Í vikunni lagði fyrsta vöruflutningalestin af stað frá London til hafnarborgarinnar Yiwu á austurströnd Kína og mun hið tólf þúsund kílómetra langa ferðalag taka 18 daga. Lestin fer með fram hluta af hinum Nýja Silkivegi; gríðarstóru samgöngu- og innviðaneti sem tengir Kína við gjörvalla Evrasíu.
Leið lestarinnar liggur í gegnum Vestur-Evrópu, Pólland, Hvíta-Rússland, Rússland og Kasakstan og er ætlað að koma til Yiwu þann 27. apríl. Ferðalagið tekur mun styttri tíma en hinar hefðbundnu verslunarsjóleiðir sem taka um einn mánuð og er enn einn áfanginn í „One Belt, One Road“ (OBOR)-innviðaáætlun Kína sem ætlað er að bæta til muna verslunarnetið sem tengir Kína við Evrópu, Mið-Asíu og Miðausturlönd.
Samkvæmt kínverskum stjórnvöldum mun landið fjárfesta um fjórar billjónir bandaríkjadala í þeim sextíu löndum eða svo sem eiga aðild að OBOR-samstarfinu. Þó hún sé ekki að öllu leyti sambærileg má geta þess að Marshall-áætlun Bandaríkjanna sem beindi innviðafjárfestingu til bandamanna þeirra í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld nam um 130 milljarða Bandaríkjadali. OBOR-áætlunin er hornsteinn í utanríkis- og verslunarstefnu Xi Jinping, forseta Kína, og hefur hún tök á því að breyta alþjóðaviðskiptalandslagi heimsins; í dag eru tvö meginverslunarsvæði í heiminum sem tengja Bandaríkin við Evrópu annars vegar yfir Atlantshafið og Asíu hins vegar yfir Kyrrahafið en OBOR-áætlunin mun hafa Kína sem miðdepil.
Yfir sjó og land
Umfang OBOR-áætlunarinnar er gríðarstórt og samanstendur af verslunarneti, samgöngu- og innviðauppbyggingu og auðlinda- og framleiðsluverkefnum. Olíu- og gasleiðslur á milli Kína og fjölmargra Mið-Asíuríkja á borð við Kasakstan og Túrkmenistan, ásamt stækkun leiðslna á milli Kína og Rússlands er ætlað að stórauka aðgengi Kína að orkuauðlindum og gera samtímis Mið-Asíuríki ekki jafn háð Rússlandi til útflutnings. Fjárfestingar í lestarsamgöngum á þvers og kruss um Evrasíu ásamt uppbyggingu af vöruflutningamiðstöðvum á borð við Khorgos á landamærum Kína og Kasakstan er ætlað að gera landflutningar að raunhæfum valkosti við flug- og sjóflutninga og samtímis stuðla að iðnaðaruppbyggingu með fram verslunarleiðunum í löndum sem hafa orðið fyrir barðinu á lágu olíuverði undanfarin ár.
Þá hafa OBOR-fjárfestingar einnig átt sér stað víðar. Fjárfestingar hafa átt sér stað í innviðum í hafnarborginni Piraeus í Grikklandi og bygging háhraðalestarleiða þaðan til Ungverjalands og Þýskalands eru í bígerð. Þá hafa kínverskar fjárfestingar flætt til innviðauppbyggingar í Pakístan í gegnum China-Pakistan Economic Corridor (CPEC)-áætlunina svokölluðu til að auðvelda vöruflutninga til hafnar og þannig draga úr vægi sjóflutninga um Malakkasund. Meðal annarra borga sem nefndar eru sem hluti af OBOR-áætluninni eru Istanbúl, Duisburg, Rotterdam, Feneyjar, Naíróbí, Kólombó og Kúala Lúmpúr. Að svo stöddu er áætlunin tiltölulega óskýr hvað varðar upphæðir og tímaramma enda eru umsvif hennar gríðarleg.
Hvað liggur að baki?
Ástæður OBOR-áætlunarinnar eru margar og eru bæði af efnahagslegum og pólitískum toga. Kínverjar eru aldrandi þjóð þar sem meðalaldur hefur aukist hratt vegna fjölskylduskipulagsstefnu stjórnvalda. Þessi lýðfræðilega þróun samhliða miklum hagvexti setur þrýsting á stjórnvöld til að reyna að auka meðal framleiðslu á íbúa. Ein hugsunin á bakvið OBOR-áætlunina er að færa lágkostnaðarframleiðslu, sem var undirstaða hagvaxtar í Kína í áratugi, til landa þar sem launakostnaður er lægri og einbeta sér að vandaðri framleiðslu innanlands. Einnig hvetja kínversk stjórnvöld fyrirtæki til að fjárfesta erlendis til þess að geta flutt út hluta af yfirframleiðslu landsins á iðnaðarvörum á borð við stál og þungiðnaðarbúnað og minnka vægi innviðafjárfestinga innanlands sem hluta af efnahag landsins með því að flytja út fjármagn til slíkra fjárfestinga.
Þá líta kínversk stjórnvöld á OBOR sem leið til að auka viðskiptavöld sín og ítök sem hluta af utanríkisstefnu landsins. Kína hefur sett á laggirnar fjölmargar stofnanir til að halda utan um fjárveitingar til innviðaverkefna og má þá helst nefna Innviðafjárfestingabanka Asíu (AIIB) – sem Ísland er stofnaðili að – sem settur var á laggirnar í fyrra með eitt hundrað milljarða Bandaríkjadali í stofnfé og Silk Road Fund, sem í eru um fjörutíu milljarðar Bandaríkjadalir. Xi Jinping vonast til að auka andvirði verslunar við OBOR-ríkin um tvær og hálfa billjón á næstu tíu árum og vanda betur kínverskar fjárfestingar erlendis. Þar er verið að miða við innviðafjárfestingar á fyrsta áratug þessarar aldar, sem voru að miklu leyti í Afríku og Suður-Ameríku, og skiluðu oft á tíðum takmörkuðum efnahagslegum og pólitískum ávinningi.
Metnaðurinn á bak við OBOR-áætlunina og Nýja Silkiveginn er mikill og gefur Kína færi á að styrkja stöðu sína enn frekar sem drifkrafts alþjóðaviðskipta og hnattvæðingar, sérstaklega í kjölfar þess að TPP-fríverslunarviðræðurnar sem Bandaríkin áttu við fjölmörg lönd í kringum Kyrrahafið, en þó ekki með Kína, runnu út í sandinn. Fjármagn, innviðakunnátta, efnahagsleg þróun innan Kína, og gífurleg þörf á innviðafjárfestingum í Asíu og Afríku gera það að verkum að OBOR-áætlunin gæti verið lykildrifkraftur í heimshagkerfinu næstu ár og áratugi.