Hverfandi líkur eru á því að greint verði opinberlega frá því hverjir séu endanlegir eigendur þeirra aðila sem keyptu 29,18 prósent hlut í Arion banka nýverið, og ætla sér að verða meirihlutaeigendur í bankanum þegar þeir hafa nýtt sér fyrirliggjandi kauprétt á 21,9 prósent hlut til viðbótar. Í upplýsingum sem birtar hafa verið um eigendur aðilanna, sem eru vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Attestor Capital og Och-Ziff Capital ásamt fjárfestingabankanum Goldman Sachs, á heimasíðu Arion banka eru engar upplýsingar um endanlega eigendur.
Á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun, þar sem fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu sátu fyrir svörum, kom svo fram að eftirlitið hefði ríkan rétt til að kalla eftir upplýsingum um endanlega eigendur og myndi gera það í mati sínu á hæfi eigenda sem fram undan væri. Einhverjir þeirra væru nú þegar að afla samþykkis hjá endanlegum eigendum sínum til að upplýsa um það. Þær upplýsingar myndu hins vegar falla undir trúnaðarskyldu Fjármálaeftirlitsins og það gæti ekki miðlað þeim áfram til almennings. Í ljósi þessa verða að teljast litlar líkur á því að almenningur fái að vita hverjir eru endanlegir eigendur sjóðanna.
Eru ekki skilgreindir virkir eigendur
Þeir fjórir aðilar sem tilkynntu um liðna helgi að þeir hefðu keypt 29,18 prósent hlut í Arion banka í lokuðu útboði, og hefðu samið um kauprétt á 21,9 prósent hlut til viðbótar, pössuðu allir upp á að fara ekki yfir tíu prósent beinan eignarhlut hver. Ástæðan er sú að þá teljast þeir virkir eigendur og þurfa að fara í gegnum mat Fjármálaeftirlitsins sem slíkir. Tveir vogunarsjóðir sem eru í hópnum, Taconic Capital og Atterstor Capital, keyptu þess vegna 9,99 prósent hlut hvor.
Sú skýring hefur verið gefin opinberlega að þeir hafi ekki viljað tefja fyrir söluferli Arion banka með því að fara yfir tíu prósent í þessum fasa. Þeir ætli sér hins vegar að nýta umsaminn kauprétt í aðdraganda skráningar Arion banka á markað í haust og þá muni þeir fara í það ferli að láta meta sig sem virka eigendur.
Samkvæmt lögum þarf að tilgreina nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga umfram eitt prósent hlutafjár í fjármálafyrirtæki á heimasíðu þess. Það þarf þó ekki að tilgreina nafn einstaklinga sem eiga undir tíu prósent af hlutafé í viðkomandi eiganda, annað hvort beint eða óbeint.
Arion banki birti í morgun uppfærða hluthafalista þar sem kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá vogunarsjóðunum þremur og Goldman Sachs eigi enginn einstaklingur meira en tíu prósent í hverju félagi fyrir sig. Því er jafn lítið vitað um endanlega eigendur þessara nýju eigenda íslensks viðskiptabanka og var vitað um þá á sunnudag. Þ.e. ekkert.
Augljóst að verið sé að forðast tíu prósent markið
Salan á stórum hlut í Arion banka hefur vakið mikil viðbrögð í samfélaginu, og ekki síst á hinu pólitíska sviði. Sá órói leiddi til þess að fulltrúar Fjármálaeftirlitsins voru kallaðir á opin fund efnahags- og viðskiptanefndar í morgun til að svara spurningum um málið. Þangað mætti Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri eftirlitsins, og tveir sérfræðingar þess.
Jón Þór sagði þar að það væri „öllum augljóst“ að þeir tveir eigendur sem ákveðið hefðu að kaupa 9,99 prósent hlut hefðu gert slíkt vegna þess að þeir vildu ekki verða virkir eigendur „að svo stöddu“. Fjármálaeftirlitið væri hins vegar byrjað að undirbúa könnun á hæfi þessara aðila og hafi meðal annars átt fundi með þeim öllum.
Vogunarsjóðirnir þrir og Goldman Sachs eiga samtals um 66 prósent í Kaupþingi ehf., eignarhaldsfélagi utan um eftirstandandi eignir Kaupþings. Þar er stór hluti í Arion banki stærsta einstaka eignin. Alls á Kaupþing enn 57,9 prósent hlut í Arion banka eftir söluna sem tilkynnt var um á sunnudag. Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði á fundinum út hvort að það lægi ekki fyrir að þegar óbeinn eignarhlutur vogunarsjóðanna í Arion banka í gegnum Kaupþing væri lagður saman við beinan eignarhlut að þeir væru komnir með virkan eignarhlut.
Jón Þór svaraði því til að allir vogunarsjóðirnir hefðu skuldbundið sig til að takmarka áhrif sín á Arion banka um stundarsakir, eða þar til að almennt útboð á hlutum í bankanum er yfirstaðið. Auk þess væru áhrif Kaupþings á Arion banka mjög takmörkuð vegna skilyrða sem sett voru á eignarhaldið á árinu 2010. Hann sagði líka óhætt að upplýsa um að það hefðu verið sett tímamörk á það millibilsástand sem nú ríkti. Líta yrði á söluferli Arion banka sem hluta af stærri heild sem lyki með almennu útboði, í stað þess að horfa einvörðungu á þessa einu sölu sem átti sér stað um helgina.
Ekki gerð sérstök athugun á endanlegu eignarhaldi Goldman Sachs
Nefndarmenn þráspurðu um hvort Fjármálaeftirlitið teldi sig hafa heimildir til þess að nálgast upplýsingar um hverjir væru endanlegir eigendur sjóðanna sem allt stefnir í að verði ráðandi eigendur Arion banka. Þá var einnig spurt hvort kannað væri hvort þessir fjórir aðilar væru að vinna saman í þessum viðskiptum með þeim hætti að það ætti að flokka þá sem tengda aðila, en ekki að skoða hvern fyrir sig.
Jón Þór sagði að Fjármálaeftirlitið hefði ríkar heimildir til að kalla eftir upplýsingum um raunverulegt eignarhald sjóðanna. Hægt sé að hafna því að viðkomandi aðilar fái að vera virkir eigendur ef einhver vafi leikur á því hvort upplýsingar um raunverulegt eignarhald séu réttar.
Hann greindi einnig frá því að einhverjir þeirra væru nú þegar að afla samþykkis hjá endanlegum eigendum sínum til að upplýsa um það. Þær upplýsingar myndu hins vegar falla undir trúnaðarskyldu Fjármálaeftirlitsins og það gæti ekki miðlað þeim áfram til almennings.
Jón Þór sagði enn fremur að eftirlitið ætti að geta komist að raun um hvort einhverjir íslenskir aðilar væru að baki sjóðunum sem kynntir væru sem nýir eigendur bankans. Þegar hafi þó verið fullyrt af talsmönnum þeirra að einungis erlent fjármagn væri nýtt í viðskiptunum.
Undir lok fundarins var spurt að því hvort gengið hefði verið úr skugga um að fjárfestingabankinn Goldman Sachs væri að kaupa hlut í Arion banka á eigin reikning, líkt og talsmenn kaupenda fullyrða. Í svari Jóns Þórs kom fram að Fjármálaeftirlitið hafi ekki gert sérstaka athugun á því.
Orðspor skiptir máli
Nefndarmönnum var líka tíðrætt um orðspor nýrra eigenda og hvernig fjármögnun kaupanna væri háttað. Bæði eru atriði sem eru á meðal þeirra viðmiða sem horft er til þegar Fjármálaeftirlitið metur hvort viðkomandi séu hæfir til að eiga virkan eignarhlut í íslenskum banka.
Þar var meðal annars vísað í að Och-Ziff Capital hafi í september í fyrra greitt 23 milljarða króna í sekt eftir að hafa gengist við því að hafa mútað embættismönnum í Afríku til að liðka fyrir starfsemi sinni. Goldman Sachs hefur sömuleiðis þurft að greiða mjög háar sektir vegna vafasams hátternis í viðskiptum.
Í máli starfsmanna Fjármálaeftirlitsins kom fram að orðspor gæti snúist um ýmislegt. Það gæti til dæmis snúist um heilindi, hvort viðkomandi hafi fengið dóm á sig eða hvort hann byggi yfir viðunandi rekstrarþekkingu til að vera virkur eigandi að fjármálafyrirtæki. Jón Þór sagðist þó verða að færast undan því að svara sértækum spurningum um einstaka aðila á þessari stundu, þar sem eftirlitið ætti eftir að framkvæma faglegt mat á þeim. Þar myndu þó allir þessir hlutir koma til skoðunar.
Brynjar Níelsson, þnigmaður Sjálfstæðisflokks, spurði þá hvort það myndi skipta máli í þeim tilvikum þar sem brot hefðu átt sér stað hvort það væru einstakir starfsmenn sem hefðu brotið af sér eða hvort það væru stjórnendur eða stjórn félagsins. Ástæða þess að hann spyrði væri sú að öll fyrirtæki og stofnanir, jafnvel stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið, gætu verið með svarta sauði innanborðs. Jón Þór svaraði því til að það gæti skipt máli hvort um starfsmenn eða stjórnendur væri að ræða þegar afstaða yrði tekin til þess hvaða áhrif brot hefðu á orðspor.