gekk Hayatou út úr fundarherberginu og tilkynnti viðstöddum og fjölmiðlum einfaldlega með miða þar sem á stóð "Gabon" hver sigurvegarinn væri, og þar með var málið afgreitt.
Hayatou nýtti sömuleiðis sama fund til að breyta reglum CAF sem sögðu að forseti samtakanna mætti ekki sitja lengur en fram að sjötíu ára aldri, en Hayatou, sem varð sjötugur í ágúst í fyrra vildi með þessu sitja áfram í forsetastöðu sem hann hefur gegnt frá árinu 1988. Hann sætir einnig ásökunum um spillingu varðandi veitingu sjónvarpsréttinda fyrir heimsmeistaramót í fótbolta á 10. áratugnum og er sakaður um að hafa tekið á móti 1,5 milljónum Bandaríkjadala í mútufé frá Katar gegn því að kjósa framboð þeirra til að halda heimsmeistaramótið árið 2022.
Skóflustungur og leikvangar
Mótmæli frá knattspyrnusamböndum Gana og Alsír féllu fyrir daufum eyrum og Gabon hófst handa með að undirbúa Afríkukeppnina. Undirbúningurinn hófst með látum þegar Lionel Messi var fenginn til að taka fyrstu skóflustungu að nýjum leikvangi í borginni Port-Gentil. Ali Bongo tók sjálfur við Messi og virtist fara vel á þeim félögum er þeir óku um á jeppa í höfuðborg landsins, Libreville, við mikinn fögnuð heimamanna en Messi er talinn hafa fengið 3,5 milljónir evra fyrir skóflustunguna. Mannréttindasamtökin Human Rights Foundation fordæmdu Messi harkalega fyrir atvikið og bentu á Messi væri orðinn hluti af almannatengslabatteríi Ali Bongo þrátt fyrir að fjársvik Bongo-fjölskyldunnar hafi gert það að verkum að tuttugu prósent íbúa Gabon neyðist til að lifa á undir tveim Bandaríkjadölum á dag.
Til að geta haldið keppnina stóðu stjórnvöld í Gabon frammi fyrir stóru verkefni að byggja tvo nýja leikvanga á átján mánuðum. Samningur um byggingu þeirra var undirritaður við ríkisrekin kínversk fyrirtæki sem þýddi að fjórir af fimm leikvöngum sem notaðir eru í keppninni voru byggðir af slíkum fyrirtækjum. Kína á sér ríka hefð í að byggja leikvanga víðs vegar um heiminn, og sérstaklega í Afríkuríkjum, og eru þeir yfirleitt veittir að gjöf eða fjármagnaðir með mjög hagstæðum lánum frá kínverska ríkinu. Stadium diplomacy svokallað er hálfgerður holdgervingur kínverskrar þróunaraðstoðar þar sem víðtækar innviðafjárfestingar á sér stað í þróunarlöndum um allan heim án þeirra víðtækra skilmála sem fylgja þróunaraðstoð frá Vesturlöndum. Með því að ekki líta á mannréttindaástand þróunarlanda sem ábyrgð sína og frekar hugsa um þróunarlönd sem fjárfestingarmöguleika hefur Kína náð að hasla sér völl sem mikilvægasta viðskiptaland fjölmargra þróunarlanda.
Herra Sonur
Faðir Ali Bongo, Omar Bongo, var forseti Gabon í 42 ár en Ali tók við þegar Omar lést árið 2009. Kosningarnar sem veittu Ali Bongo forsetaembættið, sem og kosningar sem haldnar voru í landinu í september í fyrra, voru vægast sagt umdeildar og er Ali Bongo talinn bera ábyrgð á þeim átökum, ofsóknum og pyntingum af andstæðingum sem hefur átt sér stað í kjölfar þeirra. Ali Bongo, sem hlotið hefur uppnefnið "Mr. Son", eða Herra Sonur, hafnar því að fyrirgreiðslupólitík föður síns hafi fleytt honum í embætti forseta en ljóst er að hann hefur haldið uppi stjórnarháttum hans - landið er rekið eins og skipulögð glæpastarfsemi þar sem kerfisbundið rán af arði náttúruauðlinda landsins gerir það að verkum að allt að 25% av vergri landsframleiðslu fer til persónulegra nota forsetans og valdaklíku hans. Til að bæta gráu ofan á svart hefur Ali Bongo sætt ásökunum um að viðhalda hjátrúarhefð þar sem börn eru myrt og líffæri þeirra notuð til mannlegrar neyslu.
Með því að veita Gabon rétt til að halda alþjóðleg íþróttamót og taka þátt í almannatengslaviðburðum tengt þeim er FIFA, hlutar alþjóðasamfélagsins, og frægir einstaklingar að viðurkenna hina harðskeyttu ríkisstjórn landsins þegar réttast væri að fordæma hana. Auðvelt er að gleyma fótboltanum í þessu öllu saman og setur ákvörðunin um að veita Gabon réttin til að halda keppnina skuggablett á eitt stærsta og skemmtilegasta stórmót í fótbolta í heiminum í dag.