Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu munu á næstu dögum auglýsa fyrirhugaða staðsetningu Borgarlínu og auknar byggingarheimilidir innan áhrifasvæða hennar.
Verklýsing fyrir Borgarlínu hefur verið lögð fram sameiginlega í stjórnum sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu sem fyrirhugað er að nýja samgöngukerfið muni liggja í gegnum.
Verkefnalýsingar verða í kynningu til 25. apríl og er óskað eftir athugasemdum og ábendingum við frumáætlanirnar sem verða svo til áframhaldandi skoðunar.
Til einföldunar má segja að um sé að ræða skilgreiningu á helstu samgönguleiðum höfuðborgarsvæðisins. Á íslensku hafa þessar samgönguleiðir verið kallaðar samgönguás en á ensku hefur hugtakið „corridor“ (ísl. gangur) verið notað. Það mætti því líkja borgarlínunni sem göngum í byggingu sem tengja hin ýmsu rými hússins saman.
Hvar mun uppbyggingin fara fram?
Hrafnkell Proppé, svæðisskipulagsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, var gestur fyrsta þáttar Aðfararinnar í hlaðvarpi Kjarnans á laugardaginn. Hann útskýrði svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins fyrir umsjónarmönnum þáttarins, þeim Magneu Guðmundsdóttur og Guðmundi Kristján Jónssyni, auk þess að ræða þær áskoranir sem blasa við þegar kemur að uppbyggingu öflugs almenningsamgöngukerfis.
„Fyrsta árið eftir að svæðisskipulagið var samþykkt, fram til ársins 2016 gerðist ekkert voðalega mikið,“ sagði Hrafnkell þegar hann var spurður hvernig það hafi gengið að koma verkefnum Borgarlínunnar af stað. Hann viðurkennir að stundum komi dagar þar sem honum finnist umræðan jafnvel fara gegn samþykktu skipulagi til ársins 2040 en svo komi dagar þar sem stór skref eru stigin í þá átt sem mörkuð hefur verið.
„Fyrir svona tæpu ári síðan var svo settur svolítill kraftur í að klára Borgarlínuna. Við erum núna að fara að birta auglýsingu eftir nokkra daga þar sem við erum að fara með verklýsingu í kynningu. Þar erum við að festa Borgarlínuna inn í hverju einasta svæðisskipulagi; hvar hún muni liggja og hvar eigi að vera stöðvar.“
Hrafnkell segir að með fram því að áætla hvar Borgarlínan muni liggja þá þurfi einnig að skilgreina hvar þunginn í uppbyggingu borgarlandsins muni fara fram. „Það eru þessar auknu uppbyggingarheimildir sem þurfa að fylgja Borgarlínunni. Og síðan eru þá sex af þessum sjö sveitarfélögum að breyta sínum svæðisskipulögum, það er í fyrsta sinn sem við keyrum þetta svona samhliða.“
Lest eða strætisvagnar?
Hrafnkell segir að það sé ótímabært að segja til um hvaða samgöngutækni muni drífa Borgarlínuna á endanum. Það gæti vel verið að sjálfakandi strætislestir á gúmmíhjólum verði sú lausn sem verið fyrir valinu. Einnig skiptir máli hvaða áhrif tæknin mun hafa á umhverfi sitt; það er öðruvísi hljóðmengun sem hlýst af vögnum á gúmmíhjólum og sporvögnum.
„Það mun fara fram ákveðið val. Í því höfum við samt reynt að hafa fókus á því að við þurfum að taka frá rými fyrir massaflutninga og við getum ekki nákvæmlega sagt um það í dag hvaða tæknilausnir verða mögulegar í framtíðinni.“
Hrafnkell segir það mjög mikilvægt að sveitarstjórnirnar séu staðfastar í að taka frá rýmið fyrir massaflutninga. Þá fylgir uppbygging í kringum þetta samgöngurými sem mun svo stuðla að því að hægt verði að reka kerfi með löngum þjónustutíma og hárri tíðni ferða.
Að mörgu að huga
Við val á þeim leiðum sem kortlagðar hafa verið þarf að hafa margt í huga, eins og gefur að skilja. Danska verkfræðistofan COWI hefur teiknað upp nokkar hugsanlegar sviðsmyndir fyrstu áfanga Borgarlínunnar. Þær leiðir hafa svo verið lagðar ofan á þemakort af höfuðborgarsvæðinu sem sýna ráðandi breytur á borð við:
- Dreifingu íbúa og raunþéttleiki byggðar.
- Samanlagðan íbúafjölda eftir takmörkuðum svæðum.
- Fjölda fermetra á höfuðborgarsvæðinu þar sem stunduð er atvinnustarfsemi.
- Fjölda nýrra íbúða.
- Fjölda atvinnuhúsnæðis.
Allt skiptir þetta máli þegar ósæð höfuðborgarsvæðisins verður valin. Allar leiðirnar hafa það sameiginlegt að byrja frá Hörpu, við Reykjavíkurhöfn.