Stjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, sakar Rússa um að hylma yfir efnavopnaárásir með sýrlenskum stjórnvöldum og að verja stjórn Bashar al-Assad í Sýrlandi. Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundar með rússneska starfsbróður sínum, Sergei Lavrov, í Moskvu í dag.
Hvergi er gert ráð fyrir því að Tillerson hitti Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í þessari fyrstu ferð hans til Rússlands sem utanríkisráherra Bandaríkjanna. Tillerson er hins vegar kunnugur ráðamönnum þar í landi eftir að hafa farið fyrir bandaríska olíurisanum Exxon Mobil í áraraðir. Exxon hefur fjárfest gríðarlega mikið í rússneskum olíuiðnaði. Tillerson hefur jafnframt hlotið sérstaka vinaorðu úr hendi Pútíns fyrir olíuuppbygginguna.

Skilaboðin sem Tillerson flutti í Moskvu voru gagnrýni á stuðning Rússa við stjórn Assads. Tillerson flaug til Moskvu eftir fund með utanríkisráðherrum G7 ríkjanna á Ítalíu í gær þar sem rætt var um refsiaðgerðir vegna efnavopnaárásarinnar í Sýrlandi. Frá þessu er meðal annars greint á vef Reuters.
G7 ríkin komu sér ekki saman um auknar refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi á fundi sínum. Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hafði lagt fram tillögu þess efnis að refsiaðgerðir yrðu hertar vegna efnavopnaárásinnar í Idlib-héraði í Sýrlandi í síðustu viku. Sýrlensk stjórnvöld, sem Rússar hafa aðstoðað í stríðinu í Sýrlandi, eru sögð bera ábyrgð á árásinni.

Misvísandi skilaboð um frekari hernaðaraðgerðir
Á fundi G7-ríkjanna lét Tillerson hafa eftir sér að „það væri ljóst að völd Assad-fjölskyldunnar væru senn á enda“. „Við vonum að rússnesk stjórnvöld átti sig á að þau hafi stillt sér upp með óáreiðanlegum bandamanni í Bashar al-Assad.“
Lestu meira
Donald Trump hefur gefið misvísandi upplýsingar um það hver áform hans eru í Sýrlandi. Eftir að hafa hæft skotmörk á vegum sýrlenskra stjórnvalda sem viðbragð við efnavopnaárásinni hefur það verið á reiki hvað Trump hyggist gera næst. Í viðtali við New York Post sagði forsetinn að Bandaríkin væru ekki á leið „inn í Sýrland“. „Stefna okkar er óbreytt. Við erum ekki að fara inn í Sýrland.“
Pútín telur Bandaríkin vera að undirbúa frekari flugskeytaárásir á Sýrland og að uppreisnarmenn, sem Rússar segja bera ábyrgð á notkun efnavopna, hyggi á fleiri árásir með efnavopnum. Þetta ætli uppreisnarmenn að gera til þess að Bandaríkin neyðist til að hæfa fleiri skotmörk á vegum stjórnarhersins. Þetta segja bandarískir ráðamenn að sé falskur áróður sem ætlað er að villa um fyrir fólki.
Kínverjar hafa áhyggjur
Xi Jinping, forseti Kína, ræddi við Donald Trump í síma í dag þar sem hann lagði áherslu á pólitíska lausn á deilunni í Sýrlandi. „Við verðum að ná pólitískri lausn á vandanum í Sýrlandi. Það er mjög mikilvægt að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna standi saman um lausn við vandanum. Ég vona að Öryggisráðið geti komist að sameiginlegri niðurstöðu,“ er haft eftir Xi á kínversku sjónvarpsstöðinni CCTV.