„Það er eitthvað að gerast í Seattle.“
Þannig hóf tónlistarritstjóri Seattle Times, Patrick McDonald, grein sem hann skrifaði árið 1991, fyrir 26 árum. Hann var að reyna að koma því í orð sem hann sá vera að gerast á tónleikastöðum borgarinnar. Eitthvað sem erfitt var að lýsa.
Allt var á iði í borginni, ekki síst í vesturhluta hennar þar sem bílskúrsbönd héldu tónleika ótt og títt, plötubúðir blómstruðu og hópur ungs fólks hélt partýinu gangandi eins lengi og þurfti. Og helst lengur.
Bylgja skall á heiminum
Sjónvarpsstöðin MTV mætti á svæðið og yfir heiminn bárust fljótlega myndbrot af ótrúlegri stemmningu og gæðarokki sem ekki hafði sést áður í Bandaríkjunum. Þarna var eitthvað alveg nýtt á ferðinni. Ferskt, vandað, hrátt.
Rokkstormur var skollinn á og hann var að fara yfir heiminn. Saga þessa storms hefur verið krufin frá ýmsum hliðum í bókum og heimildarmyndum, þáttum og blaðagreinum.
Í þeim er því miður einn rauður þráður sem er sameiginlegur. Dauðinn hefur verið áhrifamestur.
Eftir rússíbanareið og 33 ára feril sem söngvari og lagasmiður, fannst einn af frumherjum þessa tímabils, Chris Cornell, látinn inn á baðherbergi á hóteli í Detroit, síðastliðið miðvikudagskvöld. Lögreglan staðfesti í gær að dánarorsök hefði verið henging og að allt benti til sjálfsvígs. Hann var fæddur í Seattle og einn dáðasti sonur borgarinnar.
Eftir situr rokkheimurinn fátækari.
Saga Cornell og Seattle-rokksins (grunge) er þyrnum stráð og með ólíkindum.
Boltinn byrjar að rúlla
Árið 1984 ákváðu fjórir ungir menn að stofna hljómsveit upp úr eftirstöðvunum af annari sem bar nafnið The Shemps. Nafn þessarar nýju sveitar var Soundgarden og í fararbroddi var 17 ára gamall piltur, Chris Cornell. Hann sýndi strax að hann var bæði óvenjulegur söngvari og gríðarlega hæfileikaríkur. Fór upp á háa c-ið, og hélt sér þar. Lengi. Á sama tíma hentist hárið til og frá og meðlimir hlupu eins og óðir væru á sviðinu.
Jonathan Poneman og Bruce Pavitt, tveir þeirra sem gerðu sér fljótt grein fyrir því að eitthvað stórkostlegt var að gerast í Seattle, sömdu um útgáfurétt á efni Soundgarden árið 1987, og fór þá boltinn að rúlla hratt hjá sveitinni.
Herbergisfélagi Cornell á þessum tíma, í leiguíbúð í Seattle, var ungur maður, Andy Wood að nafni. Hann var mikill miðpunktur í því sem var að gerast í Seattle. Þótti hæfileikaríkastur allra og var líka sá sem fór alltaf síðast heim úr partýunum. Á þessum tíma voru bæði Cornell og Wood á kafi í fíkniefnaneyslu og flutu áfram á eigin hæfileikum, meðfæddum metnaði og skjótfenginni frægð. Þeir héldu meðal annars mikið til við Easy Street Records plötubúðina, sem tengist þessum áhrifamikla tíma í borginni traustum böndum. Utan á henni stendur enn stórum spreyjuðum stöfum; Mother Love Bone.
Högg dauðans
Wood missti fljótt tökin á neyslunni og lést úr of stórum skammti heróíns 1990, þá 24 ára aldri. Þetta var bylmingshögg fyrir stóran og náinn vinahóp. Wood var söngvari í efnilegri hljómsveit, Mother Love Bone, þar sem bassaleikarinn Jeff Ament og gítarleikarinn Stone Gossard voru ásamt honum helstu lagasmiðir.
Cornell ákvað að fylla skarð Wood þegar plata var sett saman, undir hljómsveitarnafninu Temple of the Dog, til minningar um vin þeirra. Í hópinn komu tveir nýir meðlimir, Eddie Vedder og Mike McCrady. Trommarar voru ýmsir, meðal annars vinur allra, Matt Cameron úr Soundgarden.
Upp úr þessu skelfilega atviki hertust vinaböndin enn meira og ef eitthvað var, þá kom meiri byr í segl þessar ungu rokkofurhuga. Hljómsveitin Pearl Jam varð til upp úr þessum bræðingi, þar sem slagarinn Hunger Strike, af Temple of the Dog plötunni, varð vinsælasta lagið á frumárum. Lagið Crown Of Thorns, þar sem Andy Wood fer á kostum, varð hins vegar þekktast meðal hörðustu aðdáenda.
Allir vildu vera eins og þeir
Soundgarden hélt áfram ferlinum og öll hjól snérust á fullri ferð. Plötur sveitarinnar seldust eins og heitar lummur, tónleikarnir voru brjálæðislegir og meðlimirnir voru eins og ofurhetjur, með Cornell í broddi fylkingar. Allir vildu vera eins og þeir og gaurarnir í Seattle-böndunum. Mussurnar þeirra urðu vinsælar, síða hárið, hergrænu jakkarnir, rifnu bolirnir og kæruleysislegt fasið.
Árið 1992 varð Seattle-rokkið að miðpunkti í kvikmyndinni Singles eftir Cameron Crowe. Áhrif Seattle-rokksins dýpkuðu við þetta og lét Cornell hafa eftir sér í viðtali að það sem hefði verið merkilegast við myndina væri það að hún var öll tekin upp áður en stormurinn skall á.
Crowe skynjaði að eitthvað væri þarna í loftinu sem væri þess virði að gera um það kvikmynd. (Fyrir þremur dögum var frumsýnd stuttmynd um þetta tímabil á vef Rolling Stone, þar sem meðlimir tjá sig um myndina.)
Heimurinn var þeirra
Heimsyfirráð Seattle-rokksins var orðin staðreynd. Upp úr sama vinahópnum - sem var undir sterkum áhrifum af dauða Wood, og sumir í viðkvæmu andlegu ástandi vegna hans - voru Soundgarden, Pearl Jam, Alice in Chains og Nirvana að leiða rokkið í gegnum breytingar á heimsvísu.
Nirvana, með Kurt Cobain sem söngvara og helsta lagasmið, reis hátt, eins og allar hinar sveitirnar. Fyrirsagnirnar voru þeirra. Myndböndin þeirra voru vinsælust, á þeim tíma í fjölmiðlasögunni þar sem það skipti sköpum. Og það sem meira var; útlit þeirra mótaði tískustrauma helstu fataframleiðenda heimsins. Grunge-bylgjan var útbreidd.
Fyrir menn um tvítugt, í kastljósi frægðarinnar, var þetta enginn dans á rósum.
Önnur skelfing heltók Seattle-rokkið þegar fyrrnefndur Cobain lést árið 1994.
Við tók erfitt tímabil hjá öllum sem komu nærri Seattle-rokkinu. Menn urðu ekki bara sárir og sorgmæddir, að missa annan hæfileikamann í blóma lífsins. Heldur fylgdi þessu hræðsla. Ótti við að eitthvað væri að elta þá, dauðinn sjálfur. Cornell lýsti því í viðtali við Seattle Times að borgin hefði umbreyst í „miðpunkt rokk-hryllingsins“ (Rock tragedy-central).
Cornell, eins og allir aðrir sem tilheyrðu rokk-senu borgarinnar, voru skelfingu lostnir. Í gegnum tónlistina tjáðu þeir sig, beint og óbeint, eins og heyrist ekki síst núna, um aldarfjórðungi síðar. Fimmta plata Soundgarden, Down On The Upside, kom út árið 1996 og fékk hún einróma lof gagnrýnenda líkt og Superunknown sem kom út skömmu áður en Cobain dó, í mars 1994. Hljómsveitin var sögð frumherji og leiðtogi einhverrar merkilegstu rokkbylgju síðari tíma. Og enginn stóð framar en Cornell sjálfur, sem söng um djúpa dali, dauðann og hræðslu við hann.
Ekki furða, eftir það sem á undan var gengið.
Á þessum tíma var Cornell í mikilli fíkniefnaneyslu og voru félagar hans í hljómsveitinni, ekki síst trommuleikarinn Matt Cameron - sem í dag er einnig trommari Pearl Jam - ósáttir við á hvaða leið sveitin væri. Soundgarden hætti, með dramatískum hætti, árið 1997.
Þá var Cornell kominn í samband við Susan Silver, sem starfaði sem framkvæmdastjóri bæði Soundgarden og Alice in Chains, þar sem annar náinn vinur Cornell var í fararbroddi, hinn magnaði Layne Staley.
Eftir að Soundgarden hætti hélt Seattle-rokkið áfram, engu að síður, og orðspor hljómsveitarinnar lifði góðu lífi. Það sama var ekki hægt að segja um fyrrnefndan Staley. Hann varð sprautufíkill, eftir því sem fíkniefnaneysla hans hertist, og lést hann, einn og yfirgefinn, heima hjá sér 5. apríl 2002, en Alice in Chains hafði þá ekki komið fram opinberlega síðan 1996. Ekki síst vegna ástandsins á Staley. (Móðir hans heldur minningu Staley á lofti og vinnur við að aðstoða sprautufíkla í Seattle úr heljargreipum fíknar).
Gömul sár rifnuðu upp. Skelfing dauðans og sorgarinnar endurtók sig. Allur heimurinn fylgdist með. Cornell hafði verið samferða Staley í gegnum rússíbanareið rokksins en Alice In Chains var stofnuð á svipuðum tíma og Soundgarden.
Enn einu sinni var botninum náð.
Nýtt upphaf
Þegar Staley lést var Cornell búinn stofna nýja hljómsveit ásamt vini sínum úr Rage Against The Machine, gítarleikaranum frábæra Tom Morello. Audioslave. Auk þess eignaðist hann dóttur með Susan konu sinni, árið 2000.
Eftir sóló-feril, sem var ágætlega heppnaður, þá náðu gömlu félagarnir í Soundgarden saman á nýjan leik árið 2010. Cornell sagði að það hefði allt verið eins og í gamla daga fyrir utan að það voru engar Jack Daniels flöskur nærri í þetta skiptið og engin fíkniefni. Þeir bara hittust og spiluðu lögin og höfðu gaman af. Ný plata kom út frá sveitinni 2012, King Animal, sem fékk góðar viðtökur gamalla og nýrra aðdáenda.
Cornell hélt áfram sínum sjálfstæða ferli, samhliða reglulegum tónleikum með Soundgarden. Í tvígang kom hann til Íslands til að halda tónleika, nú síðast í Eldborgarsal Hörpu í fyrra.
Cornell glímdi við alkóhólisma allan sinn feril, að því er fram kemur í skrifum Seattle Times, og hafði í aðdraganda dauðdaga hans, átt slæman neyslutíma, þar sem hans nánustu höfðu af honum áhyggjur, mitt í tónleikaferð með Soundgarden. Hann var undarlegu í tali við eiginkonu sínu í símtali og lét hún vita af því, en ekki liggur fyrir ennþá hvort hann var að neyta fíkniefna, áfengis eða eingöngu lyfseðilsskyldra lyfja, sem hann tók inn vegan kvíða og þunglyndis.
Samkvæmt yfirlýsingu eiginkonu Cornell, Vicky, sem hún sendi frá sér í dag, sagði hún að hann hefði mögulega tekið inn of mikið af kvíðalyfinu Ativan, en rannsókn málsins verður framhaldið.
Dimmir dalir
Meðal þess sem reyndist honum erfitt - ofan á allt annað - var þegar enn einn náinn vinur hans úr rokkinu, Scott Weiland söngvari Stone Temple Pilots, sem varð samferða Seattle-rokkstorminum yfir heiminn á árunum 1989 til 2000, lést árið 2015. Og það sama átti við þegar bassaleikarinn úr Alice in Chains, Mike Starr, lést árið 2011.
Andy Wood. Kurt Cobain. Layne Staley. Mike Starr. Scott Weiland. Og nú Chris Cornell. Allir dánir.
Dauðinn var alltaf nærri, með sína þungu áru og dimmu dali.
En minningin um frábæran söngvara og lagasmið lifir, eins og tilfellið er með samtíðarmenn hans úr storminum frá Seattle.
Orðlausir þegar hann birtist
Í grein sem aðstoðarritstjóri Seattle Times, Ryan Blethen, skrifaði á vef blaðsins í gær, rifjar hann upp þegar hann sá Cornell fyrst á tónleikum, sautján ára gamall, í Moore Theatre í miðborg Seattle. Í fyrrahaust voru þar mikil hátíðarhöld og tónleikar, þar sem þess var minnst að 25 ár væru frá því Seattle-rokkið sigraði heiminn.
Blethen segir tónleika sveitarinnar á þessum tíma hafa verið ótrúlega og í raun goðsagnarkennda, enn í dag. „Ég og vinir mínir vorum orðlausir þegar Cornell kom fram á sviðið, ber að ofan, í rifnum gallabuxum og svörtum skóm, hárið á fleygiferð um leið og lagið hófst með krafti.“
Þarna voru sett ný viðmið. Ný spor stigin í rokksöguna.