Á undanförnum mánuðum hafa tvö félög, ELL 323 ehf. og S121 ehf., eignast meirihluta í Stoðum, sem áður hét FL Group. Stærsti seljandi þeirra hluta sem félögin tvö hafa verið að kaupa var GlitnirHoldco, eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir Glitnis, banka sem FL Group og tengdir aðilar voru með tögl og haldir í á lokametrum íslenska góðærisins fyrir hrun. Félagið sjálft átti 32 prósent hlut í Glitni. Banka sem lánaði FL Group samstæðunni tugi milljarða króna sem leiddi svo til þess að kröfuhafar bankans eignuðust stærstan hluta í félaginu eftir að það fór í gegnum nauðasamning sumarið 2009.
Félögin tvö sem hafa verið að kaupa hluti í félaginu, sem nú heitir Stoðir, eiga nú ásamt hollenskum fjárfesti sem þau starfa með rúmlega 52 prósent í Stoðum. Stærstu eigendur ELL 323 og S121, sem bæði voru stofnuð á síðustu mánuðum af lögfræðistofum, eru fjögur eignarhaldsfélög og Tryggingafélagið Tryggingamiðstöðin. Eignarhaldsfélögin heita Helgarfell ehf., Esjuborg ehf, Einir ehf. og GGH ehf.
Og eigendur þeirra, eða helstu stjórnendur, eru að mestu leyti menn sem gegndu lykilhlutverkum í FL Group fyrir hrun.
Refresco eina eignin sem er eftir í Stoðum
Stoðum hefur gengið vel að selja eftirstandandi eignir sínar á undanförnum árum og greiða andvirði þeirra út til hluthafa sinna, Þ.e. fyrrverandi kröfuhafa sem breyttu kröfum sínum í hlutabréf í Stoðum, Hagnaður félagsins á tímabilinu 2010-2016 nam 36 milljörðum króna og alls hafa 57 milljarðar króna verið greiddir út til fyrrverandi kröfuhafa Stoða. Þótt það hljómi sem gríðarlega há upphæð þá nær hún ekki yfir nema hluta þess tjóns sem lánveitendur FL Group/Stoða urðu fyrir þegar félagið komst í greiðsluþrot. Samkvæmt fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér snemma í apríl 2009, þegar það óskaði eftir heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna, kom fram að skuldir væru áætlaðar um 287 milljarðar króna og að eignir þess væru áætlaðar um 25-30 prósent af andvirði skulda. Því töpuðu kröfuhafar Stoða ævintýralegum fjárhæðum á lánveitingum til félagsins.
Í Stoðum í dag er einungis eftir ein eign, 8.87 prósent hlutur í hollenska drykkjavöruframleiðandann Refresco. Markaðsvirði þess hlutar er um 15 milljarðar króna. Og það markaðsvirði hefur hækkað mikið á undanförnum mánuðum. Frá áramótum hefur það hækkað um 24 prósent, eða um þrjá milljarða króna.
Ekki hafa fengist upplýsingar um hvenær hópurinn sem nú á meirihluta í Stoðum hóf uppkaup sín á bréfum, hvað hann greiddi fyrir hlutinn né hvernig þau kaup voru fjármögnuð.
Gamlir lykilleikmenn úr FL Group kaupa í Stoðum
Félögin fjögur sem eiga ELL 323 og S121 með Tryggingamiðstöðinni heita Helgarfell ehf., Esjuborg ehf., Einir ehf. og GGH ehf. Þrjú þeirra, eru í eigu aðila sem eru líka stórir hluthafar í Tryggingarmiðstöðinni.
Esjuborg er í 50 prósent eigu félags sem heitir Jöklaborg. Það er skráð í 100 prósent eigu Jóhanns Arnars Þórarinssonar, forstjóra og eins stærsta eiganda veitingarisans Foodco. Hinn helmingurinn í Esjuborg er í eig Riverside Capital SARL, félags sem er skráð í Lúxemborg. Samkvæmt Panamaskjölunum er það félag í endanlegri eigu Fortown Corp, félags skráð á Möltu. Eigandi þess félags er Örvar Kærnested. Riverside Capital á líka 2,63 prósent hlut í Tryggingamiðstöðinni í gegnum íslenska félagið Riverside Capital ehf. Hann situr einnig í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar. Örvar var yfir starfsemi FL Group í London um tíma fyrir bankahrun og þar áður hjá Kaupþingi í níu ár. Hann er nú umsvifamikill fjárfestir. Hann settist í stjórn Stoða á síðasta aðalfundi félagsins, se fór fram 21. apríl síðastliðinn.
Einar Örn Ólafsson er líka á meðal eigenda Tryggingamiðstöðvarinnar. Hann á 2,76 prósent hlut í henni í gegnum félag sitt Einir ehf. Það félag er líka á meðal þeirra sem náð hafa yfirráðum í Stoðum. Einar starfaði hjá Glitni og síðar Íslandsbanka á árum áður. Hann var meðal annars forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka fyrstu mánuðina eftir að bankinn var endurreistur eftir hrunið. Hann gerðist síðan forstjóri Skeljungs í maí 2009 eftir að hafa hætt hjá bankanum vegna trúnaðarbrests. Í kjölfar ráðningar Einars lét Íslandsbanki óháðan aðila rannsaka sölu bankans á ráðandi hlut í Skeljungi, sem Einar hafði séð um, því bankinn vildi ganga úr skugga um að eðlilega hefði verið staðið að sölunni. Þessi rannsókn virðist ekki hafa leitt neitt óeðlilegt í ljós. Bankinn greip að minnsta kosti ekki til neinna aðgerða gegn nýjum eigendum Skeljungs né Einari sjálfum. Hann er í dag umsvifamikill fjárfestir.
Stærsti einstaki eigandi að hlutum í Tryggingamiðstöðinni, að undanskildum lífeyrissjóðum og sjóðs í stýringu Stefnis, er félag sem heitir Helgarfell ehf. með 6.34 prósent hlut. Helgarfell er líka á meðal þeirra félaga sem keyptu stóran hlut í Stoðum með Tryggingarmiðstöðinni á síðustu mánuðum.
Eigendur Helgarfells eru Björg Fenger, Kristín Fenger Vermundsdóttir og Ari Fenger. Björg er eiginkona Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group/Stoða. Jón tók við sem stjórnarformaður Stoða á síðasta aðalfundi félagsins fyrir tæpum mánuði síðan.
Fjórða félagið sem er stór eigandi í ELL 323 og S121 heitir GGH ehf. Eigendur þess eru Gruppen ehf. (í eigu hollenska félagsins Golden Gate Management BV, sem tengist Magnúsi Ármann), Ágúst Már Ármann (faðir Magnúsar Ármann), og BNB Consulting (félag í eigu Bernhards Bogasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra lögfræðissviðs FL Group) sem á eitt prósent hlut. Magnús Ármann var á meðal hluthafa í FL Group fyrir hrun og sat í stjórn félagsins.
Samstarfsaðili hópsins er félagið Tavira Securities sem er í eigu óþekkts hollensk fjárfestis.
Félögin sem notuð voru til að kaupa hluti í Stoðum hafa þegar skipt um stjórnir. Í S121 er Gunnar Sturluson lögmaður í stjórn. Hann var lengi vel náinn samstarfsmaður Hannesar Smárasonar, fyrrverandi forstjóra FL Group, var lögmaður hans, sat í stjórnum og var skráður framkvæmdastjóri félaga í eigu Hannesar. Gunnar er líka í stjórn ELL 323. Þar situr hann ásamt Þorsteini M. Jónssyni, sem á árum áður var oftast kenndur við kók. Þorsteinn átti hlut í FL Group fyrir bankahrunið, sat í stjórn félagsins og tók við sem stjórnarformaður Glitnis um tíma eftir að FL Group og tengdir aðilar náðu yfirráðum yfir bankanum.
Veita ekki upplýsingar um söluverðið
Líkt og áður sagði er eina eftirstandandi eign Stoða 8,87 prósent hlutur í Refresco. Bæði Jón Sigurðsson og Þorsteinn M. Jónsson hafa setið í stjórn Refresco fyrir hönd íslenskra eigenda. Jón situr þar raunar enn og hefur gert frá 2009.
Í apríl gerði félagið PAI Partners SAS, sem er fjárfestingafélag sem einblínir á Evrópumarkað, yfirtökutilboð í Refresco. Tilboðið var upp á 1,4 milljarða evra. Samkvæmt því tilboði myndu Stoðir fá 14,4 milljarða króna fyrir sinn hlut. Það er aðeins minna en skráð markaðsvirði Refresco en umtalsvert meira en þeir 12 milljarðar króna sem hluturinn var metinn á í ársreikningi Stoða fyrir árið 2016.
Tilboðinu var hins vegar hafnað og Bloomberg greindi frá því í lok apríl að von væri á nýju yfirtökutilboði sem gæti hljóðað upp á 1,62 milljarða evra. Það myndi þýða að hlutur Stoða væri metinn á 16,7 milljarða króna, eða tæplega 40 prósent meira en hann var bókfærður á í lok síðasta árs.
GlitniHoldco hefur ekki viljað veita upplýsingar um hvert söluverðið var á 40,28 prósent hlut þess í Stoðum né hvenær hluturinn var nákvæmlega seldur. Því er ekki hægt að slá neinu föstu um hver ávinningur nýju eigendanna er af kaupunum á meðan að svo er. En sé hann í takti við hækkanir á bréfum Refresco á markaði, og það gengi sem rætt er um í nýju yfirtökutilboði, er ljóst að þeir munu hagnast um milljarða króna.