Heildarverðmæti sumarbústaða og sumarbústaðalóða á Íslandi er 231 milljarður króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2018. Það er 38,7 prósenta hækkun milli ára. Þjóðskrá Íslands hefur kynnt nýtt fasteignamat alls húsnæðis á Íslandi fyrir næsta ár.
Þjóðskrá tók í þetta skipti upp nýja aðferðafræði fyrir útreikninga sína á sumarbústöðum, en það er sams konar aðferðafræði og búið er að taka upp fyrir íbúðareignir og verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Nýja aðferðin byggist á þinglýstum kaupsamningum.
Alls eru 19.372 sumarbústaðir á landinu. Núverandi fasteignamat þessara eigna hljóðar upp á 167 milljarða en matið fyrir næsta ár er 231 milljarður króna, sem er sem fyrr segir 38,7 prósent. Níu af hverjum tíu sumarbústöðum hækka í mati milli ára en einn af hverjum tíu lækkar. Það eru miklar breytingar eftir svæðum, en algengasta hækkunin er 39,7 prósent. 70 prósent þessara eigna hækka um innan við fjórar milljónir og 80 prósent innan við sex milljónir, þrátt fyrir að breytingarnar séu miklar í prósentum talið.
Þingvellir eru dýrasta sumarbústaðasvæði landsins samkvæmt nýja fasteignamatinu, þar á eftir kemur Kiðjaberg og svæðið við Álftavatn. Sumarhúsabyggðir á Suðurlandi eru þær verðmætustu, en það sem ræður miklu um verðmæti sumarbústaða er staðsetningin. Fjarlægð frá golfvöllum, háspennulínum og nálægð við vatn eru meðal þess sem tekið er tillit til í matinu.
Mest hækkun á Húsavík
Heildarfasteignamat fasteigna á Íslandi hækkar um 13,8 prósent frá árinu í ár, og verður 7.288 milljarðar króna. Íbúðarhúsnæði hækkar mikið á milli ára, eða um 15,5 prósent heilt yfir. Það verður tæplega 5.000 milljarðar króna, 4.980 milljarðar, en 130.346 íbúðareiningar eru á Íslandi samkvæmt Þjóðskrá.
Nú er svo komið að íbúðir í sérbýli hækka meira heldur en íbúðir í fjölbýli, þó ekki muni mjög miklu. Sérbýli hækka um 15,8 prósen á meðan fjölbýli hækka um 15,2 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu er munurinn þó meiri, þar sem sérbýli hækka um 17,5 prósent en fjölbýli um 15,4 prósent. Utan höfuðborgarsvæðisins er meiri hækkun í fjölbýli, 13,7 prósent samanborið við 12,2 prósent í sérbýli.
Húsavík sker sig úr öðrum bæjum á landinu, en þar hækkar íbúðamat um 42,2 prósent milli ára.
Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 14,5%, um 12,5% á Suðurnesjum, um 14% á Vesturlandi, 8,6% á Vestfjörðum, 12,2% á Norðurlandi vestra, 12,4% á Norðurlandi eystra, 6,4% á Austurlandi og um 12,9% á Suðurlandi.
Fasteignamat hækkar mest í Kjósarhreppi eða um 41,3%, um 27,5% í Norðurþingi, um 25,9% í Reykhólahreppi og 25,2% í Skorradalshreppi.