Loftslagsbreytingar, fríverslun og hnattrænn flóttamannavandi verða aðalumfjöllunarefnin á ráðstefnu 20 stærstu iðnvelda heims, G20, sem haldin verður í Hamborg í Þýskalandi í næstu viku.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tekur þá á móti þjóðarleiðtogum 19 ríkja heims og föruneyti þeirra.
Með þessa dagskrá að vopni mun Merkel eiga erfitt að stýra fram hjá ágreiningi við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Trump hefur fjallað um öll þessi mál síðan hann tók við embætti vestanhafs og snúið frá stefnu fyrri stjórnvalda þannig að Bandaríkin eru nú á leið einangrunar í alþjóðasamskiptum.
Ráðstefnan í Hamborg verður jafnframt fyrsti fundur Donalds Trump og Vladimírs Pútín eftir að Trump var kjörinn forseti í vetur.
Á fundi sjö stærstu iðnvelda heims, G7, í maí tókust leiðtogar Evrópuríkja og Donald Trump á um loftslagsmál og flóttamannavandann. Líklegt er að enn verði tekist á í Hamborg, enda hefur Trump sagt Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu í millitíðinni.
Angela Merkel á breiðan stuðning vísann frá öðrum þjóðum sem sækja G20 ráðstefnuna. Þegar kemur að loftslagsbreytingum eru Kína og Indland mikilvægar bandalagsþjóðir. Bæði ríki taka þátt í Parísarsamkomulaginu og hafa undirstrikað fylgi sitt við málstaðinn eftir að Trump dró Bandaríkin út.
Kína ber ábyrgð á stærsta hluta útblásturs gróðurhúsalofttegund nokkurs ríkis, rétt á undan Bandaríkjunum. Indland er þriðja mesta mengunarríki heims. Ef þessar þjóðir myndu einnig segja sig frá Parísarsamkomulaginu myndi það falla.
Undanfarið hefur Merkel treyst böndin við Kína og Indlandi. Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, var nýlega í opinberri heimsókn í Berlín og Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, kom einnig í opinbera heimsókn.
Leiðtogi hins frjálsa heims
Þó Donald Trump hafi ekki verið forseti Bandaríkjanna lengi þá hefur hann haft talsverð áhrif á landslag alþjóðastjórnmála. Nokkur Evrópuríki hafa ákveðið að snúa sér enn frekar að öðrum bandamönnum þegar kemur að samstarfi á alþjóðavettvangi og frá Bandaríkjunum.
Trump hefur verið varaður við. Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fjallaði um stöðu Bandaríkjanna á sínum fyrsta blaðamannafundi sem aðalritari.
„Ef Bandaríkin aftengja sig í hinum ýmsu málefnum sem tengjast utanríkismálum og alþjóðasamskiptum, þá er óumflýjanlegt að aðrir leikmenn taka við keflinu,“ sagði Guterres. „Ég held að það verði ekki gott fyrir Bandaríkin og ég held að það sé ekki gott fyrir heiminn.“
Þýsk stjórnvöld segjast ekki vera að leita eftir árekstrum á ráðstefnu G20-landanna. Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, segir Þýskaland heldur ekki ætla að stilla sér upp andspænis Bandaríkjunum.
Merkel hefur þó verið nefnd sem næsti „leiðtogi hins frjálsa heims“. Það er óformlegur titill sem forseti Bandaríkjanna hefur borið í alþjóðastjórnmálum undanfarna áratugi. Í Evrópu hefur Merkel nokkuð gott traust þegar kemur að alþjóðamálum. Í könnun Pew Research Center kemur fram að 52% Evrópubúa treysta Merkel til að „gera hið rétta í alþjóðamálum“.
Merkel virðist einnig telja að nú séu tímamót í alþjóðasamskiptum Þýskalands. „Þeir tímar þar sem við getum treyst fullkomlega á aðra eru liðnir, í vissum skilningi. Það er það sem ég hef upplifað undanfarna daga,“ lét Merkel hafa eftir sér á fundi með flokksfólki sínu eftir G7-fundinn í maí. „Þess vegna get ég aðeins sagt: Við Evrópubúar verðum raunverulega að taka örlögin í okkar hendur.“
Í formála kynningarbæklings sem dreift er í tengslum við G20-ráðstefnunna skrifar Merkel um samstarf stærstu iðnvelda heims og þau mál sem brenna helst á alþjóðasamfélaginu. „Þessi verkefni verða augljóslega ekki unnin af löndum á eigin vegferð eða með einangrunarhyggju og verndarhyggju. Ekki er hægt að snúa aftur í heiminn fyrir hnattvæðinguna.“