Ísland losaði meira af gróðurhúsalofttegundum árið 2015 en árið 2014. Mesta losunin er frá álframleiðslu og næst mest frá vegasamgöngum. Þetta kemur fram í losunarbókhaldi Íslands sem skilað hefur verið til Sameinuðu þjóðanna.
Útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi jókst um 1,9 prósent á milli ára 2014 og 2015 og hefur útstreymið ekki verið hærra síðan árið 2010.
Útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi hafði aukist um 28 prósent árið 2015 miðað við viðmiðunarárið 1990. Losun frá Íslandi náði hæstu hæðum árið 2008 vegna stóraukinna umsvifa stóriðju hér á landi. Í kjölfar efnahagsþrenginga sama ár og vegna aukinna krafa um föngun kolefnis frá stóriðju dróst losun saman á árunum 2009, 2010 og 2011 en var svo nokkuð svipuð þar eftir.
Sé rýnt í þær breytingar sem orðið hafa síðan 1990 má sjá að iðnaðarframleiðsla ber ábyrgð á rúmlega helmingi aukningarinnar til ársins 2015. Farartæki á landi bera ábyrgð á nærri því fjórðungi aukningarinnar.
Umhverfisstofnun ber ábyrgð á því að taka saman og halda utan um losunarbókhaldið sem íslenskum stjórnvöldum er skylt að skila vegna skuldbindinga Kýótó-bókunarinnar. Seinna skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar svokölluðu hófst árið 2013 og lýkur árið 2020. Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til þess að minnka losun um 20 prósent á tímabilinu. Ísland tekur þar þátt í sameiginlegum markmiðum með aðildarríkjum Evrópusambandsins.
Í nýjustu bókhaldsskýrslunni sem skilað var til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál 13. apríl síðastliðinn er fjallað um losun ársins 2015.
Loftslagsprófíll Íslands
Íslenskt útstreymislandslag er nokkuð óvenjulegt því sem þekkist annars staðar í heiminum og í þeim löndum sem Ísland ber sig vanalega við í efnhagslegum skilningi. Fjórar meginástæður búa þar að baki.
Fyrir það fyrsta þá er losun vegna raforkuframleiðslu og húshitunar á Íslandi verulega lág miðað við löndin á meginlandi Evrópu. Hér fer raforkuframleiðsla að mestu fram með vatnsafls- og háhitavirkjunum og hús eru hituð með jarðhita.
Nærri því 80 prósent útstreymis frá því sem heitir orkugeiri (e. Energy sector) í alþjóðlegum samanburði er frá samgöngum. Þar ber helst að nefna bílaumferð og fiskiskipaflotann sem gengur meira og minna fyrir jarðefnaeldsneyti.
Í þriðja lagi er útstreymi vegna landnotkunar nokkuð mikil hér á landi. Helgast það að mestu af framræslu mýra í sveitum sem og í þéttbýli á seinni helmingi síðustu aldar. Nýlegar rannsóknir sýna að útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna þessara landbreytinga getur verið töluvert og staðið yfir um langt skeið. Skurðgröftur til þess að þurrka upp land var að mestu hætt um 1990.
Talið er að um helmingur alls landræns votlendis hafi verið raskað með framræslu hér á landi. Um 13 prósent þess lands sem hefur verið ræst fram er í notkun, ýmist sem ræktarland eða skóglendi.
Þó ber að hafa í huga að í heildarútblásturstölum er landnotkun yfirleitt undanskilin, nema annað sé tekið fram sérstaklega. Losun vegna landnotkunar og landbreytinga er ríflega tvöföld losun frá öðrum geirum sem tekið er tillit til í bókhaldinu.
Fjórða sérkenni hins íslenska loftslagsprófíls er hversu mikla ábyrgð iðnaðarframleiðsla ber í losunarbókhaldi Íslands. Um 45 prósent allrar losunar, sé landnotkunin undanskilin, má rekja til iðnaðarframleiðslu. Það er jafnframt einkenni á losun frá Íslandi að eitt verkefni getur haft mikil áhrif á heildarlosun á ársgrundvelli.
Ástæða þessa er smæð íslenska hagkerfisins. Eitt mengandi álver til viðbótar í kerfið getur aukið heildarlosun frá Íslandi um meira en 15 prósent, að því er kemur fram í losunarbókhaldi Umhverfisstofnunar.
Ísland þarf að minnka losun
Ísland hefur gengist við enn frekari skuldbindingum eftir árið 2020. Í Parísarsamkomulaginu sem samþykkt hefur verið á Alþingi tekur Ísland áfram þátt í sameiginlegum markmiðum ESB-ríkja. Þar skuldbinda aðildarríkin, ásamt Íslandi og Noregi, til þess að draga úr losun um 40 prósent árið 2030 miðað við árið 1990.
Íslensk stjórnvöld lögðu fram markmið sín í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París árið 2015. Þar er því lýst yfir að Íslendingar ætli að taka á sig „sanngjarnar byrgðar“ (e. fair share) í markmiði ESB. Um þessar sanngjörnu byrgðar verður á endanum samið.
Enn er beðið eftir því að reglugerð Evrópusambandsins um þessi sameiginlegu markmið verði samþykkt. Þangað til er óvíst hver endanleg skuldbinding Íslands í Parísarsamkomulaginu verður. Samkvæmt heimildum Kjarnans er gert ráð fyrir að Ísland muni þurfa að draga úr losun um 35-40 prósent til ársins 2030.
Vegna þátttöku Íslands í sameiginlegum markaði Evrópusambandsins með losunarheimildir fellur um það bil 40 prósent af losun Íslands utan skuldbindinganna. Það þýðir að stjórnvöld hér á landi eru ekki skuldbundin í alþjóðasamningum til þess að draga úr losun frá álframleiðslu, járnblendi, alþjóðaflugi og fleiri geirum samfélagsins.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu Íslands í loftslagsmálum sem kynnt var í febrúar á þessu ári kemur fram að íslensk stjórnvöld þurfa að grípa til róttækra aðgerða ef markmið í loftslagsmálum eiga að nást.