Sérfræðingar virðast flestir vera sammála um að fráveitumálum og skólphreinsun sé ábótavant í mörgum sveitarfélögum á Íslandi. Þrátt fyrir reglugerðir og lög hvernig fráveitumálum eigi að vera háttað er pottur brotinn víða varðandi þau málefni. Eitt brýnasta málið, tengt mengun vegna frárennslis, er svokallað örplast sem rennur með skólpi og fráveituvatni út í sjóinn óhindrað. Fleiri þættir hafa áhrif á mengun og mætti nefna aukna ferðamennsku, stóriðju og ofanvatnsmengun.
Fremur reglan en undantekningin að þéttbýli hunsi reglur
Tryggvi Þórðarson, vatnavistfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að það sé fremur reglan en undantekningin að þéttbýli á landinu hafi ekki uppfyllt lög og reglugerð um fráveitur og skóp þó að þau hefðu átt að vera búin að því í síðasta lagi árið 2005 en þá rann út síðasti fresturinn.
Tryggvi segir að nauðsynlegar framkvæmdir séu dýrar og til dæmis sé venjulegt að veitukerfið sé einungis tvöfaldað um leið og verið sé að taka upp einhverja götuna og endurnýja í henni. Hann telur að miðað við þróunina hingað til muni líklegast taka einhverja áratugi fyrir sveitarfélögin að framfylgja kröfum laga og reglugerðar að fullu.
Að sögn Tryggva eru áhrif mengunar af völdum skólps misjöfn eftir því hversu viðkvæmur staðurinn í náttúrunni sem skólpið er leitt út í er. Hann segir að mengunin fari líka eftir fjölda íbúaígilda eða svokölluðum persónueiningum sem geta verið talsvert fleiri en íbúarnir. Magn mengunarefnanna er metið út frá persónueiningum en ein persónueining jafngildir því sem einn maður lætur frá sér á einum sólarhring. Hann bendir á að vegna atvinnurekstrar sé oft tvö til þrefalt meira af persónueiningum en íbúum.
Einnig eru bakteríur í skólpinu sem hafa ekki bein áhrif á vistkerfið en segja aðallega til um smithættu. Tryggvi segir að kröfur séu um að saurbakteríur þurfi að vera undir ákveðnum mörkum í vatni eftir losun. Kerfið sé viðkvæmast fyrir mengun af völdum næringarefna, þ.e. áburðarefna eða lífræns efnis. Ein helsta mengunin af völdum þessara efna er skólpmengun og telur hann að þörf sé á úrbótum í þeim málum.
Ferðamennska eykur álag á kerfið
Fleiri þættir spila inn í skólpmengun og einn þeirra er fjölgun ferðamanna. Samkvæmt Ferðamálastofu komu tæplega 1.800.000 ferðamenn til landsins á síðasta ári og jókst um 39 prósent frá árinu áður en ekkert lát virðist vera á þeirri fjölgun. Einn ferðamaður sem dvelur á Íslandi er eins og einn íbúi eða ein persónueining; sama mengun kemur frá honum og venjulegum íbúa. Tryggvi segir að ferðamennskan auki álagið á staðinn í náttúrunni þar sem skólpið er leitt út í og á hreinsistöðvarnar. Hann segir að hreinsistöðvarnar nái aldrei nema hluta af menguninni, mismikið eftir því hvort um eins þreps, tveggja þrepa eða ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa er að ræða. Öll umframmengun sem hreinsibúnaðurinn ræður ekki við sleppi því í gegn og komist út í umhverfið.
Annar þáttur sem Tryggvi bendir á í sambandi við vanda með kerfið er vatnsnotkun hjá almenningi. „Ef ekki er hugsað um þetta og ef verið er að fara ósparlega með vatn og það notað í of miklu magni þá kostar það stærri leiðslur. Bæði vatnsleiðslur þar sem þarf að leiða vatnið inn í borgina og bæina og eins í lögnunum fyrir frárennsli,“ segir hann. Kostnaður sé gríðarlegur í stórum hreinsistöðvum en sá kostnaður miðist við vatnsmagnið en ekki beint mengun vatnsins. Hann segir að þannig aukist umfangið vegna aukavatns á öllum búnaði bæði í lögnum og í hreinsibúnaði sé hann til staðar.
Örplast fer beint út í sjó
Sumarið 2016 vann MATÍS skýrslu um losun örplasts með skólpi í samstarfi við Sænsku umhverfisrannsóknarstofnunina (IVL), Finnsku umhverfisstofnunina (SYKE) og Aalto-háskólann í Finnlandi. Rannsakað var hvort skólphreinsistöðvar væru gátt fyrir öragnir út í umhverfið. Plastagnir myndast með tvenns konar hætti, annars vegar með niðurbroti af stærra plasti og hins vegar geta þetta verið öragnir sem notaðar eru í til dæmis snyrtivörur. Að mati sérfræðinga ógna þær lífríki hafsins en í skýrslunni er greint frá því að eina hreinsunin sem framkvæmd er á Íslandi, meðal annars í Klettagarðastöðinni og skólphreinsistöðinni í Hafnarfirði, sé grófsíun. Agnir sem eru minni en millimetri og niður í hundrað míkrómetra fara gegnum stöðvarnar og út í umhverfið. Annað er upp á teningnum í Svíþjóð og Finnlandi þar sem 99 prósent öragna setjast í óhreinindin sem skiljast frá fráveituvatni eftir forhreinsun. Ljóst er því að úrbóta er þörf í hreinsistöðvum á Íslandi.
Hrönn Jörundsdóttir, sviðsstjóri og sérfræðingur hjá MATÍS, vann að skýrslunni en hún segir að rannsóknir á örplasti séu tiltölulegar nýjar af nálinni og því sé enn verið að bæta við þekkinguna á þessu sviði. Áhrif stærra plasts sé augljósara og þess vegna sé örplastið lúmskara ef svo mætti að orði komast og smæð þess því sérstakt áhyggjuefni. Hún segir að örplast sé talið hafa tvenns konar áhrif á umhverfið. Í fyrsta lagi inniheldur plast fjölda óæskilegra efna. Mikið af efnasamböndum séu í plasti, eins og mýkingarefni og litarefni, sólarvörn og svo framvegis, sem geta lekið úr því. Það geti gerst inni í líkama dýranna og þá séu mengandi efnin komin inn í fæðukeðju okkar. Plast sé í eðli sínu feitt efni og mengun í sjónum sem er fitusækin sæki í plastið. Það dragi í raun í sig mengandi efni úr sjónum sem geti losnað þegar þau koma inn í líkamann.
Vandamálið hverfur ekki
Í öðru lagi segir hún að áhrifa gæti sem minna hafa verið rannsökuð og vitað er um. Hrönn segir að hugsanlega hafi plastögnin sjálf áhrif á lífverur. Þegar plastögnin sé orðin mjög lítil þá getur hún mögulega komist yfir þarmaveggina, út úr þörmunum og inn í blóðrásina. Og þegar hún sé farin að flakka um líkamann með blóðrásinni þá geti hún komist hvert sem er. Ekki er vitað um áhrifin af því, að sögn Hrannar, og erfitt að meta.
Hrönn segir að Íslendingar verði að hugsa skólphreinsun upp á nýtt og fara að taka ábyrgð á þessum hlutum. Ekki sé einungis mikilvægt að huga að lífrænni mengun heldur verði að skilja að plastagnir og lyfjaleifar komi úr skólpinu sem fer út í sjó og menga út frá sér. Plastið brotni ekki niður og því hverfi vandamálið ekki þrátt fyrir að því sé dælt út í sjó.
Hægt er að lesa nánar um stöðu vatns á Íslandi í umfjöllun Kjarnans „Bláa gullið“.