Besta leiðin til að ræna banka er að eignast hann
Íslenska útrásin hófst með því að hópur manna komst yfir Búnaðarbankann með blekkingum og án þess að leggja út neitt eigið fé. Næstu árin jókst auður, völd og umsvif þeirra gríðarlega. Afleiðingarnar eru öllum kunnar. Nú hefur blekkingin verið opinberuð. Aðalleikendur hafa kannski misst æruna en þeir hafa haldið peningunum sem þeir komust yfir og áhrifunum sem þeir veita.
Íslenska útrásin og fjármálaævintýrið sem henni fylgdi hófst formlega með einkavæðingu á hlut ríkisins í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands undir lok árs 2002 og í byrjun árs 2003. Í skýrslu rannsóknarnefndar um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbankanum er opinberaður blekkingarleikur sem reyndist enn ótrúlegri og margslungnari en flestir ætluðu.
Lengi hafa verið uppi grunsemdir um að aðkoma þýska bankans væri ekki öll það sem hún var séð. Hauck & Aufhäuser var lítill einkabanki sem ekki átti neitt sýnilegt erindi við að kaupa íslenskan viðskiptabanka. Þegar kafað var ofan í upplýsingar úr frumgögnum sem lágu til grundvallar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá 12. apríl 2010 um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði og vistaðar eru hjá Þjóðskjalasafni Íslands, fékkst margt af því staðfest. Þegar við bættust upplýsingar úr kerfum Arion banka hf., Deloitte ehf., Fjármálaeftirlitsins, forsætisráðuneytisins, héraðssaksóknara (áður embætti sérstaks saksóknara), Íslandsbanka hf., Kauphallar Íslands hf., Kaupþings ehf. (áður slitastjórn Kaupþings), Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. og Ríkisendurskoðunar komst heildarmynd á þá fléttu sem átt hefði sér stað. Fléttu sem í fólst einbeittur brotavilji til að blekkja stjórnvöld, eftirlitsaðila, almenning og fjölmiðla til að leyna því hverjir hefðu raunverulega staðið að baki aðkomu Hauck & Aufhäuser að Búnaðarbankanum. Fléttu sem í fólst tilfærsla á fé milli félaga með sérkennileg nöfn á framandi aflandseyjum. Fléttu sem í fólst að aðalgerendurnir högnuðust um marga milljarða króna.
En af hverju réðust menn í svona víðfeðma fléttu? Og hverjar urðu afleiðingarnar?
Fyrri spurningunni má svara með því að segja að það fylgdu því mikil tækifæri fyrir metnaðargjarna bankamenn að komast yfir Búnaðarbankann. Hann var með gott lánshæfi eftir að hafa verið áratugum saman í ríkiseigu og hann var með viðskiptabankaleyfi. Slíkur banki færði nýjum eigendum völd og aðgengi að gríðarlegum fjármunum. Fjármunum sem hægt var að nota til að auka enn þau völd og lána ótæpilega til tengdra aðila á tímum þar sem gott lánshæfi og háir íslenskir vextir tryggðu aðgengi að nánast botnlausu lánsfjármagni erlendis frá.
Seinni spurningunni má svara með því að benda á þá atburði sem áttu sér stað snemma í október 2008.
En upphafið allt má rekja til haustsins 2002.
Lagt á ráðin í Kringlunni í október 2002
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um aðkomu Hauck & Aufhäuser er ítrekað minnst á orðróm um að búið hefði verið að ákveða að sameina Kaupþing og Búnaðarbanka Íslands áður en að hin svokallaði S-hópur, með Ólaf Ólafsson í broddi fylkingar, keypti 45,8 prósent hlut í síðarnefnda bankanum. Kaupþing var á þessum tíma lítið fjármálafyrirtæki sem hafði þó vaxið hratt og vakið athygli fyrir fyrirferð og djörfung. Stjórnendur þess, sérstaklega þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson, þóttu holdgervingar nýrra tíma í íslensku fjármálaumhverfi. Áhættusæknir og ákveðnir.
Í skýrslunni segir að nánari staðhæfingar um þessi atriði – þ.e. um fyrirhugaða en leynilega sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans – hafi ítrekað komið fram á undanförnum árum og að þær hafi allar lotið að því að samkomulag um sameininguna hafi legið fyrir í október 2002. Þá hafi verið haldnir fundir í þáverandi skrifstofuhúsnæði eignarhaldsfélagsins Sunds ehf. í svonefndum litla turni Kringlunnar.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir: „Á þeim fundum voru sagðir hafa verið meðal annarra Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarssonar, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings hf. Um þetta var haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni í[...]skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 12. apríl 2010: „Þessi díll held ég var allur og það að sameiningunni, þetta var allt hannað miklu fyrr, það er alltaf talað um að það hafi verið hannað í skrifstofunni hjá Sund í október 2002.[...]ég [held] reyndar að það hafi verið samið um þetta fyrir löngu, löngu síðan og verið eitthvað mjög grunsamlegt allt í tengslum við þessi kaup á Búnaðarbankanum. Ég get sagt ykkur frá því síðar ef þið viljið, það fannst mér allt mjög grunsamlegt.“
Ármann Þorvaldsson, sem var einn af æðstu stjórnendum Kaupþings og stýrði m.a. banka veldisins í Bretlandi, skrifaði um þetta í bók sinni „Ævintýraeyjan“ sem kom út 2009. Þar greinir Ármann frá því að þreifingar hefðu átt sér stað við S-hópinn á meðan að hann var enn að semja við stjórnvöld um kaup á eignarhlutnum í Búnaðarbankanum.
Björn Jón Bragason sagnfræðingur rakti svipaða sögu í grein sem hann skrifaði í tímaritið Sögu í lok árs 2011. Þar sagði hann að sameining Kaupþings og Búnaðarbankans hafi verið „hönnuð“ á leynifundum mörgum mánuðum áður en einkavæðingin gekk í gegn. Þá fundi sátu, að sögn Björns Jóns, Finnur Ingólfsson, Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson.
Aðalleikendur málsins hafa alltaf neitað því að þetta samkomulag hafi verið gert. Ólafur Ólafsson sagði til að mynda í yfirlýsingu 4. apríl 2003 að það væri „rangt að samningar hafi legið fyrir um sameiningu Búnaðarbanka og Kaupþings áður en gengið var frá kaupunum á kjölfestuhlutnum í Búnaðarbankanum eins og ýjað hafi verið að.“ Það verður þó að taka þeirri yfirlýsingu með ákveðnum fyrirvara, í ljósi þess að nánast ekkert sem Ólafur hefur haldið fram opinberlega um viðskiptin hefur reynst satt.
Blekkt til að mæta skilyrðum
Hópurinn sem keypti hlutinn í Búnaðarbankanum gekk alltaf undir nafninu S-hópurinn. Sá hópur samanstóð af Eglu ehf. (félags í eigu Kers (að mestu í eigu Ólafs Ólafssonar) sem átti 49,5 prósent, VÍS sem átti 0,5 prósent og opinberlega Hauck & Aufhäuser sem sagt var eiga 50 prósent), Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Samvinnulífeyrissjóðnum og VÍS. Rík tengsl voru við Framsóknarflokkinn og samvinnuhreyfinguna sálugu innan hópsins. Óumdeilanlegur leiðtogi hópsins, og sá sem stýrði öllu í kringum hann, var Ólafur Ólafsson.
S-hópurinn hafði sent inn bréf til framkvæmdanefndar um einkavæðingu og lýst yfir áhuga á að kaupa hlut í annað hvort Landsbanka Íslands eða Búnaðarbankanum sumarið 2002. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að ekki verði annað sé en að hópurinn hafi látið fyrst í það skína að erlendur aðili myndi koma að tilboði hans á fundi með framkvæmdanefndinni 28. ágúst 2002. Þannig var bókað í fundargerð að fulltrúar S-hópsins hafi upplýst að „tveir erlendir bankar hefðu sýnt áhuga á að koma að málinu sem ráðgjafar eða fjárfestar“ og síðan hafi fulltrúar hópsins spurt hvort það breytti stöðu hópsins í ferlinu.
Samkvæmt fundargerðinni svaraði formaður framkvæmdanefndarinnar því til að svo væri ekki, frekar væri „gefinn plús fyrir erlenda peninga“. Þar var því strax ljóst að aðkoma erlends banka myndi styrkja tilboð S-hópsins. Í kjölfarið var látið mjög sterkt í það skína að franski bankinn Société Générale ætlaði sér að kaupa hlut.
Ákveðið var 4. nóvember 2002 að mæla með því að ganga til samninga við S-hópinn um kaup á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum. Þá höfðu meintir fundir um ætlaða sameiningu við Kaupþing þegar átt sér stað. Kaupþings var hins vegar hvergi getið í tilboði S-hópsins.
Í tilkynningu framkvæmdanefndar um einkavæðingu um einkaviðræður við S-hópinn kom skýrt fram að lykilforsenda fyrir þeim væri aðkoma erlendrar fjármálastofnunar. Annars yrðu þær hugsanlega ekki framlengdrar.
Þegar hinn hópurinn sem valinn hafði verið til viðræðna um kaup á hlutnum, Kaldbakur, óskaði eftir skýringum á þessu svaraði formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu því til að sérstaklega hefðu þrjú atriði „skilið á milli við val á viðsemjanda“. Meðal þeirra atriða sem nefnd voru í þessu sambandi var að S-hópurinn hefði haft í sínum hópi „virt erlent fjármálafyrirtæki sem fjárfesti“.
Á þessum tíma lá ekkert fast fyrir um neina erlenda aðkomu að kaupum S-hópsins. Í bréfinu sagði nefndin að „S-hópurinn hefði gefið til kynna að 25-30% hlutur í eignarhaldsfélagi um eign í Búnaðarbankanum yrði í eigu Société Générale eða annars alþjóðlegs fjárfestis.“ Framkvæmdanefndin lagði áherslu á að „þátttaka Société Générale eða annarrar hátt virtrar alþjóðlegrar fjármálastofnunar, sem umtalsverðs hluthafa í eignarhaldsfélagi um tilboðið [hefði] verið veigamikill þáttur á bak við ákvörðun nefndarinnar að efna til einkaviðræðna við [S-hópinn]“. Lögð var áhersla á að einkaviðræður yrðu ákveðnar til tiltekins takmarkaðs tíma og að framkvæmdanefndin yrði treg til að framlengja einkaviðræður ef hún teldi þá „Société Générale eða annan alþjóðlegan fjárfesti ólíklegan til að eiga umtalsverðan hlut í eignarhaldsfélagi um tilboðið“.
Því blasti við að erlendur aðili var nauðsynlegur til að tilboðinu yrði tekið.
Ráðgjafar á vegum Ólafs tóku þátt í blekkingarleiknum
Nú hefur verið opinberað að, líkt og marga grunaði, þá var aðkoma Société Générale hluti af blekkingarleik. Aldrei stóð til að bankinn myndi kaupa hlut í Búnaðarbankanum. Tveir starfsmenn þýskalandsarms bankans, sem störfuðu fyrir Ólaf Ólafsson í málinu, höfðu aldrei neina heimild til að skuldbinda slíkan stórbanka í kaup á viðskiptabanka á Íslandi. Mennirnir voru einfaldlega að sinna ráðgjöf og spiluðu þar með í leik Ólafs. Fyrir ómakið fengu þeir um 300 milljónir króna greiddar, samkvæmt skýrslunni.
Það sem síðan gerðist þekkja flestir. Beðið var með að tilkynna hver erlenda fjármálastofnunin sem myndi taka þátt í kaupunum væri nánast fram að undirskrift, sem átti sér stað 16. janúar 2003. Þegar á hólminn var komið reyndist hún, samkvæmt tilkynningum, vera þýski einkabankinn Hauck & Aufhäuser. En nú hefur auðvitað verið opinberað með tilvísun í gögn að sú aðkoma var líka blekking. Kaupþing fjármagnaði kaupin að fullu, að baki lágu baksamningar sem tryggðu Hauck & Aufhäuser fullt skaðleysi, þóknanatekjur upp á eina milljón evra fyrir að leppa og sölurétt á hlutnum eftir að þýski leppbankinn var búinn að halda á honum í tæp tvö ár.
Til viðbótar lá fyrir í fléttunni, sem var kölluð „Puffin“, að hagnaður sem gæti skapast hjá réttum eigenda hlutarins, aflandsfélagsins Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjunum, myndi renna til tveggja aflandsfélaga, skráð á sama stað, sem áttu það félag. Annað þeirra aflandsfélaga var Marine Choice Limited, í eigu Ólafs Ólafssonar. Hann hagnaðist um 3,8 milljarða króna á fléttunni. Hitt félagið, Dekhill Advisors, hagnaðist um 2,9 milljarða króna á „Puffin“ verkefninu. Á núvirði er sameiginlegur hagnaður félaganna tveggja rúmlega 11 milljarðar krona.
Eignarhald Dekhill hefur ekki verið staðfest. Rannsóknarnefndin ályktar að aðilar tengdir Kaupþingi hafi verið eigendur þess. Þar er án nokkurs vafa átt við að mögulega hafi stjórnendur Kaupþings átt það. En það hefur líka öðrum möguleikum verið velt upp. Í samningsdrögum sem birt eru í skýrslunni kom á einum tíma til greina að Ágúst og Lýður Guðmundssynir myndu eiga hlut í Welling & Partners.
Bræður keyptu í Kaupþingi í miðri fléttu...með láni frá Kaupþingi
En hvernig koma þeir bræður að þessum leik?
Ágúst og Lýður Guðmundssynir léku stórt hlutverk í þeirri spilaborg sem Kaupþing var. Og nú þegar aðkoma Kaupþings að einkavæðingu Búnaðarbankans hefur verið staðfest af rannsóknarnefnd verður að skoða innkomu þeirra í Kaupþing í öðru ljósi.
Spólum aðeins til baka. Á tíunda áratugnum áttu átta sparisjóðir í landinu, þar á meðal SPRON, eignarhaldsfélag sem hét Meiður. Félagið hélt á eignarhluti sparisjóðanna átta í þá litlu fjármálafyrirtæki sem hét Kaupþing. Forstjóri Kaupþings á þessum tíma var Guðmundur Hauksson. Hann var yfirmaður og fyrirmynd þess hóps sem síðar tók yfir og stýrði Kaupþingi í uppgangi og loks fram af bjargbrúninni. Guðmundur hætti þar 1996 til að taka við stöðu sparisjóðsstjóra SPRON, sem þá þótti stærra starf en að stýra litlu fjármálafyrirtæki.
Í október 2002, á sama tíma og meintir fundir lykilmanna úr S-hópnum og Kaupþingsmanna um væntanlega sameiningu áttu sér stað í Kringlunni, setti Kaupþing eign sína í sjálfu sér inn í eignarhaldsfélagið Meið, sem átti eftir það 15,7 prósent í Kaupþingi. Kaupþing mátti samkvæmt lögum ekki eiga meira en tíu prósent í sjálfu sér og því var ljóst að fyrirtækið þurfti að selja sinn hlut í Meið, alls 55 prósent hlutafjár. Það gerði Kaupþing 27. desember 2002, skömmu áður en S-hópurinn svokallaði kláraði kaupin á Búnaðarbankanum af ríkinu.
Kaupin voru fjármögnuð af Kaupþingi og kaupandinn var Bakkabraedur Holding, félag í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona. Bræðurnir höfðu verið góðir viðskiptavinir Kaupþings um skeið og sterk tengsl höfðu skapast á milli þeirra og helstu stjórnenda Kaupþings. Kaupverðið er um 2,4 milljarðar króna, eða nánast sama upphæð og Hauck & Aufhäuser greiddi fyrir sinn meinta hlut í Búnaðarbankanum. Kaupverð á 45,8 prósent hlut í bankanum var um 11,8 milljarðar króna og hlutur þýska bankans, sem Kaupþing lánaði leynilega fyrir, um 2,7 milljarðar króna.
Kaupþing lánaði því Bakkavararbræðrum til að kaupa hluti í sjálfum sér. Peningarnir sem Bakkavararbræður greiddu Kaupþingi (sem voru fengnir að láni frá sama banka) nýttust svo til að lána Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjum sem lánaði Hauck & Aufhäuser til að þykjast vera að kaupa í Búnaðarbankanum.
Upphafið að endalokunum og afleiðingunum
Það má með sanni segja að boltinn hafi byrjað að rúlla hjá öllum hlutaðeigandi eftir að þessi flétta var framkvæmd. Nafni Meiðs var breytt í Exista og bræðurnir héldu þar um alla þræði í krafti mikils eignarhluta. Exista var ásamt félagi Ólafs Ólafssonar stærsti eigandi sameinaðs banka Kaupþings og Búnaðarbanka, sem lengst af hét bara Kaupþing, fram að því að hann féll í október 2008. Við blasir að hvorugur aðilinn borgaði nokkuð eigið fé fyrir þann hlut sem hann eignaðist í Kaupþingi. Þeir lögðu ekki út eina krónu.
Allir hlutaðeigandi efnuðust stórkostlega á þessum tíma. Exista keypti m.a. VÍS, Símann, stóran hlut í finnska tryggingafélaginu Sampo og meira að segja Viðskiptablaðið. Auk þess var Bakkavör mikilvægur hluti af samstæðunni. Virði eigna hennar mældist mörg hundruð milljarðar króna.
Ólafur Ólafsson varð einn ríkasti og valdamesti maður landsins. Í árslok 2003 voru eignir Kjalars, fjárfestingafélags Ólafs, metnar á 3,2 milljarða króna. Tveimur árum síðar voru þær metnar á 85 milljarða króna. Aðrir meðlimir S-hópsins nutu líka góðs af verknaðinum og urðu fokríkir, þótt Ólafur hafi skarað þar fram úr.
Ólafur barst á og var fyrirferðamikill á þessum árum. Hann stofnaði góðgerðarsjóð og setti milljarð króna í hann og hann fékk Elton John til að syngja í klukkutíma í fimmtugsafmælinu sínu. Hann keypti sér þyrlu og flaug henni sjálfur ítrekað í bústað sinn á Snæfellsnesi. Viðskiptaveldi hans samanstóð af fjárfestingafélögunum Kjalar og Eglu. Auk hlutarins í Samskip átti hann m.a. hluti í HB Granda, Iceland Seafood, Alfesca og ýmsum fasteignaverkefnum svo fátt eitt sé nefnt. Ólafur var líka stórtækur í gjaldmiðlaskiptasamningum og gerði m.a. einn slíkan við Kaupþing 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi. Þar veðjaði hann gegn íslensku krónunni og krafðist þess átta dögum síðar að samningurinn yrði gerður upp á genginu 305 krónur á hverja evru, sem hefði þýtt að Kaupþing, fallni bankinn sem hann verið næst stærsti eigandinn í, ætti að borga honum 115 milljarða króna.
Hlutabréfaverð í sameinuðu Kaupþingi rauk upp eftir að Puffin-fléttan var framkvæmd. Í upphafi árs 2003 var það 129,5 krónur á hlut. Á fyrsta árinu hækkaði gengið um 73,4 prósent. Frá ársbyrjun 2004 og fram á mitt ár 2007 hækkuðu hlutabréf í Kaupþingi um 536 prósent. Virði eignarhluta Ólafs og Bakkavararbræðra hækkaði um sama hlutfall. Síðar kom reyndar í ljós að Kaupþing hafði stundað skipulagða og kerfisbundna markaðsmisnotkun að minnsta kosti frá byrjun árs 2005. Tilgangurinn var að halda uppi verði bréfanna handvirkt. Fyrir þetta hlutu níu fyrrverandi stjórnendur og starfsmenn Kaupþing dóm í Hæstarétti í fyrrahaust. Á meðal þeirra sem hlutu dóm í málinu voru Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Bjarki Diego og Magnús Guðmundsson. Allir fjórir léku lykilhlutverk í því þegar Puffin-fléttan um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum var hönnuð og framkvæmd.
Alls tókst Ólafi og tengdum félögum að safna upp skuldum upp á 147 milljarða króna við íslensku bankana fram að hruni þeirra. Mest skulduðu félög Ólafs Kaupþingi, alls 96,1 milljarð króna. Exista-bræður voru enn stórtækari í skuldasöfnun. Þeir og félög tengd þeim skulduðu íslenskum bönkum 309 milljarða króna við hrunið. Þar af námu skuldir þeirra við Kaupþing, bankann sem þeir voru stærsti eigandinn í, 239 milljörðum króna.
Stjórnendur Kaupþings fengu líka drauma sína uppfyllta. Áður óþekkt ofurlaun, umfangsmikil hlutabréfakaup, útrás og tögl og haldir í íslensku atvinnulífi. Sigurður Einarsson var sæmdur fálkaorðunni og Ólafur Ragnar Grímsson talaði um hann sem einn sinn nánasta samstarfsmann. Hann og Hreiðar Már voru kjörnir viðskiptamenn ársins. Og svo framvegis.
Afraksturinn af þessum bræðingi öllum saman varð fimmta stærsta gjaldþrot heimssögunnar.
Margdæmdir en fokríkir og fjárfesta á Íslandi með afslætti
Síðustu ár hafa verið afdrifarík fyrir þennan hóp. Helstu stjórnendur Kaupþings, sérstaklega Hreiðar Már, hafa verið ákærðir margoft og hlotið þyngstu dóma sem fallið hafa í Hæstarétti í efnahagsbrotamálum á Íslandi. Dómarnir voru m.a. fyrir stórfellda markaðsmisnotkun og hina svokölluðu Al Thani-fléttu, sem minnir um margt á Puffin-fléttuna í kringum Hauck & Aufhäuser blekkinguna. Í henni var fengin erlendur aðili til að þykjast eiga hlut í Kaupþingi sem Kaupþing fjármagnaði í reynd og baksamningur var í gildi sem gat gert það að verkum að Ólafur Ólafsson hagnaðist ef fléttan gengi upp, en átti ekki að geta tapað neinu ef hún gerði það ekki. En eru mál gegn þeim óútkljáð fyrir dómstólum eða enn í rannsókn, bæði hérlendis og erlendis.
Sigurður Einarsson var úrskurðaður gjaldþrota 23. september 2015 en alls var kröfum upp á 254,4 milljarða króna lýst í bú hans. Einungis 38,3 milljónir króna fengust upp í kröfur eða tæplega 0,02 prósent. Um er að ræða langstærsta gjaldþrot einstaklings í Íslandssögunni. Samkvæmt þessu virtist Sigurður eiga nánast engar eignir þrátt fyrir allan uppganginn, ofurlaunin og viðskiptasamninganna á fyrstu árum aldarinnar.
Hreiðar Már Sigurðsson og fjölskylda hans eru í miklum og blómlegum viðskiptum á Íslandi. Þau hafa frá árinu 2009 byggt upp fyrirtækið Gistiver sem tengdist rekstri fjölmargra gististaða víðs vegar um landið. Eiginkona Hreiðars er skráður eigandi félagsins og framkvæmdastjóri.
Ólafur Ólafsson gerði skuldauppgjörssamkomulag við Arion banka árið 2011. Samkvæmt því slapp Ólafur við að greiða 64 milljarða króna af skuldum sínum en þurfti að láta valdar eignir, meðal annars eignarhlut sinn í HB Granda. Ólafur hélt hins vegar Samskipum að fullu auk fjölda annarra eigna hér heima og erlendis. Hann er í dag talinn með ríkustu Íslendingunum og virðist eiga mjög digra sjóði til að eyða í almannatengslafyrirtæki og lögfræðiþjónustu. Ólafur hefur greitt fyrir slíkt í mjög opinskárri baráttu fyrir uppreist æru í kjölfar þess að hann hlaut þungan fangelsisdóm í Al Thani-málinu svokallaða. Sú barátta snýr m.a. að því að ráðast gegn dómskerfi landsins, enda heldur Ólafur því fram að dómur Hæstaréttar í málinu hafi verið rangur.
Bakkavararbræðurnir Ágúst og Lýður hafa líka náð vopnum sínum. Þeim hefur tekist að ná fullum yfirráðum í Bakkavör að nýju m.a. með því að kaupa hluti í félaginu af íslenskum lífeyrissjóðum. Í úttekt sem gerð var á starfsemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins, og kynnt var í apríl 2012, kom fram að sjóðirnir hefðu tapað samtals 170,9 milljörðum króna á hlutabréfum og skuldabréfum sem útgefin voru af Existu og tengdum aðilum, þar sem bræðurnir voru stærstu eigendur. Hlutdeild þessara aðila, sem voru aðallega Kaupþing, Exista og Bakkavör, í heildartapi lífeyrissjóðanna vegna slíkra bréfa var 44 prósent.
Lýður hlaut átta mánaða fangelsisdóm fyrir sinn hlut í því að senda ranga tilkynningu til fyrirtækjaskrár í hinu svokallaða Exista-máli. Þá var tilkynnt um hlutafjáraukningu upp á 50 milljarða í lok árs 2008, en aðeins var greitt fyrir það um einn milljarður króna. Í Panamaskjölunum var staðfest að þeir bræður hefðu átt minnst sex aflandsfélög skráð í þekktum skattaskjólum.
Og nánast allir ofangreindir eiga augljóslega digra sjóði erlendis. Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem veitti eigendum erlendra mynta tækifæri til að fá 20 prósent afslátt á íslenskum eignum með því að flytja peninga inn í íslenskt hagkerfi, eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar og Ólafs Ólafssonar.
Það þarf kannski ekki að koma mikið á óvart. Líkt og segir í þekktri bók William K. Black, lögfræðings og sérfræðings í hvítflibbaafbrotum, þá er besta leiðin til að ræna banka að eignast slíkan.