Í byrjun mars birtu samtökin Anti-Corruption Foundation niðurstöður skýrslu sinnar í YouTube-myndbandi sem útskýrir í smáatriðum hvernig forsætisráðherra Rússlands og leiðtogi hins ráðandi Yedinaya Rossiya-flokks (e. United Russia), Dmitry Medvedev, hefur sett saman net af fyrirtækjum og stofnunum til þess að geta tekið við fjárstyrkjum frá helstu auðmönnum landsins, hinum svokölluðu olígörkum, og notað peningana til að kaupa lystisnekkjur, vínekrur og fasteignir bæði innan og utan Rússlands. Samtökin uppgötvuðu netið með því að rannsaka gögn sem var lekið af hakkarasamtökunum Anonymous International og þá einna helst kvittun fyrir hlaupaskóm sem Medvedev hafði látið kaupa fyrir sig.
Alexei Navalny er forstöðumaður Anti-Corruption Foundation og einn vinsælasti stjórnmálamaður stjórnarandstöðunnar í Rússlandi. Hann nýtur sérstaklega mikilla vinsælda meðal ungs fólks og notast að mestu við samfélagsmiðla til að tala máli sínu enda eru flestir hefðbundnir fjölmiðlar í Rússlandi, og þá sérstaklega sjónvarpsstöðvar í landinu, undir sterkum áhrifum stjórnvalda. Í kjölfar birtingu skýrslunnar og myndbandsins, ásamt vinsældum annars myndbands sem sýnir samskipti skólastjóra við nemendur í borginni Bryansk sem virðast leiðir á stjórnarháttum núverandi ríkisstjórnar, tilkynnti Navalny að sunnudagurinn síðastliðinn væri dagur aðgerða gegn spillingu í Rússlandi.
Um sextíu þúsund manns mótmæltu á götum úti – ekki einungis í Moskvu, heldur einnig í borgum á víð og dreif um landið á borð við Vladivostok, Novosibirsk og Krasnodar sem eru almennt taldar íhaldssamari og hlynntari stjórnvöldum en höfuðborgin – þrátt fyrir að ekki hafi verið sótt um formleg leyfi til að halda mótmælin. Fjölmargir mótmælendur voru handteknir, þar á meðal Navalny sem hlaut sekt og 15 daga fangelsisdóm fyrir hlutdeild sína í mótmælunum.
Áhyggjuefni fyrir stjórnvöld
Þó að mótmælin hafi verið gegn spillingu en ekki endilega gegn stjórnvöldum, eða fyrir auknu lýðræði í landinu, ætti það að valda ríkisstjórn Pútín áhyggjum að einum manni hafi verið kleift að efna til fjöldamótmæla ungs fólks, sem hefur alist upp með ríkisstjórnir Pútíns og Yedinaya Rossiya-flokksins, á skömmum tíma með notkun samfélagsmiðla sem stjórnvöld hafa takmarkaða stjórn á.
Eins og ungt fólk um allan heim nota ungir Rússar netið til að fá fréttir og upplýsingar en sjónvarpsnotkun þeirra er mjög takmörkuð. Þegar Pútín var fyrst svarinn inn í embætti árið 2000 notuðu einungis um 2% Rússa netið reglulega en í dag er sú tala um 70%, og nálægt 100% meðal ungs fólks. Mótmælin gefa í skyn að stór hluti ungs fólks í Rússlandi vilji breytingar af einhverju tagi og hefur ríkisstjórn Pútíns því mikið verk að vinna til að koma til móts við þær væntingar enda hefur valdatíð Pútíns einkennst af áherslu á stöðugleika. Hinn pólitíski veruleiki í Rússlandi í dag er frábrugðinn þeim sem einkenndi landið í kjölfar falls Sovétríkjanna og virðist vera að Navalny snerti taug meðal ungs fólks sem er orðið leitt á því sem fyrir þeim virðist vera spillt kerfi sem veiti takmarkaða framtíðarsýn.
Ungur maður á uppleið
Það ber að nefna að hluti af ætlun Navalny með mótmælunum er að styrkja framboð sitt til forseta Rússlands í kosningum sem eiga að fara fram á næsta ári. Ólíklegt verður að segjast að Pútín verði ekki endurkjörin, samkvæmt nýlegri skoðanakönnun hins frjálsa rannsóknarseturs Levada Center nýtur Pútín stuðnings 84% landsmanna, en samanborið við mótmæli í Rússlandi í aðdraganda síðustu forsetakosninga árið 2012 virðist vera ákveðið kynslóðarof að þróast meðal rússneskra kjósenda.
Navalny hefur lagt mikla áherslu á að höfða til ungra kjósenda út um allt Rússland og þannig skapað tengsl á milli stjórnarandstöðuhópa í höfuðborginni og grasrótarinnar í öðrum borgum og á landsbyggðinni. Óvíst er hins vegar hvort rússneskir dómstólar munu leyfa Navalny að bjóða sig fram eftir því sem hann á yfir höfði sér fimm ára skilorðsbundinn dóm fyrir fjársvik; hann hlaut dóminn eftir að mál gegn honum var tekið upp á ný eftir að fyrrverandi úrskurður gegn honum var felldur niður af hæstarétti landsins og lýst sem ólöglegum af Mannréttindadómstóli Evrópu. Ef Navalny verður ekki leyft að bjóða sig fram er ekki ólíklegt að það muni styrkja hugsanlegt framboð hans til forseta árið 2024 en þá mun Pútín, samkvæmt núverandi stjórnarskrá, ekki geta boðið sig fram aftur til endurkjörs.
Samkvæmt Levada Center vita einungis 47% af Rússum í dag hver Navalny er en honum er meinað að koma fram í sjónvarpi og er hann að miklu leyti álitinn með tortryggni af eldri kjósendum. Eftir því sem lýðfræðin og notkun samfélagsmiðla vinna með Navalny gætu kosningarnar 2024 verið raunhæfari möguleiki.