Fyrir utan Key Arena í miðborg Seattle streymdi að fólk sem var með spjöld og belti. Mörg þeirra voru með mynd af John Cena, mestu stórstjörnu WWE fjölbragðaglímuheimsins nú um stundir.
Stundum hefur þessi bandaríska afþreyingaríþrótt verið sögð vera leikhús fáranleikans. Og þannig er það, á vissan hátt. Þetta er ekki íþrótt í hefðbundnum skilningi heldur einungis afþreying en þó sett upp eins og um alvöru keppni sé að ræða. Blómaskeið þessa afþreyingariðnaðar var á níunda áratug síðustu aldar. Eftir nokkuð mikinn öldudal er nú komið nýtt blómaskeið.
Olíubornir menn
Við feðgar, ég og tíu ára sonur minn, fengum okkur sæti á góðum stað. Wrestlemania stóð stórum stöfum í loftinu og fyrir neðan var hringurinn sjálfur. Þar koma saman olíubornir karlar og berjast með miklum látbrögðum, gjarnan eftir rifrildi um það hvor er nú sterkari og meiri maður.
Ég viðurkenni að fordómarnir voru ekki bara miklir heldur var ég ákveðinn í því fyrirfram að þessir ágætu herrar sem þarna voru komnir að „berjast“ myndu þurfa að vinna sig upp í áliti hjá mér alveg frá botni.
Hvernig stendur á þessu?
Sonur minn ásamt bekkjarbræðrum hans hefur hins vegar verið heltekinn af þessum glímuköppum og þekkir baksögu þeirra allra, hetjunöfnin, tökin sem þeir beita og nöfnin á lögunum sem þeir nota til að hita áhorfendur upp þeir þeir ganga í salinn. Ég hef verið að hugsa síðan í haust; hvernig stendur því að þetta er orðið svona vinsælt aftur?
Svarið við því er þaulskipulögð markaðsherferð og endurfæðing á vörumerkinu, WWE (World Wresting Entertainment). Síðastliðinn föstudag hækkaði verðmiðinn á félaginu um 4,8 prósent, en fyrirtækið er skráð á Bandaríkjamarkað. Verðmiðinn er nú tæplega 1,7 milljarður Bandaríkjadala, eða rétt um 200 milljarðar króna. Félagið er því um það bil með sama verðmiða og Marel og Össur, til samanburðar við tvö stærstu félagin á íslenska markaðnum. Marel er nú 219 milljarða virði en Össur 175 milljarða.
Það sem skýrði mikla hækkun á bréf WWE á föstudaginn voru góðar sölutölur og ört vaxandi sölutekjur af varninigi. Árið 2015 voru heildartekjur WWE 659 milljónir Bandaríkjadala en þær voru 729 milljónir Bandaríkjadala í fyrra. EBIDTA framlegð var tæplega 20 prósent og bendir allt til þess, samkvæmt uppgjörinu, að vöxturinn verði mikill á þessu ári.
Áskriftarsala að WWE Network, sem er svipuð efnisveitu-þjónusta og Netflix nema hvað efnið er eingöngu unnið upp úr WWE viðburðum og viðtölum, hefur rokið upp og telja forsvarsmenn WWE Network að áskrifendafjöldi geti tvöfaldast á þessu ári.
Forstjóri fyrirtækisins og stærsti eigandi er Vince McMahon en um 70 prósent af hlutabréfum í fyrirtækinu eru í eigu hans og fjölskyldunnar. Sögu WWE fyrirtækisins má rekja aftur til ársins 1952, þegar sölu- og markaðsstarf í kringum WWE-bardaga var stóreflt, og má segja að það hafi síðan verið stór hluti af bandarískum afþreyingariðnaði. Árið 2014 var afdrifaríkt fyrir WWE því þá kom vogunarsjóðurinn Eminence Capital inn í hlutahafahópinn og hafa hjólin tekið að snúast hraðar eftir það. Fyrirtækið ætlar sér að stórefla sölu á varningi og gefa út meira af sjónvarpsefni fyrir efnisveituna svo hún geti vaxið og dafnað.
WWE hraðlestin ferðast stöðugt um Bandaríkin og heldur viðburði eins og þann sem við feðgar fórum á í stórum tónleika- og íþróttahúsum. Viðburðirnir eru vinsælir og selst oftast upp á þá með miklum fyrirvara. Um 500 viðburðir eru haldir á ári á vegum WWE og eru helstu vígin í Florida og Connecticut.
Stórstjörnur
Helstu stjörnunar í þessu leikhúsi fáranleikans eru John Cena og The Rock, eða Dwayne Johnson. Hann hefur þegar gert það gott í Hollywood en ferillinn hjá Cena er á hraðri uppleið og mun ekki líða á löngu þar til hann verður með allra vinsælustu leikurum í Hollywood þegar kemur að gaman- og unglingamyndum.
Cena hefur komið víða við á ferli sínum en hann verður fertugur síðar á árinu. Innkomulag hans á viðburðum heitir Time Is Now og naut töluverðra vinsælda í fyrra. Í því rappar hann sjálfur ásamt Eminem og gefur frá sér þau skilaboð, að tími hans sé kominn.
Við feðgar komumst af því að hver WWE sýning tekur tæplega fjóra klukkutíma og hinir olíubornu glímukappar eru furðanlega fljótir að jafna sig af miklum byltum, hoppum og stökkum í hringnum. En til þess er leikurinn gerður.