Mynd: Birgir Þór Mótmæli á Austurvell

Tvær þjóðir í einu landi – Misskipting auðs og gæða á Íslandi

Kjarninn var í gær tilnefndur til rannsóknarblaðamannaverðlauna BÍ fyrir umfjöllun sína um skiptingu auðs og misskiptingu gæða á Íslandi. Hér að neðan fer samantekt á helstu atriðum þeirrar umfjöllunar sem varpar ljósi á að tvær þjóðir búa á Íslandi.

Launamunur á Íslandi er afar lítill í alþjóðlegum samanburði. Í pólitískri orðræðu er því haldið fram að hér á landi ríki meiri jöfnuður en í flestum þeim samfélögum sem við miðum okkur við. Helsta ástæðan fyrir litlum launamun hérlendis er þó fyrst og síðast sú að laun eru almennt lág á Íslandi og menntun er t.d. ekki metin að neinu ráði til launa. 

En launamunur og hlutfallsleg aukning launa hvers hóps fyrir er ekki eini mælikvarðinn sem hægt er að styðjast við til að ákvarða hvort kökunni sé nægilega skipt á milli þegna landsins. Ýmsir aðrir mælikvarðar, sem snúa sérstaklega að eignum hvers og eins, eru þar líka afar mikilvægir. Á Íslandi er lít­ill hluti þjóð­ar­innar sem á mikið af þeim og hefur miklar tekjur af. Svo er stór hluti sem vinnur hjá litla hlut­an­um.

Kjarninn hefur lagst í mikla rannsóknarvinnu og greiningar til að sýna lesendum sínum fram á þessa skiptingu og þróun hennar. Í fréttaskýringu sem birtist 4. október 2016 kom fram að  eigið fé Íslend­inga hefði tvö­fald­ast á sex árum, eða auk­ist um 1.384 millj­arða króna.

Þessi nýi auður skipt­ist ekki jafnt á milli hópa. Af hreinni eign sem orðið hefur til frá árinu 2010 hafði rík­asta tíu pró­sent lands­manna, alls 20.251 fjölskyldur, tekið til sín fjórar af hverjum tíu nýjum krónum sem orðið höfðu til í íslensku sam­fé­lagi. Þessi hópur átti 1.880 millj­arða króna í lok árs 2015, eða 64 pró­sent af eignum lands­manna. 

Á sama tíma skuld­aði fátæk­ari helm­ingur þjóð­ar­inn­ar, rúm­lega 100 þús­und vinn­andi manns, 211 millj­arða króna umfram eignir sín­ar. Það þýðir að mun­ur­inn á eig­in­fjár­stöðu fátæk­asta helm­ings þjóð­ar­innar og rík­ustu tíu pró­senta hennar var 2.091 millj­arðar króna.

Eignir hinna ríku vanmetnar

Þegar þessi staða er falin í hlut­falls­tölum kemur hún ekki jafn skýrt fram. Þess utan er vert að benda á að opinberar tölur van­meta hversu mikið hinir ríku á Íslandi efn­ast ár frá ári. Ástæðan er sú að þær mæla að fullu leyti t.d. hækkun fast­eigna­verðs (sem útskýrir 82 pró­sent af allri eig­in­fjár­aukn­ingu Íslend­inga á síð­ustu sex árum og nán­ast alla eigna­aukn­ingu fátæk­ari hluta lands­manna) en færir eignir í verð­bréfum inn á nafn­virði. Og ríkustu Íslendingarnir eiga næstum öll verðbréf á Íslandi.

Alls nam verð­bréfa­eign þjóð­ar­innar 422,3 millj­örðum króna í lok árs 2015 og hafði þá auk­ist um 38,3 millj­arða króna á einu ári. Rík­asta tíu pró­sent Íslend­inga átti 361,5 millj­arða króna í verð­bréfum í lok árs 2015 og því lá fyrir að 86 pró­sent allra verð­bréfa var í eigu þess hóps. Af þeirri 38,3 millj­arða króna virð­is­aukn­ingu verð­bréfa sem varð á árinu 2015 fóru 35,5 millj­arðar króna, eða 93 pró­sent, til rík­ustu 20 þús­und Íslend­ing­anna á vinnu­mark­aði.

7. október birti Kjarn­inn svo frétta­skýr­ingu sem byggði á nýjum tölum Rík­is­skatt­stjóra um stað­tölur skatta. Í þeim tölum var hægt að sjá út hversu mikið Íslend­inga þén­uðu í fjár­magnstekjur á árinu 2015. Það eru tekjur sem þeir höfðu af eignum sín­um: t.d. vöxtum af inn­láns­reikn­ingum eða skulda­bréfa­­eign, tekjur af útleigu hús­næð­is, arð­greiðsl­­ur, hækkun á virði hluta­bréfa eða hagn­aður af sölu fast­­eigna eða verð­bréfa.

Í töl­unum kom í ljós að tekju­hæsta eitt pró­sent lands­manna þén­aði sam­tals 42 millj­arða króna í fjár­magnstekjur á árinu 2015. Um er að ræða undir tvö þús­und fram­telj­end­ur. Þessi hópur tók til sín 44 pró­sent af öllum fjár­magnstekjum sem urðu til hér­lendis á árinu 2015. Það þýðir að 99 pró­sent þjóð­ar­innar skipti með sér 56 pró­sent fjár­magnstekna.

Það vantar inn erlendu eignirnar sem skotið var undan

Þá vantar inn allar erlendu eign­irnar sem þessi hópur á, og er ekki talin fram hér­lend­is. Sam­kvæmt tölum Seðla­bank­ans eiga Íslend­inga rúm­lega eitt þús­und millj­arða króna erlend­is. Þar af eru t.d. 32 millj­arðar króna á Tortóla-eyju, sem er þekkt lág­skatta­svæði. Í Pana­ma-skjöl­unum var upp­lýst að tæp­lega 600 Íslend­ingar ættu um 800 félög sem Mossack Fon­seca, lög­fræði­stofa sem sér­hæfir sig í „skatta­hag­ræði“ og í að fela eign­ir, sá um fyrir þá. 

Kjarninn, í samstarfi við Reykjavík Media og fleiri fjölmiðla, fjallaði ítarlega um þær upplýsingar sem birtust í skjölunum á síðasta ári. 

Lykilfréttaskýringar sem Kjarninn vann að voru meðal annars um umsvif Bakkavararbræðra – viðskiptamanna sem flutt hafa milljarða króna frá aflandssvæðum til Íslands eftir hrun – á Bresku Jómfrúareyjunum og skýringar um umsvif hjónanna Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Panama. Í báðum tilfellum var rakið ítarlega, eftir langvinna rannsóknarvinnu, hvernig þetta íslenska viðskiptafólk kom sér upp stórum sjóðum í gegnum aflandsfélagastrúktúr settum upp af íslenskum fyrirtækjum í Lúxemborg og hvernig það notaði það fé til að fjármagna umfangsmikil umsvif sín á Íslandi eftir bankahrunið. Þessir einstaklingar voru áður í forsvari fyrir þær tvær viðskiptablokkir sem kostuðu íslenska lífeyrissjóði, og þar með eigendur þeirra, mest fé í hruninu.

Kjarninn tók þátt í ítarlegri umfjöllun íslenskra fjölmiðla um Panamaskjölin. Jóhannes Kr. Kristjánsson er tilnefndur til Blaðamannaverðlauna fyrir ítarlegar rannsóknir á þeim skjölum og birtingu á þeim í samstarfi við aðra miðla.

Samhliða opinberaði Kjarninn hvernig félag Ingibjargar frá Panama, sem Jón Ásgeir stýrði, fékk að greiða 2,4 milljarða króna skuld sem tengdist íslenskum félögum, meðal annars með skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði. Heimild sem Seðlabankinn veitti fyrir þessum gerningi er einstök og bankinn hefur ekki fengist til að svara frekari spurningum um hann, þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir. 

Þann 25. apríl birti Kjarninn svo fréttaskýringu þar sem í fyrsta sinn var opinberað að fjölskylda Dorritar Moussaieff, eiginkonu þáverandi forseta Íslands, ætti félag sem skráð væri á Bresku Jómfrúareyjunum og að það félag kæmi fyrir í gögnum frá Mossack Fonseca. Nokkrum dögum áður hafði Ólafur Ragnar Grímsson neitað því með öllu í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN að hann eða fjölskylda hans væri tengd aflandsfélögum. Ólafur Ragnar hafði þá ákveðið að bjóða sig fram á ný til forseta Íslands, en hætti við í byrjun maí.

Allt þetta þjónaði þeim tilgangi að sýna lesendum Kjarnans fram á þann aðstöðumun og þá misskiptingu gæða og auðs sem er inngróinn í íslenskt samfélag.

Ljóst er að aflands­fé­laga­eign Íslend­inga er mun víð­tæk­ari vegna þess að Mossack Fon­seca var ekki eina stofan sem þjón­u­staði Íslend­inga. Vísbendingar um umfang þeirrar eignar komu fram í skýrslu um aflandseignir Íslendinga og skattaundanskot vegna þeirra, sem var birt snemma í janúar eftir ítrekaðar fyrirspurnir Kjarnans um birtingu á skýrslunni. Hún hafði þá verið tilbúin í rúma þrjá mánuði, eða frá því fyrir kosningarnar 29. október 2016. 

Í skýrslunni kom fram að aflandsfélagavæðingin hafi haft tugi milljarða króna af íslenskum almenningi í vandgoldnum skattgreiðslum og búið til gríðarlegan aðstöðumun þeirra sem hafa, bæði löglega og ólöglega, getað falið fé í erlendum skattaskjólum þegar illa árar í íslensku efnahagslífi en stýrt fé aftur heim til að kaupa eignir á brunaútsölu í niðursveiflum. Þessi aðstöðumunur hefur haft margvísleg áhrif á íslenskt samfélag. Vald og eignir hafa safnast saman á hendur þeirra sem hafa getað komið aftur til baka með oft á tíðum illa fengið fé. 

Tvær þjóðir í einu landi

Í fréttaskýringum Kjarnans um misskiptingu auðs og gæða var sýnt fram á það svart á hvítu að það er stað­reynd að lít­ill hópur eigna­fólks hagn­ast á sam­fé­lags­gerð okkar langt umfram það sem þorri þjóð­ar­innar ger­ir. Og þar var sýnt fram á að hún væri að aukast. 

Árið 1997 átti rík­asta tíund lands­manna 56,3 pró­sent af öllu eigin fé í land­inu. Tíu árum síðar hafði eigið fé Íslend­inga fjór­faldast, enda banka- og eigna­bóla þá þanin til hins ítrasta, og rík­ustu tæp­lega 20 þús­und Íslend­ing­arnir áttu 2,5 sinnum meira eigið fé en öll þjóðin hafði átt sam­an­lagt tíu árum áður. Þá nam hlut­deild þess­arar rík­ustu tíundar í heildar eigin fé Íslend­inga 62,8 pró­sent­um.

Eftir bankahrunið tapaði stór hluti landsmanna miklu af eignum sínum. Það átti sérstaklega við um þá sem áttu ekki mikið annað en t.d. eigið fé í húsnæði. Þótt ríkir Íslendingar hafi einnig tapað miklu áttu þeir enn mikið eigið fé í lok árs 2009. Alls lá 77,3 prósent alls eigin fjár hjá ríkustu tíund landsmanna á þeim tíma. Ríkasti fimmtungur landsmanna átti á þeim tíma 103 prósent af öllu eigin fé landsmanna. Það þýðir að restin, 80 prósent landsmanna, var samanlagt með neikvætt eigið fé.

Síðan hefur hlutfallsleg eign þeirra á eigin fé landsmanna dregist saman, sérstaklega samhliða mikilli aukningu á eign allra hópa í fasteignum sínum. Alls hefur eigið fé í fasteignum Íslendinga aukist úr 1.146 milljörðum króna í 2.285 milljarða króna frá lokum árs 2010 og fram að síðustu áramótum. Af þeirri hreinu eign sem orðið hefur til frá 2010 hafa 527,4 milljarðar króna runnið til þeirra tíu prósent Íslendinga, alls 20.251 fjölskyldna, sem eiga mest. 

Ofan á þetta hefur Kjarninn greint Leiðréttinguna, 72,2 milljarða króna millifærslu af fé úr ríkissjóði til hluta þjóðarinnar, mest allra miðla. Í þeim greiningum hefur meðal annars komið fram að tekjuhæstu tíu prósent landsmanna hafi fengið um 30 prósent þeirrar upphæðar í sinn hlut og að eignameiri helmingur þjóðarinnar hafi fengið 52 milljarða króna út úr Leiðréttingunni. Það var 72 prósent heildarupphæðarinnar. Á meðal þeirra sem fengu háar fjárhæðir var stóreignafólk. 

Gríðarlega mikilvægir almannahagsmunir

Framsetning ofangreindra staðreynda, samhengi þeirra og greining á þeim er mikilvægur grundvöllur fyrir vitræna umræðu um kjarna pólitískra átaka, skiptingu þeirra gæða sem verða til í íslensku samfélagi.

Umfjöllun Kjarnans, rannsóknarblaðamennska hans, eftirfylgni og aðhald hefur sýnt íslenskum almenningi umfangið, samhengið, áhrifin og afleiðingarnar. Hún átti þátt í að stuðla að mestu pólitísku sviptingum sem átt hafa sér stað í Íslandssögunni. Hún hafði bein áhrif á forsetakosningar og hún leiddi til þess að huliðshjálmi var lyft. Nú er misskipting auðs og gæða, aflandsfélög og skattaundanskot, og umræða um misjafnt aðgengi að tækifærum, upplýsingum og fjármagni annarra á meðal þeirra mála sem eru efst á baugi hjá eftirlitsstofnunum og á hinu pólitíska sviði. Það er meðal annars afleiðing af margra ára umfjöllun starfsmanna Kjarnans um þessa samfélagslegu meinsemd og kröfur blaðamanna hans um upplýsingar frá stjórnsýslunni um umfang vandans og aðgerðir til að berjast gegn honum. 

Um er að ræða gríðarlega mikilvæga almannahagsmuni.

Skýringin hefur verið uppfærð með þeim hætti að tíundirnar endurspegli ekki einstaklinga heldur fjölskyldur (einstaklinga og samskattaða).

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar