Lagaumgjörð um gjaldeyrishöft var óskýr og ónákvæm í upphafi. Þrátt fyrir að reglur og leiðbeiningarreglur hafi orðið skýrari með tímanum á ákveðnum sviðum var „framkvæmd Seðlabankans ógagnsæ og verklagsreglur, fordæmi og breytt framkvæmd ekki birt.“ Frá nóvember 2008 til september 2014, var stjórnsýsla Seðlabankans í undanþágumálum ógagnsæ og óaðgengileg og því nánast útilokað fyrir einstaklinga og lögaðila að átta sig á því hvaða undanþágur voru gefnar og á hvaða forsendum. Úr þessu var bætt með betri upplýsingum á heimasíðu Seðlabankans árið 2014 og uppfærslu í febrúar 2015.
Þetta kemur fram í stjórnsýsluúttekt Lagastofnunar Háskóla Íslands á stjórnsýslu Seðlabankans við framkvæmd gjaldeyriseftirlits, undanþágubeiðna og gjaldeyrisrannsókna. Þar kemur enn fremur fram að Lagastofnun geri ekki athugasemdir að svo stöddu um álitaefni sem upp hafa komið varðandi meðferð Seðlabanka Íslands á máli Samherja, þar sem hún hafi byggt „á skýrri afstöðu bankans og stjórnvalda á túlkun þessara heimilda.“
Úttektin var unnin í kjölfar þess að umboðsmaður Alþingis sendi bréf til bankaráðs Seðlabankans 2. október 2015 og var skilað 26. október 2016. Bankaráð Seðlabankans ákvað á fundi sínum 16. mars síðastliðinn að birta úttektina með nauðsynlegum útstrikunum.
Til þess að öðlast innsýn í framkvæmdina skoðaði Lagastofnun mál sem voru til meðferðar hjá undanþágudeild og rannsóknardeild gjaldeyriseftirlits og voru þau valin með slembiúrtaki. Einnig var skoðað lítið úrtak staðfestingarmála og mála vegna nýfjárfestinga sem voru til meðferðar hjá eftirlitsdeild. Úttektin miðaði fyrst og fremst að því að skoða meðferð þessara mála, en í úrtakinu voru alls 94 undanþágumál og 48 rannsóknamál.
Takmörkuð við fá mál
Í úttektinni kemur fram að hún sé takmörkuð við 94 mál af rúmlega 6000 málum sem komu til kasta gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands á meðan að gjaldeyrishöft voru við lýði. Því er úrtakið nokkuð lítið.
Í skýrslu Lagastofnunar segir að af úrtaksmálum megi ráða að málsmeðferð gjaldeyriseftirlits sé í heildina vönduð og að brugðist hafi verið við ábendingum í skýrslu innri endurskoðanda um verklag og frágang gagna. „Nokkur frávik koma fram varðandi málshraða miðað við þá tímafresti sem Seðlabankinn hefur sjálfur sett sér þar sem langur málsmeðferðartími, allt að rúm þrjú ár er óútskýrður, en í miklum meirihluta úrtaksmála eru skýringar á lengri afgreiðslutíma. [...]Ekki koma fram frávik að því er varðar jafnræði og samræmi í úrlausnum.“
Gera ekki athugasemdir við meðferð Seðlabankans á máli Samherja
Í niðurstöðuhluta skýrslu Lagastofnunar segir að hún hafi skoðað gögn sem tengist máli útgerðarfyrirtækisins Samherja. Strikað hefur verið yfir nafn þess en augljóst er á samhengi textans að um Samherja er að ræða. Þar kemur m.a. fram að málinu hafi verið lokið með stjórnvaldssekt í september 2016, en þá var Samherja gert að greiða 15 milljónir króna fyrir brot á gjaldeyrislögum.
Niðurstaða Lagastofnunar er sú að svo lengi sem dómstólar hafa ekki skorið úr um álitaefni sem komið hafa upp við málsmeðferðina „verði ekki gerðar athugasemdir við meðferð Seðlabankans á málinu, sem byggðist á skýrri afstöðu bankans og stjórnvalda á túlkun þessara heimilda.“
Þá taldi Lagastofnun það ekki falla undir verklýsingu úttektarinnar að láta í ljós álit á ábyrgð bankaráðs Seðlabankans í málinu.