Ef ráðast á í uppbyggingu stofnvega innan höfuðborgarsvæðisins eingöngu til þess að takast á við auka bílaumferð innan og á milli sveitarfélaganna á suðvesturhorni landsins, mun það verða mun óhagkvæmara en að blanda saman uppbyggingu almenningssamgangna-, bílaumferðar- og hjólreiðainnviða.
Sú stefnumótun sem borgar- og bæjarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hafa ráðist í á undanförnum árum byggir á mati verkfræðistofunnar Mannvits á samgöngusviðsmyndum sem unnin var fyrir sveitarfélögin árið 2014.
Kjarninn fjallaði nýlega um Borgarlínuna og þær leiðir sem fyrirhugað er að nýtt og öflugra almenningssamgöngukerfi mun liggja um höfuðborgarsvæðið. Þar kemur fram að framkvæmdir við Borgarlínuna muni á endanum kosta á bilinu 63 til 70 milljarða króna. Mörgum hefur blöskrað þessi upphæð og lagt til að aðrir kostir verði skoðaðir.
Meðal þeirra sem hafa kallað eftir könnun á öðrum leiðum er Jón Gunnarsson samgönguráðherra. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í byrjun maí að í ljósi þess hve kostnaðarsöm Borgarlínan verður, þá sé eðlilegt að skoðað yrði „í hvaða endurbætur á stofnbrautum mætti ráðast í fyrir sömu fjárhæð og stórbæta jafnframt umferðarflæði“.
Ljóst er að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu munu ekki geta staðið straum af framkvæmdum við Borgarlínu án aðkomu ríkisins að kostnaðinum. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur samtal milli ríkis og bæja vegna þessa ekki enn hafist. Ekki er heldur gert ráð fyrir framkvæmdinni á fjármagnsáætlun stjórnvalda og ljóst að samgöngumál munu þurfa töluvert aukið fjármagn á fjárlögum næstu ára ef ríkið á að koma að uppbyggingunni.
Niðurstöður skýrslu Mannvits eru hins vegar skýrar: „Ef hagkvæmar og umhverfisvænar samgöngur eru markmiðið þá er ljóst að samgöngu- og skipulagsyfirvöld eiga að stefna að uppbyggingu þéttari byggðar og leggja um leið áherslu á eflingu almenningssamgangna, göngu og hjólreiða.“
Þrjár sviðsmyndir sem þegar hafa verið kannaðar
Í skýrslu Mannvits sem unnin var fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2014 var þremur sviðsmyndum stillt upp. Sviðsmyndirnar byggðu á spám um fjölgun íbúa til ársins 2040, umferðarþróun og þróun byggðar á svæðinu.
Á næstu áratugum – til ársins 2040 – er gert ráð fyrir að íbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins aukist um 70 þúsund manns. Það er um það bil sami fjöldi sem býr í dag í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ samanlagt. Árið 2040 er þess vegna gert ráð fyrir að heildaríbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins verði þá kominn upp í 275 þúsund íbúa.
Sviðsmyndirnar þrjár fjalla í einfaldaðri mynd um þjár stefnumótunarleiðir. Í öllum sviðsmyndum var gert ráð fyrir uppbyggingu stofnkerfis hjólreiðaleiða til að efla þann ferðamáta.
Sviðsmynd A: Bílaborgin – 2040
Sviðsmynd A gerir ráð fyrir að allur þungi verði lagður í uppbyggingu innviða fyrir einkabílinn. Skipulag höfuðborgarsvæðisins miðar að mestum hluta að uppbyggingu utan núverandi byggðamarka. 60 prósent uppbyggingarinnar fari í útþenslu en 40 prósent innan byggðamarkanna. Þá er einnig gert ráð fyrir að hlutfall ferðamáta sé óbreytt frá því sem er í dag þ.e. að um 76% allra ferða innan svæðisins verði áfram farnar á einkabíl.
„Aðaláherslan verði þá á að auka afkastagetu stofnvegakerfisins verulega til að taka við áætlaðri bílaumferð í framtíð. Ekki er gert ráð fyrir breytingum í hlutdeild annarra ferðamáta og því verði fjárfestingar í almenningssamgöngum óverulegar.“
Sviðsmynd B: Blandaða borgin – 2040
Sviðsmynd B gerir ráð fyrir að lögð verði áhersla á bæði afkastamiklar almenningssamgöngur og uppbyggingu á stofnvegakerfinu. Miðað við þessa sviðsmynd er gert ráð fyrir að uppbygging fari að meirihluta fram innan núverandi byggðamarka. 85 prósent af nýrri byggð verði til innan svæðisins en 15 prósent utan núverandi marka.
Hlutfallsleg skipting ferðamáta um höfuðborgarsvæðið verður svipuð og þekkist í til dæmis Álaborg, Stafangri og Þrándheimi. Þar er hlutfall einkabíla um það bil 58 prósent og hlutfall almenningssamgangna 12-13 prósent.
„Gert er ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum á stofnvegakerfinu til að liðka fyrir bílaumferð sem verður, þrátt fyrir breytingar á ferðamátavali, öllu meiri en í dag. Þó eru framkvæmdir á stofnvegakerfinu mun minni en í sviðsmynd A. Megináhersla verði á uppbyggingu hágæðakerfis fyrir almenningssamgöngur til viðbótar við kerfi strætisvagna,“ segir í skýrslu Mannvits.
Sviðsmynd C: Allir í strætó (eða lestina (eða bæði)) – 2040
Í þessari sviðsmynd er gert ráð fyrir að öll uppbygging fari fram innan núverandi byggðamarka svo höfuðborgarsvæðið þenst ekkert út. Hér er gert ráð fyrir að hlutfall ferðamáta muni breytast þannig að það líkist því sem nú er í Björgvin, Magdeburg og Turku. Hlutfall ferða í einkabíl verði um 50 prósent og almenningssamgöngur verði um 16-20 prósent. „Aðaláherslan verði á uppbyggingu hágæðakerfis fyrir almenningssamgöngur til viðbótar við kerfi strætisvagna.“
Bílaborgin dýrust
Samkvæmt greiningu Mannvits er sviðsmynd A dýrust. Eftir að upphæðirnar í skýrslunni hafa verið leiðréttar miðað við verðlag í maí 2017 sést að kostnaður vegna framkvæmda við afkastameira stofnvegakerfi mun kosta tæplega 104 milljarða króna.
Í blandaða kerfinu sem sveitarfélögin róa sameiginlega í átt að – það er sviðsmynd B – er kostnaðurinn sambærilegur eða rúmlega 100 milljarðar króna. Þar er gert ráð fyrir að almenningsamgöngukerfi muni kosta um það bil 70 milljarða króna og endurbætur á stofnvegakerfinu til þess að anna aukinni bílaumferð muni kosta um það bil 30 milljarða.
Kostnaðurinn við sviðsmynd C er um það bil 10 milljörðum minni. Stofnkostnaður við almenningssamgöngukerfið er sá sami en minni fjárfestingar er þörf í stofnvegakerfinu innan höfuðborgarsvæðisins.
Bílaborgarstefna er ekki samræmi við önnur gildi
Reynslan af stefnu þar sem áhersla er eingöngu lögð á uppbyggingu innviða fyrir einkabílasamgöngur í sambærilegum borgarsamfélögum erlendis hefur ekki þótt nægilega góð, segir í skýrslu Mannvits. „[Í] flestum borgarsamfélögum af svipaðri stærð og skala og höfuðborgarsvæðið hefur stefnan verið sett á eflingu annarra ferðamáta, að íbúafjöldi aukist án þess að bílaumferð aukist“.
Í niðurstöðum skýrslunnar er jafnframt bent á að erfitt geti reynst að uppfylla ferðaþarfir fólks með góðu móti eingöngu með uppbyggingu umferðarmannvirkja. Ef vöxtur höfuðborgarsvæðisins verður að mestu út á við – ef byggðin dreifist enn frekar en þéttist ekki – mun bílaumferð aukast langt umfram íbúafjölgun.
„Tími sem hver íbúi eyðir að meðaltali í umferðinni muni aukast um 25% og tafir einnig verulega þrátt fyrir miklar fjárfestingar í umferðarmannvirkjum.“
Það gæti, með öðrum orðum, verið léleg fjárfesting af hálfu stjórnvalda að ætla að eyða sameiginlegum sjóðum í innviði fyrir aukna bílaumferð. Vöxtur umferðarinnar í þeim veruleika er einfaldlega of mikill til þess að kerfið nái utan um það.
Þá er ótalið hvaða áhrif bílaborgarstefnan hefur á stefnu sveitarfélaganna í öðrum málaflokkum. Í viðauka með skýrslu Mannvits eru sviðsmyndirnar bornar saman við önnur stefnuskjöl sveitarfélaganna. Sviðsmynd A – bílaborgin – hefur lítið eða ekkert samræmi með flestum landsáætlunum og skipulagsáætlunum sem taldar eru upp. Sviðsmyndir B og C samrýmast hins vegar flestum stefnuskjölunum.
Samgönguvandinn leystur í blönduðu kerfi
Markmiðið með kortlagningu og ákvörðunum um legu Borgarlínunnar er að undirbúa nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Tilgangurinn er að taka frá svæði í langtímaskipulagi borgarlandsins fyrir þessa samgönguæð.
Ljóst er að til langs tíma verður ekki hægt að leysa samgöngumál höfuðborgarsvæðisins með annað hvort öflugri almenningssamgöngum eða öflugra gatnakerfi. Samspil þessara tveggja lausna þarf að koma til svo hægt sé að skapa greiðfært kerfi.
Ástæða þess að sveitarfélögin hafa lagt svo mikla áherslu á uppbyggingu öflugs og afkastamikils almenningssamgöngukerfis í stað þess að reyna að leysa bílaumferðarhnúta eru þær raunir sem borgir víða um heim hafa gengið í gegnum. Sem dæmi má nefna bandarískar borgir sem í dag súpa seyðið af ofuráherslu fyrri tíðar á gatnasamgöngur á kostnað almenningssamgatna.
Umferðarhnútar í margra hæða mislægum gatnamótum þar sem fjölmargar akreinar úr báðum áttum mætast eru daglegt brauð í stóru bílaborgum Bandaríkjanna. Þar þykir það sannað að fleiri akreinar leysa ekki vandann heldur auka flækjuna enn frekar.
Þá spila sjónarmið um betri loftgæði og umhverfismál inn í aukna áherslu borga víða um heim á öflugri almenningssamgöngur.
Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa viðurkennt að almenningssamgöngur gegna mikilvægu hlutverki fyrir íbúa svæðisins. Borgarlínan mun þess vegna teygja sig í gegnum öll sveitarfélögin sem taka þátt í verkefninu. Það eru Mosfellsbær, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður.