Norwegian var stofnað í janúar 1993. Ári fyrr hafði flugfélagið Busy Bee, sem var í samvinnu við Braathens flugfélagið, orðið gjaldþrota. Meðal stofnenda Norwegian var Bjørn Kjos, núverandi forstjóri félagsins. Bjørn Kjos, sem er fæddur 1946, hafði verið flugmaður í norska hernum en síðar sótt um flugmannsstarf, hjá SAS en fékk ekki. Hann fór þá í lögfræðinám og að því loknu (1983) vann hann sem lögmaður til ársins 1993, stofnárs Norwegian.
Norwegian sinnti í upphafi, í samvinnu við Braathens, flugi á nokkrum innanlandsleiðum sem Busy Bee hafði áður sinnt, einkum við vesturströnd Noregs. Flugvélarnar voru Fokker F-50, samskonar vélar og Flugfélag Íslands notaði um áratuga skeið. Rekstur Norwegian stóð í járnum mörg fyrstu árin en forsvarsmenn félagsins létu ekki deigan síga. Árið 2002 tók Norwegian í notkun Boeing 737-300 þotur,með sætum fyrir 150 farþega. Litlar á mælikvarða dagsins í dag en til samanburðar tóku Fokker vélarnar 62 farþega. 2004 gerði Norwegian samstarfssamning við Sterling félagið og Fly Nordic, það síðarnefnda sameinaðist Norwegian nokkrum árum síðar. Með þessum samstarfssamningi var Norwegian komið í beina samkeppni við SAS flugfélagið, Fly Nordic hafði flugleyfi á leiðinni Ósló – Stokkhólmur og Sterling hafði flugleyfi til 13 áfangastaða í Evrópu . Árið 2005 var félagið í fyrsta sinn réttu megin við núllið í rekstrinum „gott ár, og þau verða fleiri,“ sagði forstjórinn. Ári síðar byrjaði Norwegian að fljúga frá Varsjá í Póllandi til fimm borga í Evrópu.
Tímamótaárið 2008
Þótt skjótt skipist veður í lofti í flugrekstrinum er aðra sögu að segja þegar kemur að flugvélakaupum. Þar þarf að hafa tímann fyrir sér og tryggja sér „pláss“ í kaupendaröðinni með löngum fyrirvara. Það höfðu forsvarsmenn Norwegian gert og árið 2008 fékk félagið afhentar fyrstu Boeing 737- 800 þoturnar. Þær tóku mun fleiri farþega en eldri þoturnar og notuðu langtum minna eldsneyti. Sama ár opnaði félagið starfsstöð í Kaupmannahöfn. 2008 var líka árið sem Sterling flugfélagið komst í þrot. Sterling var stofnað árið 1962 af séra Eilif Kroager (Tjæreborg) en endaði í höndum íslenskra „útrásarvíkinga“ með afleiðingum sem ekki þarf að tíunda, ártalið segir allt.
Uppgangstímar
Segja má að hrunárið 2008 hafi fyrir alvöru markað uppgang Norwegian. Eins og áður sagði hafði félagið opnað starfsstöð í Kaupmannahöfn og ári síðar fjölgaði áætlunarleiðum félagsins um hvorki meira né minna en 39. Farþegunum fjölgaði líka og árið 2009 voru þeir 10.8 milljónir, 18 prósentum fleiri en árið á undan. Félagið fékk líka ,,Market Leadership Award” sem stundum er nefnt ,, Óskarsverðlaunin í fluginu”. Félagið var semsagt með byr undir vængjum og reksturinn gekk betur en nokkru sinni fyrr. Og starfsemin óx hröðum skrefum, árið 2012 undirsskrifaði stjórn Norwegian stærsta samning um flugvélakaup, sem nokkru sinni hafði verið gerður í Evrópu. Sá samningur hljóðaði uppá kaup á 122 Boeing farþegaþotum og 100 Airbus þotum. Árið eftir, 2013 byrjaði félagið áætlunarflug til Bangkok í Tælandi og fimm áfangastaða í Bandaríkjunum. Norwegian var þetta sama ár valið besta evrópska lággjaldafélagið, þann titil hefur félagið nú unnið fjögur ár í röð.
Orðið stærra en SAS
Í áratugi hefur Scandinavian Airlines, SAS, verið „stóra norræna flugfélagið“. SAS hefur hinsvegar ekki farið varhluta af þeim sviptingum sem orðið hafa í flugrekstrinum um allan heim á síðustu árum og reyndar hefur rekstur þess hvað eftir annað staðið mjög tæpt. Félögin tvö, SAS og Norwegian, róa að mörgu leyti á sömu mið í baráttunni um farþegana og þótt SAS hafi lengst af haft yfirhöndina varðandi fjölda farþega er það ekki lengur svo. Á síðustu tólf mánuðum hefur Norwegian flutt 29,66 milljónir farþega en SAS 29,54 milljónir. Munurinn er ekki mikill en segir þó ákveðna sögu. Í janúar á þessu ári fjölgaði farþegum SAS um 10 prósent, sem telst út af fyrir sig ágætt, en farþegum Norwegian fjölgaði hins vegar um 20 prósent. Norwegian ætlar að bæta við tvö þúsund starfsmönnum á þessu ári, til viðbótar þeim fimm þúsund og fimm hundruð sem fyrir eru. Þrjátíu og tvær nýjar flugvélar bætast í flotann og áætlunarleiðum félagsins verður jafnframt fjölgað. Í flugflota Norwegian eru nú 116 vélar og flogið er til 138 áfangastaða. Það er semsagt „hugur í mönnum“ og markmiðin háleit.
Allt í þessu fína, en...
Það hefur gengið vel hjá Norwegian og útlitið er bjart. Eða ekki verður betur séð. Rífandi gangur eins og sagt er. En segir það allt? „Nei, ekki allt og langt frá því“ segir Jacob Pedersen, danskur sérfræðingur sem þekkir vel til reksturs flugfélaga. Hann segir að þegar rýnt sé í rekstur Norwegian birtist tölur sem rétt sé að staldra við. Eigið fé Norwegian sé 4.4 milljarðar norskra króna (57.5 milljarðar íslenskir). „En,“ segir sérfræðingurinn „skuldirnar eru svimandi háar, 21 milljarður norskra króna (274 milljarðar íslenskir)“. Miklir peningar. „Þola axlaböndin þetta?“ spyr Jacob Pedersen og bætir við ,,að það komi í ljós á næstu árum”. Hann segir að Norwegian hafi fram til þessa verið heppið, það hafi til dæmis gert fasta langtímasamninga um kaup á eldsneyti sem hafi skipt miklu varðandi afkomuna. Ársreikningar segi ekki alla söguna, tekjuaukning félagsins sé, þegar grannt er skoðað, ekki jafn mikil og niðurstaða reikninganna gefi til kynna. Eldsneytisverðið skipti afar miklu í rekstri flugfélaga og þar hafi Norwegian verið heppið. Hvort svo verði áfram sé ókomið í ljós. Hitt sé deginum ljósara segir danski sérfræðingurinn, tilkoma Norwegian hafi hleypt nýju blóði í samkeppnina og samkeppnin orðið til að lækka verð á farmiðum. „Almenningur spyr ekki um annað en verðið,“ sagði Jacob Pedersen.