Íslendingar geta stært sig af góðu vatni en 97 prósent drykkjarvatns á Íslandi er grunnvatn. Þess vegna er eftirlit töluvert, til dæmis á vegum Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna, Veðurstofunnar og fleiri stofnana.
Veðurstofan fylgist með álagsþáttum á grunnvatn og heilbrigðiseftirlitin með gæði neysluvatns. Grunnvatni stafar í heild ekki mikil hætta af búsetu og athöfnum mannsins en þó er vatnstaka í talsverðum tilfellum umtalsverður álagsþáttur. Helst fylgir mengun búsetu fólks og eru staðbundin áhrif af henni á stöku stað. Fá dæmi sýna fram á að landbúnaður, og landnotkun tengt honum, hafi mikil áhrif á gæði grunnvatns.
Ekki má vanmeta áhrif orkuvinnslu á grunnvatn, hvort sem um er að ræða nýtingu háhita eða vatnsaflsvikjanir. Myndun uppistöðulóna hefur umtalsverð áhrif á grunnvatnsstöðu. Almennt séð verður að gæta þessarar auðlindar vel enda er um mjög sérstakt fyrirbrigði að ræða sem á fáa sína líka í heiminum. Þetta kemur fram í greinargerð um álagsþætti á gunnvatn.
Nánast allt neysluvatn Íslendinga grunnvatn
Grunnvatn er gríðarlega mikilvægt fyrir líf í náttúru Íslands og fyrir daglegt líf fólks. Davíð Egilson, hópstjóri vatnarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, segir að fyrir því séu fjórar meginástæður. Í fyrsta lagi beri að nefna drykkjarvatn í því samhengi. Drykkjarvatn Íslendinga sé að langstærstum hluta grunnvatn en slíkt vatn sé að mestu leyti úrkoma og leysingarvatn sem sigið hefur niður í jörðina. Jarðlögin sem það rennur um á leið sinni síi úr því óhreinindin og sé það því alla jafna ferskt og ómengað.
Í öðru lagi segir Davíð grunnvatnið skipta máli vegna orkunýtingar. Framleiðsla orku þurfi að uppfylla þarfir notenda. Rennsli drag- og jökuláa sé mjög breytilegt eftir árstíðum. Það sé mest á vorin og sumrin og oft sé lítið vatn á vetrum þegar mikil þörf er á raforku. Þess vegna þurfi að byggja uppistöðulón eins og til dæmis Hálslón til að miðla rennslinu. Grunnvatnið og lindirnar séu hins vegar stöðugar yfir árið. Þess vegna þurfi mun minna að miðla og hægt sé að nýta rennandi vatnið eins og það er.
Í þriðja lagi segir hann að grunnvatn sé stundum eins konar orkuberi. Grunnvatni sé dælt upp við Svartsengi, Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun til að breyta sjóðandi gufu yfir í heitt vatn sem veitt er til neytenda. Í fjórða lagi, sem er afar mikilvægt fyrir mjög marga, snúist þetta um náttúruvernd vegna þess að lindasvæðin séu víða fallegustu svæðin á landinu, órofa tengd kyrrð og ósnortnu umhverfi.
Samkvæmt greinargerð um álagsþætti á grunnvatn sem unnin var á vegum Veðurstofu Íslands renna um 5.000 rúmmetrar af vatni á sekúndu af landinu og þar af um 1.000 rúmmetrar af grunnvatni. Stærsti hluti grunnvatnsins, eða um 600 rúmmetrar á sekúndu, kemur fram sem lindarvatn á hálendinu og sameinast jökul- og dragám þar. Afgangurinn, um 400 rúmmetrar á sekúndu, kemur fram í lindum á láglendinu.
Jöklarnir forðabú fyrir grunnvatn
Yngstu jarðlögin sem eru að mestu bundin við eldvirka beltið eru gropnust og þar á vatn auðveldara með að hripa niður og mynda grunnvatn en þar sem bergið er eldra og þéttara eins og á Aust- og Vestfjörðum og Mið-Norðurlandi. Grunnvatnsöflun á eldvirknibeltinu er því til þess að gera auðveld. Víða er hins vegar nokkrum vandkvæðum bundið að ná í lindarvatn á eldra berginu. Sums staðar er það þó hægt með því að leita í stórar jarðvegsskriður, áreyrar eða sprungur til að fá grunnvatn og í einstaka tilfelli þarf að nota yfirborðsvatn. Íslendingar eru afar vel settir þar sem 97 prósent af neysluvatni þeirra er grunnvatn.
Davíð segir að lega landsins skipti verulegu máli varðandi úrkomu og þar af leiðandi afrennsli. Mikinn raka reki yfir landið vegna þeirra tveggja sjávarstrauma sem liggja að landinu. Hann segir að jöklarnir séu eins konar forðabú fyrir afrennsli og þar með talið grunnvatn. Við hlýnandi loftslag minnki jöklar og tímabundin aukning verði á afrennsli meðan leysingin varir. Eftir það muni draga úr afrennsli af landinu.
Hann segir að forspá veðurfarslíkana bendi til þess að úrkoma verði um 6.000 rúmmetrar á sekúndu árið 2100 vegna loftlagsbreytinga. Jöklarnir muni bráðna meira og hlýrra verði í veðri. Hins vegar sé mun erfiðara að segja til um víðtækari áhrif eins og öfgar í veðurfari eða breytingu á sjávarstraumum sem gætu haft afgerandi áhrif á líf í landinu.
Tvö grunnvatnshlot í hættu
Árið 2013 kom út Stöðuskýrsla vatns á Íslandi þar sem könnuð var mengun í íslenskum vötnum. Skýrslan er einn hluti innleiðingar vatnatilskipunar Evrópusambandsins og laga um stjórn vatnamála. Talað er um sérstök grunnvatnshlot en það er afmörkuð stjórnunareining fyrir grunnvatn samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Þar kemur fram að tvö grunnvatnshlot eru metin í hættu á að standast ekki umhverfismarkmið um gott ástand. Þau eru Rosmhvalanes á Suðurnesjum, stundum kallað Miðnes, og Tjörnin í Reykjavík.
Á Suðurnesjum hefur orðið mengun á grunnvatni vegna úrgangs og umsvifa á flugvellinum og ekki er búið að uppræta þá mengun enn þrátt fyrir að hún hafi minnkað sums staðar. Á mörgum stöðum á landinu ríkir óvissa varðandi mengun og stafar hún af margs konar ástæðum, svo sem vegna óhreinsaðs skólps, hugsanlegs leka mengunarefna, hættu á uppsöfnun efna vegna fiskeldis, efnamengunar vegna losunar affallsvatns frá jarðvarmavirkjunum eða þegar mæli- og rannsóknargögn vantar.
Neysluvatn lakara hjá minni veitum
Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands, hefur undanfarin ár unnið í málum tengdum sjálfbærni en hún er menntuð í jarðefnafræði og jarðvísindum. Hún segir að staðan á Íslandi sé góð varðandi vatn því landsmenn séu heppnir að hér rignir og snjóar mikið þannig að á flestum stöðum á landinu sé vatn ekki beint vandamál. Hún nefnir sérstaklega Reykjavíkursvæðið þar sem fólk fær allt þetta mikla og góða vatn úr Bláfjöllunum yfir í Gvendarbrunna þar sem vatnið er tekið. Hún bendir á að drykkjarvatn á svæðinu sé því mjög gott.
Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna sjá um að mæla gæði neysluvatns á hverjum stað fyrir sig. Í svari við fyrirspurn til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kemur fram að í reglubundnu eftirliti séu tekin yfir 100 sýni úr vatnsbólum og dreifikerfinu sem síðan eru rannsökuð samkvæmt reglugerð um neysluvatn frá árinu 2001. Matvælastofnun sér um að safna upplýsingum saman um gæði neysluvatns en síðustu eftirlitsniðurstöður komu út í mars 2015 fyrir árin 2002-2012. Þar kemur fram að samantekt niðurstaðna fyrir þetta tímabil sýni að örveruástand sé í flestum tilfellum mjög gott hjá stærri vatnsveitum en lakara hjá minni veitum sem þjóna færri en 500 íbúum. Þá sé efnafræðilegt ástand neysluvatns á landinu almennt mjög gott og sjaldgæft að eiturefni greinist í vatninu.
Heildarúttektir, sem bæði ná yfir örveruástand og efnainnihald, eru flestar frá vatnsveitum sem þjóna fleiri en 500 íbúum og uppfylla veiturnar í nær öllum tilvikum kröfur neysluvatnsreglugerðar samkvæmt niðurstöðum. Við reglubundið eftirlit á árunum 2010 til 2012 greindist E.coli í innan við 1 prósent sýna hjá vatnsveitum sem þjóna fleirum en 500 manns. Hins vegar greindist E.coli í 6,5 prósent sýna frá vatnsveitum sem þjóna 500 íbúum eða færri. Segir í samantekt niðurstaðnanna að lakast hafi ástandið verið á Austurlandi og Vestfjörðum, þar sem mun erfiðara sé að nálgast grunnvatn en í öðrum landshlutum. Þá skýrist munurinn milli stærri og minni vatnsveitna meðal annars af miklum fjölda lítilla einkaveitna til sveita, þar sem frágangi vatnsbóla er enn ábótavant. Samkvæmt Matvælastofnun stendur til að gefa út nýja samantekt næsta haust eða í byrjun næsta árs.
En þrátt fyrir gott neysluvatn hefur Kristín Vala áhyggjur af áherslum Íslendinga undanfarna áratugi í sambandi við náttúruna en hún telur að sú stefna sem felur í sér að nýta náttúruna, veiða fiskinn úr sjónum, virkja árnar og jarðhitakerfin til að framleiða orku sé ekki heilladrjúg. Hún telur að Íslendingar ættu að hlúa mun betur að náttúrunni.
Hún segir að á nokkrum svæðum þurfi að vanda vel til verka og varast að ofnýta vatnið. Þetta séu svæði við sjó og á nesjum, til dæmis á Reykjanesi og Snæfellsnesi og víðar, en hún bendir á að á þessum svæðum sé aðeins þunn grunnvatnslinsa ofan á saltvatninu.
Hægt er að lesa nánar um stöðu vatns á Íslandi í umfjöllun Kjarnans „Bláa gullið“.