Totti, sem varð fertugur 27. september í fyrra, hefur átt ótrúlegan feril og er einn allra besti leikmaður sem Ítalir hafa átt, en hann hefur allan sinn feril leikið fyrir Roma. Margt má telja til, þegar kemur að merkilegum atriðum á ferli hans, en hér á eftir verða nefnd fimm merkilegar staðreyndir um þennan magnaða leikmann, sem er bæði leikja- og markahæsti leikmaður í sögu Roma. Mörkin er 307 og leikirnir 786.
1. Um aldarfjórðungur, 25 ár, eru nú síðan Totti fékk fyrst tækifæri til þess að æfa með aðalliði Roma. Enginn leikmaður í sögu félagsins hefur verið nándar nærri jafn lengi og Totti í aðalliðinu, en hann spilaði sinn fyrsta leik árið 1993, þá 16 ára. Margt hefur breyst frá því þetta var, ekki síst þegar kemur að fjömiðlum og umfjöllun um fótboltann, enda var internetið ekki farið að hafa mikil áhrif á fótboltann á þeim tíma þegar Totti kom fram. Hann var búinn að spila í fimm ár með aðalliði Roma áður en Google var stofnað (1998).
2. Totti segist ekki sjá eftir miklu á ferli sínum, en hann segist þó sjá eftir því að hafa aldrei átt möguleika á því að spila með hinum brasilíska Ronaldo, sem var í þrígang kosinn besti knattspyrnumaður heims hjá FIFA, þrátt fyrir að missa úr heil þrjú keppnistímabil, þegar hann var á besta aldri, vegna alvarlegra hnémeiðsla. Ronaldo var á hápunkti ferilsins þegar hann lék með Barcelona, Inter og Real Madrid, á árunum 1996 til 2006. Totti segir Antonio Cassano, sem lék með honum hjá Roma og ítalska landsliðinu, á árunum 2001 til 2006, hafa verið besta leikmann sem hann hafi leikið með á ferli sínum.
3. Hápunkturinn á ferli Totti var fyrir meira en áratug, þegar Ítalía varð heimsmeistari, á HM í Þýskalandi árið 2006. Totti var stoðsendingakóngur keppninnar, og lék lykilhlutverk sem sóknartengiliður, með miðjumennina Daniel De Rossi og Andrea Pirlo fyrir aftan sig. Totti var af mörgum talinn vera kominn á síðustu stig ferilsins, tæplega þrítugur. Enginn gat séð það fyrir að hann yrði enn að ellefu árum síðar!
4. Totti giftist eiginkonu sinni Ilary Blasi 19. Júní 2005 og brúðkaupið sýnt í beinni útsendingu í sjónvarpi. Blasi er vinsæl sjónvarpskona á Ítalíu, og hafði starfað við fyrirsætustörf þegar þau kynntust. Totti var í fyrstu á móti því að sýna beint frá brúðkaupinu, en samdi um að fjömiðlar þyrftu að greiða verulegar fjárhæðir til að sýna frá þessum persónulega degi þeirra hjóna, og fóru allir peningarnir til góðgerðarmála. Totti og Blasi eru oft kölluð Beckham-hjón Ítala, með skírskotun í David og Victoriu Beckham.
5. Totti og bróðir hans Riccardo reka viðskiptaveldi þeirra. Það byggir á tveimur stoðum. Annars vegar rekstri fótboltaskóla undir merkjum félags sem heitir Number Ten. Þar á meðal er knattspyrnuskóli Francesco Totti og einnig mótorhjólaíþróttafélag sem heitir Totti Top Sport.