Eignarréttur og nýtingarréttur á sameiginlegum auðlindum landans hafa gjarnan verið þrætuepli milli skoðanafylkinga. Íslendingar deila um hverjir eigi í raun fiskinn í sjónum, fjöllin, árnar og fossana og hverjir hafi afnotarétt af þessum gersemum. Á Íslandi er gnægð ríkulegra auðlinda og því eru hagsmunir miklir og er vatnið engin undantekning þar. Sátt er um að Íslendingar þurfi á sérstökum vatnalögum að halda þrátt fyrir að útfærslan liggi ekki alltaf í augum uppi.
Um þetta er fjallað í sérstökum kafla um vatnalög og siðfræði vatns í umfjöllun um vatn hér á Kjarnanum.
Svandís Svavarsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi umhverfisráðherra, segir að margar ástæður séu fyrir því að hafa sérstök vatnalög. „Vatn er náttúrulega, eins og margir tala um, upphaf og endir alls en um leið eru mjög miklir hagsmunir sem tengjast vatni. Það er bæði orka og alls kyns notkun sem landbúnaður nýtir sér og byggir á. Þannig að einhvern veginn þarf almannavaldið eða samfélagið sem slíkt að búa til ramma hvernig þessi nýting eigi sér stað,“ segir hún. Hún telur að Íslendingar þurfi að koma sér saman um hvernig haldið sé utan um vatnsauðlindina vegna þess að þrátt fyrir að mikið sé um lindir og uppsprettur á Íslandi þá megi ekki ganga að vatninu sem vísu.
Þörf á nýjum lögum á nýjum tímum
Fyrstu vatnalög á Íslandi voru sett árið 1923 eða fyrir 94 árum. Þá voru aðrir tímar og taka lögin mið af því bændasamfélagi sem var til staðar á þeim tíma. Lögin voru upphaflega heildarlöggjöf um vatn og tóku meðal annars til vatnsnýtingar, vatnsréttinda, framkvæmda við vötn, vatnsverndar, umferðar um vötn og lax- og silungsveiði.
Mikið er fjallað um vatnsréttindi landeigenda og segir í Hvítbók náttúruverndar, sem unnin var fyrir Umhverfisráðuneytið árið 2011, að á þeim langa tíma sem liðinn sé síðan lögin voru sett hafi nýtingarmöguleikar aukist til muna og vatnaframkvæmdir feli gjarnan í sér mikið inngrip í náttúrulegt vatnafar með tilheyrandi áhrifum á lífríki og ásýnd umhverfisins.
Nefndar eru sem dæmi stórar virkjanaframkvæmdir með vatnsmiðlun og umfangsmiklum vatnaflutningum milli vatnasvæða. Bent er á að vatnsnotkun hafi aukist og enda þótt Ísland sé auðugt af vatni sé álag á vatnasvæði sums staðar orðið umtalsvert. Einnig er tekið fram að mjög hafi verið gengið á votlendissvæði landsins með framræslu. Eftir áralanga vinnu við gerð nýrra frumvarpa á árunum 2001 til 2011 voru ný vatnalög samþykkt vorið 2011 á Alþingi og gilda þau enn í dag.
Þarf að bregðast við í tæka tíð
Svandís telur mikilvægt af farið sé eftir Evrópulöggjöf um vatnatilskipunina. „Hún er vatnsverndarlöggjöf sem snýst í raun og veru um það að halda utan um vöktun á vatni og vatnsgæðum. Og passa upp á það að gæðin dvíni ekki í raun og veru milli tímabila,“ segir hún. Þannig þurfi Íslendingar að vita nákvæmlega hvar verndarsvæðin séu, hvernig verndinni sé háttað og að tryggja meðvitund almennings og umgengni atvinnulífsins við vatnið. „Þannig erum við að tryggja sjálfbærni til framtíðar og ekki að ganga á rétt komandi kynslóða til þess að njóta vatnsins um ókomna tíð,“ bætir hún við.
Svandís telur að í raun og veru sé mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að bregðast við áður en þeir sitji uppi með einhvers konar vandamál en segir að það sé hugsanlega ekki hefðbundin röð athafna á Íslandi.
„Við erum vön að bregðast við þegar allt er komið í steik. En með vatnatilskipuninni erum við komin með kortlagningu og yfirsýn yfir það hversu aðgengilegt vatnið er og hver gæði þess eru og svo framvegis. Þannig að vöktunin er í raun aðalatriðið til þess að við vitum nákvæmlega hvað við erum með í höndunum,“ segir hún og bætir við að oft vanti upp á kortlagningu á íslenskri náttúru. Það gildi ekki bara um vatnið heldur einnig um jarðminjar og um vistkerfin, gróðurinn og lífríkið. Hún telur að Íslendingar viti í raun og veru ekki nóg um landið sitt.
„Við höldum að við vitum allt en það er ekki þannig og vatnið tengist í raun og veru öllum vistkerfunum. Það er því partur af því að við þurfum að vita hver staða þess er á hverjum tíma á hverjum stað,“ segir hún.
Svandís segir að eignarréttur þurfi að vera algjörlega skýr í lögunum, það er hagsmunir hvers séu í fyrirrúmi. „Ég hef almennt mjög miklar áhyggjur af eignarréttarhugmyndinni í allri umræðu um íslenska náttúru, ekki bara um vatnið heldur um náttúruna yfirleitt. Við breytingu núna síðast á náttúruverndarlögunum þá tókst ekki að breyta því ákvæði sem lítur að eignarréttinum sem er mjög sterkur í íslenskum rétti. Þar hefði ég viljað stíga skýrari skref í áttina að almannaréttinum,“ segir hún og telur að lykilatriðið sé að auðlindir eigi að vera í þágu heildarinnar.
Iðulega vantar fjármagn
Svandís segist ekki átta sig á því hvort núverandi vatnalög séu fullnægjandi í framkvæmdinni. „Vandinn með löggjöf er að löggjafinn er með skýra hugmynd um það hvernig hann vill að samfélagið líti út. En síðan þegar kemur að framkvæmdinni þá skortir oft fjármagn og fólk og eftirlit til þess að framfylgja henni,“ segir hún. Hugsanlega eigi þetta við um vatnsverndarlöggjöfina, þar sem gert sé ráð fyrir mjög stífri kortlagningu á gæðum vatns og áætlunum. En hún segir að fjármagn þurfi til þess að framfylgja löggjöfinni og að vandkvæðum hafi verið bundið að fjármagna tilskipunina til fulls.
Fyrstu árin var innleiðing vatnatilskipunar fjármögnuð beint úr ríkissjóði en samkvæmt Evróputilskipuninni þá á að nýta gjaldtöku til þess að fjármagna eftirlitið. Kröfur eru um að atvinnulífið, fyrirtæki og hagsmunaaðilar taki þátt í fjármögnun tilskipunarinnar, til dæmis fiskeldi sem notar gríðarlega mikið vatn. Svandís segir að mikil tregða sé í íslensku atvinnulífi að taka þátt í slíkri fjármögnun og að stjórnvöld hafi ekki haft pólitískt þrek í að klára þetta. Vegna þess að ekki gengur að fá atvinnulífið með í þá fjármögnun þá telur hún að ríkissjóður eigi að sjá um hana enda sé ekki um miklar fjárhæðir að ræða. „Mér finnst óverjandi að þetta falli niður vegna þess að það er ekki hægt að fjármagna þetta. Þetta eru slík verðmæti að það verður að gera það,“ segir hún. En kannski þurfi Íslendingar fyrst og fremst að verða meðvitaðari og ekki taka vatninu sem gefnu.
Vatn verðmæti í sjálfu sér
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og skáld, telur að mikilvægt sé fyrir Íslendinga að hafa útópískar hugmyndir og fráleita drauma að leiðarljósi. Það er að segja ef þessir draumar snúist um samvinnu og virðingu fyrir mannlífi og náttúru og umhyggju og ást gagnvart jörðinni. Hann telur að Íslendingar verði að átta sig á því að vatn sé verðmætt í sjálfu sér. Það sé ekki bara verðmætt vegna þess að hægt er að selja það, sýna það ferðamönnum eða að virkja það. Hann bendir á að vatn sé sjálf forsenda lífsins því þar sem er vatn þar er líf. „Og við þurfum að fara að gera okkur grein fyrir því að við getum ekki farið að láta skammsýn nytjasjónarmið ráða eingöngu umgengni okkar við vatnið og yfirleitt bara við náttúruna,“ segir hann.
Hægt er að lesa nánar um stöðu vatns á Íslandi í
umfjöllun Kjarnans „Bláa gullið“.