Á einum og hálfum mánuði hafa þrjú stærstu olíufyrirtæki landsins tilkynnt um samruna við þrjú af stærstu smásölufyrirtækjum landsins.
Í morgun var tilkynnt um að N1, sem rekur eldsneytisstöðvar út um allt land og er skráð í Kauphöll Íslands, hafi náð samkomulagi um kaup á öllu útgefnu hlutafé í Festi, sem sérhæfir sig í rekstri verslunarfyrirtækja. Alls rekur Festi 28 verslanir undir merkjum Krónunnar, ELKO, Nóatúns og Kjarvals. en félagið á auk þess vöruhúsið Bakkann og 17 fasteignir. Heildarvelta Festis var 39 milljarðar króna á síðasta ári og heildarvirði félagsins er metið á 37,9 milljarða króna í viðskiptunum. Kaupverðið verður greitt með hlutafé í N1 og yfirtöku skulda. Virði þeirra hlutabréfa sem greidd verða eru 8.750 milljónir króna auk þess sem betri afkoma Festis getur leitt af sér viðbótargreiðslu.
Tilkynningin gerði það að verkum að hlutabréf í N1 ruku upp í verði og höfðu hækkað um sjö prósent skömmu fyrir hádegið í dag í um 500 milljóna króna viðskiptum. Verðið á hlut er nú 121 krónur, sem er umtalsvert hærra en verðið sem eigendur Festis fá á þau bréf sem þeim eiga að fá við kaupin. Þar er verðið 115 krónur á hlut en seljendurnir skuldbinda sig til að hvorki selja né framselja helming af þeim hlutum í N1 sem þeir fá afhenta fyrir lok árs 2018. Komi til viðbótargreiðslu vegna betri afkomu Festi hf. mun sú greiðsla vera í formi hluta í N1 á genginu 115 en þeir hlutir munu jafnframt falla undir sölubann fram til 2018.
Fylgja í fótspor hinna olíufélaganna
Þessi sameining olíufélags og smásala er sú þriðja sem tilkynnt er um á mjög skömmum tíma. Fyrst var greint frá því þann 26. apríl að smásölurisinn Hagar væru að kaupa Olís. Vænt kaupverð í þeim viðskiptum er 9,2 til 10,2 milljarðar króna. Það verður greitt með afhendingu á 111 milljónum hluta í Högum, handbæru fé og lánsfé. Samhliða keyptu Hagar fasteignafélagið DGV á um 400 milljónir króna.
Þann 21. maí var svo tilkynnt um að Skeljungur, þriðja stóra olíufélagið sem er líkt og N1 skráð á markað, hefði hafið samningaviðræður um kaup á öllu hlutafé Basko. Það félag fer með eignarhald á Rekstrarfélagi Tíu Ellefu ehf., Ísland Verslun hf. og Imtex ehf. Rekstrarfélag Tíu Ellefu ehf. rekur samtals 35 þægindavöruverslanir undir merkjum 10-11 og Háskólabúðarinnar og er einnig móðurfélag Drangaskers ehf. sem rekur fimm kaffihús undir merkjum Dunkin Donuts. Félagið rekur einnig eina Inspired by Iceland verslun og veitingastaðinn Bad Boys Burgers & Grill. Ísland Verslun hf. rekur þrjár verslanir undir merkjum Iceland. Kaupverðið í þeim viðskiptum er áætlað 2,8 milljarðar króna auk yfirtöku skulda.
Costco og H&M áhrifin
Þessi mikla samþjöppun á smásölumarkaði eru viðbrögð við þeim breytingum sem íslensk verslun er að verða fyrir með tilkomu Costco inn á íslenskan dagvöru- og raftækjamarkað. Samkvæmt tölum frá Meniga, sem greint var frá í Fréttablaðinu, var velta Costco fyrstu daganna eftir opnun verslunarinnar meiri en velta Bónus, flagskipsverslun Haga. Þær tölur sýndu að Costco væri með 32 prósent af heildarveltunni á dagvörumarkaði en Bónus hafi verið með 28 prósent.
Þau eru líka viðbrögð við því að H&M opnar brátt fyrstu af þremur verslunum sínum hérlendis í Smáralind. Þrátt fyrir að H&M, sem er ein stærsta fataverslunarkeðja heimsins, hafi aldrei rekið verslun hér á landi, þá hafa rannsóknir sýnt að markaðshlutdeild fyrirtækisins í fatainnkaupum Íslendinga er mikil og stöðug.
Kjarninn fjallaði um stöðuna eins og hún birtist hjá notendum Meniga, fyrir árið 2013. Tæp 37 prósent notenda Meniga verslaði í H&M. Tekjuhærri hópar versla mun oftar en þeir tekjulægri. Þannig versluðu 26 prósent tekjulægsta hópsins í H&M í samanburði við 47 prósent þeirra tekjuhæstu.
Hagar og Festi hafa verið að bregðast við innkomu H&M og Costco með því að loka verslunum. Hagar lokuðu til að mynda Debenhams, minnkuðu verslun Hagkaupa um tæplega fimm þúsund fermetra, lokuðu matvöruhluta Hagkaupa í Holtagörðum, Outlet-verslun á Korputorgi, Útilífsversluninni í Glæsibæ og tveimur tískuvöruverslunum á síðasta rekstrarári. Þá hófst lokunarferli á Hagkaupsverslun í Kringlunni í byrjun árs í fyrra og því lauk í febrúar. Kjarninn greindi frá því nýverið að Festi væri að loka Intersport-verslun sinni.