Hlutdeild ríkisins í hverjum seldum lítra af olíu hefur aldrei verið meiri, en á síðustu fjórum vikum hafa um það bil 60% olíutekna runnið til hins opinbera. Hlutfallið er hæst í Costco, en þar er hlutdeild ríkisins í hverjum bensínlítra 65%. Þetta sést í bensínvakt Kjarnans þar sem skoða má sundurliðað bensínverð og þá kostnaðarliði sem mynda bensínverð hér á landi.
Bensínverð á hvern lítra stendur nú í 186,4 krónum og hefur það lækkað um 9,5 kr. frá því í síðasta mánuði. Þar sem flest opinber gjöld á bensíni eru fastar krónutölur á hvern lítra hefur hlutdeild ríkisins aukist samhliða verðlækkun á bensíni.
Á síðustu tíu árum hefur samanlagður hlutur ríkisins á tímabilinu breyst mikið, en lægst var hann 43,78% í júlí 2008. Hins vegar mælist hann nú 59,89% og hefur aldrei verið hærri en nú. Mest er hlutdeild ríkisins í bensíni frá Costco, en þar er hún 65% af hverjum seldum lítra.
Sennilegt er að verðlækkunin megi að miklu leyti rekja til opnun Costco. Áætlaður hlutur olíufélaga, sem inniheldur álagningu þeirra auk trygginga- og flutningskostnaðar hefur snarlækkað á síðustu mánuðum og stendur nú í rúmum 33 krónum á lítra. Ekki liggja fyrir tölur um álagningu olíufélaganna, en gera má ráð fyrir því að hún hafi lækkað hjá þeim í kjölfar aukinnar samkeppni frá Costco.
Bensínverð á Íslandi skiptist í þrjá meginliði: Algengt innkaupsverð, opinber gjöld sem ríkið leggur á eldsneytisverð og hlutur olíufélaga. Opinberu gjöldin breytast lítið á milli mánaða; það er raunar aðeins innkoma virðisaukaskattsins sem getur breyst. Virðisaukaskatturinn er hlutfallslegur skattur á eldsneytisverð en önnur opinber gjöld sem leggjast á lítraverðið eru föst krónutala sem ákvörðuð er í fjárlögum. Krónugjöldin á bensínverð skiptast svo í almenn vörugjöld, sérstök vörugjöld og kolefnisgjald.
Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði um 9% á síðustu fjórum vikum, en búist er við því að það muni hækka lítillega á næstu vikum. Hins vegar er mögulegt að virk samkeppni með Costco á markaðnum muni halda áfram að minnka álagningu íslensku olíufélaganna og draga þannig bensínverðið niður.
Lesa má nánar um sundurliðun bensínverðsins á vef bensínvaktarinnar. Þar eru verðupplýsingar um bensínverð teknar saman á 15. dag hvers mánaðar og hægt að sækja undirliggjandi gögn og reiknimódel á Excel-sniði.