Sex konur eru æðstu stjórnendur í 50 stærstu fyrirtækjum landsins. Þetta leiðir könnun Kjarnans í ljós, en stuðst var við upplýsingar frá Keldunni um stærstu fyrirtæki landsins og stjórnendur þeirra. Samkvæmt því eru því konur tólf prósent æðstu stjórnenda hjá stærstu fyrirtækjum landsins.
Meðal tíu stærstu fyrirtækja landsins eru tvær konur í æðstu stöðum, ef Lilja Björk Einarsdóttir, verðandi bankastjóri Landsbankans, er talin með. Hin konan þar er Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Rannveig Rist, framkvæmdastjóri Rio Tinto Alcan, og Brynja Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Norvíkur, eru einu tvær konurnar í forsvari hjá fyrirtækjunum í 11. til 20. sæti.
Engin kona er í forsvari fyrir fyrirtækin sem eru í 21. til 30. sæti yfir stærstu fyrirtæki landsins. Í 31. til 40. stærstu fyrirtækjunum er ein kona í forsvari, en það er Erna Gísladóttir, framkvæmdastjóri BL. Hrund Rudolfsdóttir er framkvæmdastjóri Veritas Capital og hún er eina konan í forsvari fyrir fyrirtækin sem raðast í 41. til 50. sæti yfir stærstu fyrirtæki landsins.
Sum þeirra fyrirtækja sem teljast til fimmtíu stærstu fyrirtækja landsins voru einnig tekin fyrir í nýlegri úttekt Kjarnans á hlutfalli kvenna í æðstu stöðum í fjármálakerfinu á Íslandi. Kjarninn hefur síðastliðin fjögur ár gert úttekt á stöðu kvenna á meðal æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og –miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða. Úttektin nær til æðsta stjórnanda hvers fyrirtækis eða sjóðs. Niðurstaðan í ár, samkvæmt úttekt sem framkvæmd var í febrúar 2017, er sú að æðstu stjórnendur í ofangreindum fyrirtækjum séu 88 talsins. Af þeim eru 80 karlar en átta konur. Það þýðir að 91 prósent þeirra sem stýra peningum á Íslandi eru karlar en níu prósent konur.
Einn af hverjum fjórum stjórnarmönnum konur
Hlutfall kvenna í stjórnum var 25,9 prósent í lok árs 2015, þegar öll fyrirtæki sem greiða laun og voru skráð í hlutafélagaskrá voru skoðuð samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Hlutfallið hafið verið á bilinu 21,3 til 22,3 prósent á árunum 1999 til 2006 og því hefur það farið hækkandi frá árinu 2007. En samt sem áður er einungis um einn af hverjum fjórum stjórnarmönnum í íslenskum fyrirtækjum konur.
Markaðurinn, fylgiblað Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, fékk Creditinfo nýverið til að taka saman upplýsingar um hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum stórra fyrirtækja, sem áttu eignir yfir einn milljarð króna. Í niðurstöðunum kom fram að hlutfall þeirra hafi lækkað á milli áranna 2014 og 2016. Um þrettán prósent stjórnarformanna fyrirtækjanna voru konur. Til stórra fyrirtækja teljast alls 857 félög.
Á fyrra árinu voru konur tíu prósent framkvæmdastjóra stórra fyrirtækja en tveimur árum síðar einungis níu. Hjá meðalstórum fyrirtækjum, sem áttu eignir frá 200 milljónum króna og upp í milljarð króna, var hlutfall kvenna sem stýrðu tólf prósent. Alls voru átján prósent stjórnarformanna millistórra fyrirtækja konur. Til þeirra töldust alls 1.866 félög.
Kjarninn greindi einnig nýlega frá því að konur eru nú 39 prósent forstöðumanna hjá stofnunum ríkisins, en hlutfallið hefur hækkað úr 37 prósentum í fyrra og 29 prósentum árið 2009.